Eftir viðburðaríka heimsókn til Íslands endaði kærustuparið William Skilling og Sofia Periada í fjöldahjálparmiðstöð í Kórnum í Kópavogi.
Við komuna til landsins varði parið tveimur dögum í Reykjavík, en næstu fjórum dögum á ferð um landið. Á þessum tíma hafa þau farið Gullna hringinn, hætt sér inn í íshelli og staðið á svörtum Breiðamerkursandi, sem var „dásamlegt“. Í kvöld voru þau rétt ókomin til Grindavíkur þegar ógæfan dundi á.
Í Grindavík ætluðu þau að verja síðustu nóttinni á Íslandi á gistiheimili, áður en þau halda aftur til Bretlands á morgun, þar sem þau búa, í London. „Eftir fimm tíma akstur náðum við næstum því alla leið, það munaði bara sex mínútum,“ segir William.
Í sex mínútna fjarlægð frá Grindavík lenti þau á grjóthruni á veginum, með þeim afleiðingum að dekkið fór af og eitthvað eyðilagðist, svo bílinn var ekki hægt að keyra lengra. „Ég stoppaði bílinn, en þá kom yndisleg íslensk fjölskylda að, og sagði að ég yrði að færa bílinn, því hann væri á hættulegum stað. Við fórum út og fundum jarðskjálftann. Þau hjálpuðu okkur með farangurinn á gistiheimilið. Við skildum reyndum eitthvað eftir í bílnum því við héldum að við gætum fengið bílinn aftur að gistiheimilinu.“
Þegar á gistiheimilið var komið kom parið sér fyrir. „Við sendum húseigandanum svo skilaboð til að spyrja hvort hægt væri að skipuleggja far á flugvöllinn á morgun og hann sagði það ekkert mál. Klukkan var að verða ellefu þegar hún hringdi og sagði að við yrðum að yfirgefa svæðið. Við spurðum hvort fleiri væru á gistiheimilinu, og hún sagði að það væri allavega annað par þar.“ Þau bönkuðu upp á hjá belgísku pari og fengu far með þeim á fjöldahjálparstöð Rauða krossins í Kórnum í Kópavogi.
Á morgun halda þau svo aftur heim. Bíllinn bíður hins vegar á aflokuðu svæði, þangað sem hann verður væntanlega sóttur af bílaleigunni. Þau viðurkenna að þetta hafi verið svolítið ógnvekjandi reynsla. „Þegar jörðin hristist undir mér, já,“ segir William. „Ég er yfirleitt mjög rólegur, en það var ógnvekjandi.“ Þetta var í fyrsta sinn á ævinni sem þau fundu fyrir jarðskjálfta. „Ég var svolítið kvíðin,“ segir Sofia. „Bíllinn var nú þegar ónýtur og … já.“
Þrátt fyrir allt eru þau staðráðin í að koma aftur til Íslands. „Eftir að við sáum norðurljósin í gærkvöldi, þá verðum við að koma aftur að sjá þau,“ segir William og segir að það hafi verið algjörlega stórkostlega upplifun. „Þetta er reynsla sem breytir lífinu.“
Athugasemdir