Að morgni 10. október síðastliðins, svo að segja upp úr þurru, bárust mér truflandi tölvupóstar frá Íslandi. Samkvæmt þeim hafði heimildarmynd í tveimur hlutum verið sýnd í Ríkissjónvarpinu og var ég titlaður sem leikstjóri.
Ég varð fyrir áfalli þegar ég sá þetta enda hafði aðkomu minni að gerð heimildarmyndarinnar lokið þremur árum áður. Ég hafði ekki minnstu hugmynd um að haldið hefði verið áfram með gerð myndarinnar eða að til stæði að ljúka henni og sýna. Ég hafði hreint ekki leikstýrt þessari mynd.
Þar sem ég hef ekki fengið aðgang að myndinni, því ekki er hægt að horfa á hana frá Svíþjóð heldur eingöngu á Íslandi, þá hef ég ekki ennþá getað horft á hana. En miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið send við myndinni þá er sú óþægilega en mikilvæga saga um hvernig bankahrunið á Íslandi atvikaðist, sem og hvað gerðist eftir það, ekki sögð í myndinni með þeim hætti sem ég hefði viljað og gæti lagt nafn mitt við hana. Og ennþá stendur á heimasíðu RÚV að ég sé annar af leikstjórum myndarinnar þrátt fyrir að ég mótmælt því við stofnunina! (Baráttan um Ísland. Skoðað 4. nóvember 2023).
„Sökum þess líður mér eins og nafn mitt og orðspor sem sjálfstætt starfandi blaðamanns hafi verið misnotað.“
Spennandi hugmynd
Af þessum sökum langar mig að greina opinberlega frá þætti mínum - og raunar skort á þátttöku minni - í gerð myndarinnar. Sagan hefst árið 2019 þegar Margrét Jónasdóttir og framleiðslufyrirtækið Sagafilm, sem hún starfaði fyrir, settu sig í samband við mig. Þau sögðu mér að þau vildu gera heimildarmynd um það hvaða áhrif alþjóðlega fjármálakreppan árið 2008 hafði á Íslandi. Af hverju átti hún sér stað, hver áhrifin urðu á Íslandi, hvernig tekist var á við hana og hverjar afleiðingarnar voru. RÚV, BBC og sænsku og dönsku ríkissjónvarpsstöðvarnar fjármögnuðu verkefnið að hluta og vildu fá mig sem leikstjóra vegna reynslu minnar sem rannsóknarblaðamanns, meðal annars út af heimildarþáttum mínum um plastbarkamálið og Paolo Macchiarini.
Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um áður en ég ákvað að þiggja þetta boð. Með því að nota Ísland sem sýnidæmi gætum við reynt að greina þá undirliggjandi þætti sem leiddu til þessara hamfara á heimsvísu. Ísland er lítið land, en áhrif fjármálakreppunnar á landið voru gríðarleg, og afleiðingarnar voru hrun sem höfðu áhrif á allt samfélagið. Ég vonaði að við gætum öðlast dýpri skilning okkar á því af hverju hrunið átti sér stað, og hvaða afleiðingar það hafði fyrir samfélagið og fyrir venjulegt fólk, með því að taka viðtöl við bankamenn, stjórnmálafólk, saksóknara, dómara, hagfræðinga og ekki síst almenning sem lenti í því að lífi þeirra var umturnað nánast á einni nóttu.
Átti að verða Heimildarmyndin um hrunið
Hér er eitt dæmi um það hvernig ég lýsti því sem ég vildi gera fyrir viðmælendum: „Markmið heimildarmyndarinnar er að áhorfandinn fái dýpri skilning á hruninu á Íslandi, sem ég tel að feli í sér margar sögur sem geta verið áhugaverðar fyrir fólk í öðrum löndum. Sumt, og mögulega margt, af því sem Ísland gekk í gegnum má heimfæra upp á önnur lönd. Þá er ekki bara átt við umfang fjármálakreppunnar heldur einnig þá lærdóma sem má draga af því hversu fljótt Ísland var að komast út úr henni og þeim umfangsmiklu opinberu rannsóknum sem fóru fram sem og vinnu við að bæta regluverk og lagaumhverfi. Og auðvitað líka hin óútkljáðu mál eins og ...“
Möguleikar okkar á að ná þessum markmiðum voru góðir: Þökk sé vinnu margra Íslendinga þá hefur verið talsvert meira gagnsæi um hrunið á Íslandi en í næstum öllum öðrum löndum. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis voru birtar fordæmalausar upplýsingar um fjármálakerfið og það sem gerðist fyrir bankahrunið. Með uppgjöri ákæruvaldsins voru fleiri háttsettir stjórnendur í bönkum og fjármálafyrirtækjum rannsakaðir en nokkurs staðar annars staðar. Þess vegna er mögulegt að fá skýrari og flóknari mynd af því hvernig bankahrunið atvikaðist á Íslandi en í næstum öllum öðrum löndum.
