Ein kisa. Er úti, mannblendin og gæf. Hún er ólarlaus.
Kisan Max. Örmerktur en búinn að týna ólinni sinni.
Kisan Ronja. Það er opinn gluggi og hún var farin út þegar húsráðandi fór.
Guðbrandur. Hann er þrífættur.
Irmilín slapp frá mér og varð því miður eftir.
Tveir páfagaukar.
Fjórar hænur í bakgarðinum.
Tvær kisur sem hlupu út.
Sófus og Svala. Þengill og Þula. Bati og Birta. Skvísa og Simbi. Og Yasmin, Tony, Kyndill og allar hinar kisurnar. Í tugatali urðu þær eftir í Grindavík er rýma þurfti bæinn í skyndi í gærkvöldi og nótt. „Margir reyndu að taka kettina en gátu það ekki,“ segir Sandra Ósk Jóhannsdóttir, sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu, um gríðarleg viðbrögð við færslu sem samtökin, í samvinnu við fjölmörg önnur dýraverndarsamtök, birtu á Facebook síðdegis í dag. „Margir voru að leita úti að köttunum sínum í nótt áður en þeir urðu að fara. En á endanum fundu þeir þá ekki og þurftu að rýma. Þetta er mjög erfitt fyrir eigendur gæludýra í Grindavík,“ segir hún. „Neyðin er mikil og okkur ber skylda til að hjálpa dýrunum og fólkinu sem á þau.“
Fleiri dýr en kettir eru nú í Grindavík, ein og yfirgefin og án umönnunar þar sem öllum mönnum er bannað að fara inn á svæðið vegna hættu sem stafar af jarðskjálftum og mögulegu eldgosi.
„Það er mjög átakanlegt að sjá hvað það eru mörg dýr sem eru föst þarna í Grindavík og sum lokuð inni.“
Samtökin sem hafa tekið sig saman og búið til skráningu gæludýra sem urðu eftir í Grindavík, m.a. Dýrfinna, Kattholt og Villikettir, eru tilbúin með hóp fólks sem hefur mikla þekkingu og reynslu af því að fanga dýr. „Við erum að reyna að fá leyfi, um leið og það er gerlegt, til að senda þennan reynda leitarhóp inn á svæðið,“ segir Sandra við Heimildina. Hópurinn er tilbúinn, hvenær sem er sólarhringsins, að ganga í verkið – að bjarga dýrum bæjarins.
„Við yrðum þakklát ef hún yrði sótt,“ skrifar kona á Facebook-síðuna Gæludýr í Grindavík, þar sem hún segir kisuna sína hafa orðið eftir. Ef ekki verði hægt að sækja hana þurfi að gefa henni mat.
Sögur sem þessar flæða um Facebook-síðuna. Fólk tilkynnir um hesta, bréfdúfur og fiska. Dýr sem flest hafa mat og drykk í augnablikinu en verður að sinna um leið og færi gefst. Helst sækja.
„Úff, við eiginlega bjuggumst ekki við svona miklum viðbrögðum,“ segir Sandra Ósk. „Það er mjög átakanlegt að sjá hvað það eru mörg dýr sem eru föst þarna í Grindavík og sum lokuð inni.“
Sandra segir samtökin hafa verið í sambandi við björgunarsveitina, Neyðarlínuna og Rauða krossinn og látið vita að þau séu tilbúin með reyndan leitarhóp. „Það er vilji hjá þessum aðilum til að hjálpa en við vitum að það er núna fyrst og fremst verið að huga að öryggi fólks. Við skiljum það. En við viljum samt sem áður að það sé alveg skýrt að við erum klár til að fara inn á svæðið og hjálpa.“
Þurfum að standa saman
Hún ítrekar mikilvægi þess að fólk sem hefur reynslu af því að fanga dýr verði fengið í þetta verkefni. Fólk sem hefur búnað til þess og kann til verka. Það skipti máli hvernig ókunnugir nálgast dýr, t.d. ketti. Sé það ekki gert með réttum aðferðum geti það gert illt verra.
„Við þurfum að standa saman í þessu verkefni,“ segir Sandra. „Við verðum að aðstoða gæludýraeigendur að fá dýrin sín. Það er bara þannig.“
Í nýju mati vísindamanna og almannavarna kemur fram að kvika hafi verið á aðeins 800 metra dýpi í morgun, að hún færist nær yfirborðinu og að eldgos geti hafist án fyrirvara. Því hafa allir viðbragðsaðilar verið kallaðir frá Grindavík.
Athugasemdir