Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur lagt fram kæru til lögreglu vegna matvælalagersins sem var á vegum þrifafyrirtækisins Vy-þrifa ehf. í Sóltúni 20.
Samkvæmt svari frá Reykjavíkurborg til Heimildarinnar er kæran undanþegin upplýsingalögum þar sem hún er hluti af rannsókn sakamáls.
Vy-þrif fékk frest til 14. nóvember til að afhenda heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur allar upplýsingar um dreifingu matvæla frá Sóltúni. Þessum upplýsingum var ekki skilað inn.
Í tilkynningu frá heilbrigðiseftirlitinu þann 10. október sagði að matvælin á lagernum í Sóltúni 20 væru „heilsuspillandi og óhæf til neyslu og því var nauðsynlegt að leggja hald á þau og tryggja þar með matvælaöryggi.“
Þá kom fram að rannsókn heilbrigðiseftirlitsins beinist meðal annars að uppruna matvælanna og hvort þeim kunni að hafa verið dreift til matvælafyrirtækja. Mikið var af músum og rottum í kjallaranum, bæði lifandi og dauðum, og greinileg merki um að nagdýr hefðu nagað sig í gegn um umbúðir matvæla.
Athugasemdir