Sökum þess samþykkti ég það fullur tilhlökkunar og áhuga að verða leikstjóri heimildarmyndar um Hrunið. Bankamenn, fjárfestar, saksóknarar, lögreglan, hagfræðingar, vísindamenn og stjórnmálamenn á Íslandi voru einstaklega hjálpsamir og opnir og við byrjuðum fljótlega að sanka að okkur mjög áhugaverðum rannsóknum og viðtölum. Við vorum á góðri leið með að geta sýnt áhorfendum miklu dýpri umfjöllun um hvernig hlutirnir atvikuðust fyrir hrunið og það sem gerðist í kjölfarið.
Átti ekki að stunda rannsóknarvinnu
Snemma í vinnuferlinu hafði ég hins vegar verið minntur á það af mörgum á Íslandi að þetta er lítil eyþjóð. Þar finnst viss „norræn spilling“: Ákvarðanir eru teknar með óséðum hætti innan óformlegra samtaka og hópa. Þetta er mein sem er einnig til staðar í Svíþjóð og þar sem mér hafði í fortíðinni tekist að vinna rannsóknarvinnu í innviðum læknavísinda, stjórnmála og fræðaheimsins í Svíþjóð bjóst ég við því að ég myndi ekki lenda í vandræðum á Íslandi. Ég hafði rangt fyrir mér.
Eftir nokkurra mánaða vinnu fór ég að átta mig á því að það voru ákveðin takmörk fyrir því hversu djúpt framleiðendur myndarinnar vildu að ég myndi grafa. Ekki mátti til dæmis taka viðtöl við ákveðna einstaklinga. Ég skynjaði einnig að það áttu sér stað samtöl samhliða þeim sem ég var þátttakandi í sem mögulega voru byggð á vináttu og gömlum kunningsskap. Framleiðandinn, Margrét Jónasdóttir, krafðist þess að vera viðstödd nánast öll viðtölin. Í fyrstu hélt ég að hún væri eingöngu áhugasöm um að sjá vinnubrögð mín. Eftir smá tíma byrjaði mér að líða eins og ég væri með yfirfrakka á mér og að við hefðum ekki sömu markmiðin um hverju vinna okkar myndi skila.
Eftir um það bil sex mánaða vinnu skýrðust málin. Margrét og Sagafilm upplýstu mig um það að þau þyrftu ekki á rannsóknarvinnu að halda. Þau vildu ekki að ég myndi fara ofan í smáatriði hlutanna og vinna djúpa rannsóknarvinnu. Þau voru ánægð með að endursegja hlutina yfirborðslega, án þess að reyna að greina frá dýpra gangverki hrunsins, eða að spyrja lykilþátttakendur þess hinna virkilega erfiðu spurninga. Þau vildu frekar segja sögu um það hvernig hlutirnir urðu erfiðir á Íslandi um tíma, aðallega vegna þess að einhverjir hefðu brotið af sér hinum megin á hnettinum, sérstaklega í London og New York. Þau vildu segja söguna af því hvernig umheimurinn kom fram við Ísland með ósanngjörnum hætti en að á endanum, sökum þess hversu sniðugir Íslendingar eru, hafi allt farið vel og að Ísland sé nú ríkara en nokkru sinni fyrr.
Ég reyndi að benda Sagafilm og Margréti Jónasdóttur á mínar röksemdir en án árangurs. Þegar ég áttaði mig á því að framleiðendur myndarinnar vildu ekki veita mér ritstjórnarlegt frelsi heldur vildu frekar troða sinni eigin útgáfu af sannleikanum upp á mig sagði ég af mér sem leikstjóri myndarinnar um sumarið 2020. Þeir sendu mér grófklippta útgáfu af myndinni þetta sama ár og ég svaraði því til að þetta gengi ekki upp og að sú útgáfa teiknaði ekki upp nægilega djúpa og rétta mynd af atburðunum. Ég fékk nokkrar aðrar útgáfur af myndinni þar sem ég taldi þessi sömu vandamál ennþá vera til staðar og mér fannst þær vera mjög langt frá því að vera sýningarhæfar.
Nafn mitt og orðspor misnotað
Framleiðendurnir virtust vera sáttir við að leyfa mér að yfirgefa verkefnið. Það sem meira er þá sögðu þeir að þeir væru ekki nægilega vel fjármagnaðir. Þeir hafa ekki ennþá greitt mér fyrir síðustu tvo mánuðina sem ég vann fyrir þá - þetta er kaldhæðnislegt í ljósi þess sem gekk á í bankahruninu.
Þar sem trúnaðarákvæði var í samningi mínum bað ég framleiðandann að láta alla viðmælendurna í myndinni vita um ákvörðun mína og af hverju ég ákvað að hætta. Viðmælendur höfðu sýnt mér traust þegar þeir ákváðu að koma í viðtöl og þar af leiðandi var mikilvægt að framleiðslufyrirtækið ræddi aftur við þá og útskýrði þessa nýju stöðu sem komin væri upp. Svo virðist sem það hafi aldrei gerst í tilfellum einhverra viðmælenda.
