„Ég hef ekkert við neitt að athuga, þetta gengur bara vel, mjög vel,“ segir Lúðvík Th. Halldórsson, framkvæmda- og veitingastjóri Gullhamra. Veislusalnum var í vikunni breytt í dómsal þar sem aðalmeðferð í Bankastræti Club-málinu svokallaða fer fram.
Upptökur úr öryggismyndavélum innan úr Bankastræti Club frá 17. nóvember sýna árás sautján grímuklæddra manna á þrjá sem voru þar staddir. Rannsókn lögreglu var mjög umfangsmikil og handtók lögregla tæplega þrjátíu manns vegna málsins. Í febrúar gaf héraðssaksóknari út ákæru á hendur 25 mönnum, þar af eina fyrir tilraun til manndráps. Fljótt varð ljóst að Héraðsdómur Reykjavíkur gæti ekki rúmað þennan fjölda sakborninga auk lögmanna.
Í júní var tilkynnt að aðalmeðferðin færi fram í Gullhömrum, 2.500 fermetra fjölskyldureknu veitingahúsi með tveimur veislusölum. „Við erum fjölbreyttur veitingastaður,“ segir Lúðvík og hlær, en hann sér um daglegan rekstur ásamt dóttur sinni, Huldu Nönnu Lúðvíksdóttur.
Fulltrúar héraðsdóms gerðu þarfagreiningu og uppfylltu Gullhamrar allar kröfur. „Þetta var alltaf mögulegt frá minni hálfu. Ég byggði þetta hús sem veitingahús og þetta hús er sérstaklega byggt fyrir það að halda árshátíðir og mannfagnaði.“ Og nú dómsal. „Mér finnst þetta allt jafn skemmtilegt.“
Undirbúningurinn var hefðbundinn og vel gekk að breyta stóra veislusalnum í dómsal. „Við erum alla daga að breyta sölum fyrir stærri og minni veislur, það þurfti bara að raða borðunum aðeins öðruvísi upp, það var nú ekki flóknara en það. Þetta var mjög einfalt.“
Skemmtilegra að halda árshátíð
Aðspurður hvernig honum finnst veislusalurinn taka sig út sem dómsalur vill Lúðvík hins vegar sem minnst segja. „Ég hef eiginlega enga skoðun á því en mér finnst nú skemmtilegra að vera með 500 manna árshátíð heldur en að stilla upp fyrir dóm. En þetta er bara allt í lagi, ekkert að þessu, þetta er bara minnsta mál í heimi.“
Fjölmiðlabann ríkti á meðan skýrslutökur fóru fram en fréttir af þessum sögulegu réttarhöldum hafa engu að síður verið sagðar í vikunni og snerust meðal annars um óánægju verjenda um kaffiskort í Gullhömrum. „Það er enginn skortur á neinu frá minni hálfu, héraðsdómur ákvað að það yrðu engar veitingar í boði. Svo breytti fólk þessu og nú er boðið upp á kaffi,“ segir Lúðvík. Héraðsdómur greiðir fyrir kaffið.
„Þetta er bara vinna og búið, við fáum borgað fyrir hana, svo þetta er í lagi“
Lögregla hefur sinnt gæslu við Gullhamra síðustu daga en Lúðvík segir það ekki breyta miklu. „Ég er nú alvanur að hafa lögreglu í húsinu, ég hef haldið fyrir þá árshátíð í mörg ár.“
Taka dómsalinn niður um helgina fyrir árshátíð
Aðalmeðferðin heldur áfram á mánudag en það aftrar Lúðvík ekki í að halda stærðarinnar árshátíð í veislusalnum um helgina. „Við þurfum að taka dómsalinn niður til að stilla upp fyrir árshátíð og setjum hann svo aftur upp á sunnudaginn. Þetta er bara vinna og búið, við fáum borgað fyrir hana, svo þetta er í lagi.“
Lúðvík getur vel hugsað sér að halda því áfram að útbúa dómsali eftir þörfum. „Þetta er allt voða fínt og yndislegt fólk og engin vandræði. Ég er alveg tilbúinn að taka að mér hvaða verkefni sem er sem hentar í húsið og hentar okkur, já, já.“
Athugasemdir