Aðfaranótt fimmtudags, nóttina áður en Katla Steinþórsdóttir og fjölskylda flugu til Tenerife, lágu þau andvaka á heimili sínu í Grindavík vegna jarðhræringa. Þau áttu bókaða ferð í sólina vegna brúðkaups sem þeim var boðið í og fer fram um helgina. Tilviljun réði því sem sagt að þau voru ekki á heimili sínu þegar Grindavík var rýmd vegna jarðhræringa á föstudag.
„Við vorum bara búin að pakka sumarfötum í tvær ferðatöskur. Hitt varð eftir,“ segir Katla Steinþórsdóttir sem hefur búið ásamt eiginmanni sínum Matthíasi Má og þremur sonum – fjögurra, sjö og tólf ára – í Grindavík í sjö ár.
„Okkur var strax tekið opnum örmum. Strákarnir okkar eru Grindvíkingar. Þeir þekkja ekkert annað,“ segir Katla.
„Maður syrgir meira samfélagið en steypuna“
Það er hjónunum erfitt að vera fjarri Grindvíkingum þegar svo illa stendur á, svo ekki sé minnst á hugsanirnar um eigurnar sem enn eru á heimili fjölskyldunnar og enginn hefur enn komist í að sækja.
„Okkur fullorðna fólkinu hefur langað til þess að panta okkur flug heim til þess að geta bjargað dótinu okkar og heimilinu okkar,“ segir Katla. Móðir hennar ætlar að reyna að ná í helstu verðmæti þangað í dag.
„Við erum með einhver útiföt í bílnum sem er í Keflavík. Annars erum við bara með sundföt, sumarkjóla og stuttbuxur.“
„Hérna höfum við allavega samastað“
Katla starfar sem deildarstjóri á leikskólanum Laut í Grindavík og sér því fram á að þegar fjölskyldan komi heim vanti þau ekki einungis heimili heldur þurfi Katla einnig að leita sér að nýrri vinnu. Nú leitar fjölskyldan að samastað í þéttbýli, helst á höfuðborgarsvæðinu.
„Við vorum aðallega að hugsa um að vera í einhverju þéttbýli svo strákarnir geti stundað íþróttir og svona. Reyna að hafa þetta sem eðlilegast,“ segir Katla.
Þó að sólin á Tenerife sé hlý og yngstu strákarnir hafi skemmt sér vel í útlandinu þá er það erfitt fyrir foreldrana að njóta ferðarinnar.
„En við ætlum að klára þessa ferð og ætlum að leyfa börnunum okkar að upplifa skemmtilega utanlandsferð og gera okkar besta í þessum aðstæðum því það er engin hjálp í okkur heima hvort eð er. Þetta er það besta í stöðunni. Hérna höfum við allavega samastað,“ segir Katla.
Fjölskyldan snýr aftur heim í næstu viku en Katla óskar þess að allt fari á besta veg og Grindvíkingar geti sameinast að nýju.
„Þetta er bara heimilið okkar,“ segir Katla. „Maður syrgir meira samfélagið en steypuna.“
Athugasemdir