„Ég heiti Hrönn Sveinsdóttir og er framkvæmdastjóri Bíó Paradísar.
Þetta er hundurinn Lucy, hún kemur með mér í vinnuna. Í dag er hún aðstoðarframkvæmdastjóri.
Það besta við þennan árstíma er tilhlökkunin, sem fylgir örugglega góðum æskuminningum.
Ég man mjög vel eftir einu aðfangadagskvöldi í Álfatúninu þegar ég var svona 8 ára og bróðir minn 9 ára. Við þurftum að leggjast niður á sófann og anda rólega af því við vorum í svo miklu áfalli yfir því að jólin væru loksins komin.
Við gátum varla talað. Mér leið eins og ég þyrfti að kasta upp. Ég man að ég sagði við bróður minn: „Þú áttar þig á því að jólin eru komin.“ Hann svaraði: „Já, ég veit, þetta er rosalegt.“
Okkur fannst þetta bara svo stórkostlegt augnablik. En svo verður maður eldri og jólin týnast aðeins þegar maður er ung manneskja. Þá er maður svo uppfullur af sjálfum sér og jólin hætta að skipta jafnmiklu máli því maður er ekki með þessa barnslegu tilhlökkun lengur. En maður upplifir þetta aftur þegar maður eignast börn.
Nú erum við systkinin öll orðin svo stór og fullorðin, eigum okkar eigin fjölskyldur. Við erum ekki saman á aðfangadag en hittumst á jóladag og ég vona að það verði þannig í ár líka.
Í Bíó Paradís erum við með pólý jól. Það er finnsk jólakvikmynd sem við erum að frumsýna sem fjallar um að opna hjónabandið fyrir jólin. Sumir opna dagatal um jólin, aðrir opna hjónabandið.“
Athugasemdir