„Þetta var rétt ákvörðun hjá Bjarna í þetta skiptið, að axla ábyrgð,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Heimildina.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði af sér sem ráðherra á blaðamannafundi í morgun. Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að Bjarni var ekki hæfur til að selja föður sínum, Benedikt Sveinssyni, hluti í Íslandsbanka á síðasta ári.
„Það var alveg rétt sem hann lét hafa eftir sér að honum var ekki kleift lengur að sinna sínum verkefnum,“ segir Kristrún. Áður hafði Bjarni sagt að hann hafi aldrei hafa hugað að vanhæfi sínu við sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka þrátt fyrir að faðir hans væri meðal kaupenda. Á opnum fundi í fjárlaganefnd um söluna í apríl í fyrra sagði hann lögskýringar um vanhæfi sitt samkvæmt stjórnsýslulögum fráleitar.
Enn önnur niðurstaðan um ábótavant útboð
„Í mínum huga er þetta einfalt mál. Hann braut hæfisreglur. Hann bar fyrir sig, sem var mjög fyrirsjáanlegt, að fyrirkomulag sölunnar hafi verið með þeim hætti að hann hefði ekki getað vitað hver var að kaupa. Þá var auðvitað fyrirkomulag sölunnar ekk fullnægjandi, vegna þess að hann getur ekki sagt sig frá hæfisreglum. Þetta er enn önnur niðurstaðan sem sýnir að utanumhaldið um þetta útboð var verulega ábótavant,“ segir Kristrún.
Afsögn Bjarna eru mikil tímamót að sögn Kristrúnar. „Maðurinn hefur verið fjármálaráðherra nær óslitið í að verða áratug.“ Af hverju hann tekur þessa ákvörðun nú segir Kristrún hægt að skýra með uppsöfnuðum niðurstöðum af þeim úttektum sem framkvæmdar hafa verið um söluferlið.
„Þetta er enn önnur niðurstaðan sem sýnir að utanumhaldið um þetta útboð var verulega ábótavant“
Í úttekt Ríkisendurskoðunar kom fram að jafnræðis hafi ekki verið gætt í útboðinu. „Svo fáum við niðurstöðu FME þar sem kemur fram að þetta útboð hafi verið á eins konar sjálfstýringu. Og núna erum við að fá niðurstöðu frá umboðsmanni sem snýr sérstaklega að hæfi ráðherra í útboðinu. Ég veit auðvitað ekki hvað fer í gegnum huga ráðherra en ég get rétt ímyndað mér að uppsafnað þá hljóti þetta að hafa talsverð áhrif og að hann hafi einfaldlega upplifað að hann gæti ekki staðið undir þessu hlutverki í framhaldinu,“ segir Kristrún.
„Hann er að hætta á þeim forsendum að honum sé ekki kleift að sinna sínum verkefnum lengur og ég held að ríkisstjórnin í heild sinni þurfi að svara þeirri spurningu hvort henni sé í raun kleift að sinna þeim verkefnum sem nú liggja fyrir og skipta fólkið í landinu mestu máli.
Þá er okkur í Samfylkingunni mest umhugað um stöðuna í efnahagsmálum og stóru velferðarmálum. Ég veit auðvitað ekki frekar en almenningur í landinu þau munu taka, við þurfum að bregðast við því eftir sem dagurinn þróast.“
Vill setja söluna á ís
„Við erum auðvitað tilbúin í kosningar, en það er ekki í okkar höndum,“ segir Kristrún.
Gert er ráð fyrir frekari sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Kristrún segir að áform um frekari sölu hljóti að verða sett á ís.
„Mér var brugðið þegar ég sá að það var gert ráð fyrir í núverandi fjárlagafrumvarpi að það yrði klárað að selja Íslandsbanka. Það voru ekki forsendur til þess í upphafi vetrar, þær eru svo sannarlega ekki til staðar núna. Að mínu mati er ekki búið að skapa frið um áframhaldandi sölu þó Bjarni Benediktsson hafi stigið til hliðar. Það er ýmislegt annað sem þarf að skoða í þessu samhengi en það hlýtur að vera að áframhaldandi sala verði sett á ís.“
Þingflokkur Samfylkingarinnar mun funda og fara yfir stöðuna áður en þingfundur hefst klukkan 13:30. Aðspurð við hverju megi búast á þingfundi segir Kristrún að það fari eftir þróun mála næstu mínúturnar hreinlega.
Athugasemdir (1)