Spurningin sem brennur á mér er því þessi: Af hverju reyndu RÚV og Sagafilm þá að segja að ég væri leikstjóri Baráttunnar um Ísland þrátt fyrir að ég hafi ekki leikstýrt myndinni og að Margrét og Sagafilm hafi ekki verið með sömu sýn og ég á þetta verkefni? Og af hverju vildu þau að ég væri þátttakandi í þessu til að byrja með? Eftir allt sem á undan er gengið þá get ég ekki varist þeirri tilhugsun að þau hafi viljað tengja nafn mitt og orðspor við þetta verkefni, en að þau hafi í reynd ekki viljað sýn mína og reynslu sem kvikmyndagerðarmanns sem stundar rannsóknarblaðamennsku. Sökum þess líður mér eins og nafn mitt og orðspor sem sjálfstætt starfandi blaðamanns hafi verið misnotað. Og það sem verra er, sökum þess hversu barnalegur ég líklega var, þá hafi ég blekkt viðmælendur mína með því að láta þá halda að ég myndi tryggja gæði heimildarmyndarinnar, þegar ég í reynd gat það ekki. Mér þykir það mjög leitt.
Enn á eftir að segja frá einstakri reynslu Íslendinga í bankahruninu árið 2008 í sanngjarnri, hlutlausri og margradda heimildarmynd. Flestir þeirra sem ég tók viðtöl við eða ræddi við vegna rannsóknanna fyrir myndina vildu virkilega reyna að dýpka skilning fólks á því af hverju og hvers vegna bankahrunið átti sér stað. Þetta er verkefni sem bíður þess enn að einhver taki það að sér!
Bosse Lindqvist, heimildarmyndagerðarmaður og rithöfundur
Ekkert í þá veru skilaði sér í þessa mynd og harmleikur heimilanna er enn óuppgerður.
Fyrir þessi ótalmörgu saklausu fórnarlömb hrunsins skiptir minna máli hvað orsakaði gjaldþrot þriggja banka í einkaeigu eða hvort það skýrðist af gáleysi, glæpsemi eða hvoru tveggja. Það sem skiptir mestu máli er hvers vegna þau voru látin gjalda fyrir það, ekki aðeins með aleigu sinni heldur í mörgum tilvikum fjölskylduhögum, heilsufari og lífsafkomu sinni.
Þau sem stýrðu hrunbönkunum í þrot voru ekki þau sömu og endurreistu uppvakninga þeirra og hleyptu innheimtumönnum þeirra svo á berskjölduð heimili. Það gerðu stjórnvöld og þau sem þá fóru með völdin bera alla ábyrgð á þessum sköpunarverkum sínum og afleiðingunum fyrir heimilin. Þessi hlið málanna hefur aldrei verið gerð upp með fullnægjandi hætti.
https://icelandssecret.com/
Ekki alveg rétt.
Flestir þeir sem tjá sig um hrunið vilja dýpka skilning fólks á af hverju ..... að þeirra mati... bankahrunið átti sér stað.
En staðreyndin er að enginn ... mér vitanlega ( og þeirra sem hafa aðgang að grunngögnum og hulduheimum)... vill í raun láta gögnin sýna hvað raunverulega átti sér stað... en slíkt gæfi ansi skuggalegri og eitraðri mynd en að fáeinir banksterar eða fjárglæframenn hafi verið megin drifkrafturinnn.
Engin þekking né vilji hefur verið til að kanna málið í grunn... sækja gögnin sem hægt er að sækja og láta staðreyndirnar tala sínu máli. Það á við bæði framkvæmdarvaldið, skattinn, sérstakann og alla rannsakendurna... líka bókarskrifandi hetjur sem skauta á yfirborðinu.
Rannsóknarblaðamenn ???? Pull the other one... it got bells on.
Umræðan um Donaldson Kempner sjóðstjórnina... og fjöldi annarra atriða sannar að íslendingar vilja fá sína skýringu... þó hun sé röng. .... Gögnin taka af vafa um það... og þið hafið aldrei haft fyrir því að sækja þau... enda hæpið það henti skoðunum manna sem vilja ekki að það sjáist hversu spillt við vorum...... og hversu spillt við erum.
Og þeim sem vilja mótmæla og segja " Af hverju sannarðu það ekki ? ".... skal bent á að ég hef margsannað margt af því og ekki mín sök þið viljið vera viðvaningar sem byggið álit ykkar á því að tala við hvort annað. Ef þið viljið baka kökuna þá þurfið þið að brjóta eggin og fórna vinskapnum og eigin egotrippi um hvað raunverulega gerðist.
Og eftirfari hrunsins var sorgleg mynd hvernig almenning var fórnað fyrir ímyndaherferðir stjórnmálamanna og þeirra sem vilja ekki velta við steinum.
"Our man in Iceland" sagði einn af stjórnendum Magma við mig um Steingrím... og var ekki alveg að grínast. Svo nei.. að kenna sjöllunum einum, banksterum eða auðmönnum um er bara sjálfsblekking.
Og nei ! No free lunch ! Þið þurfið að sanna þið viljið taka til... annars hjálpa okkur öngvir.
"Snemma í vinnuferlinu hafði ég hins vegar verið minntur á það af mörgum á Íslandi að þetta er lítil eyþjóð. Þar finnst viss „norræn spilling“: Ákvarðanir eru teknar með óséðum hætti innan óformlegra samtaka og hópa."