„Ég fór og kíkti á brauðbollurnar í ofninum en ég vissi ekki hvernig þær voru upphaflega, né hvernig þær eiga að verða á endanum,“ – sagði tengdamamma eftir að hafa stokkið á það að bjarga meðlætinu frá ótímabærri glötun. Ég skrifaði setninguna niður áður en ég myndi gleyma henni. Ég hef alltaf notið mín best í návist sagnafólks og kynnst nokkrum með frásagnarhæfileika sem flokkast undir hreina náðargáfu.
Sjálf bý ég þó að þeirri „náðargáfu“ að gleyma þeim um leið og þær hverfa úr hljóðvistinni. Bílnúmer, kennitölur og símanúmer af handahófi eru hins vegar húðflúruð í heilabörkinn að eilífu. Afþreyingargildi þess að þylja upp kennitölur í kaffitímanum á öldrunarheimilinu gæti orðið dapurleg iðja fyrir samferðafólk mitt. Skiptir þá engu þó sögurnar séu æsilegar og hugfangandi, eða síendurteknar meðan hlátrasköll nærstaddra breytist í kunnuglegt fliss og axlirnar hætta að hristast eftir því sem þær eru sagðar oftar. Sökum fátæklegrar nytsemi „náðargáfu“ minnar þegar ég sest við skriftir þá safna ég stikkorðum og setningum annarra eins og foreldrar skrásetja gullmola barna sinna.
„Afþreyingargildi þess að þylja upp kennitölur í kaffitímanum á öldrunarheimilinu gæti orðið dapurleg iðja fyrir samferðafólk mitt.“
Um daginn kvaddi ég níræðan sagnameistara sem smíðaði flugvélar með aðferðum sem enn í dag teljast vera fullkominn ómöguleiki, og það sama má segja um frásagnarhæfileika hans, fullkominn, og flestum ómögulegur. Sögurnar ætlaði ég alltaf að leggja vel á minnið, því maður veit aldrei hvenær góð saga er sögð í síðasta sinn. Ég náði aldrei að punkta þær hjá mér, og það er eins með brauðbollurnar og sögurnar hans að ég man ekki hvernig þær voru upphaflega, né hvernig þær eiga að verða á endanum. Sem betur fer, þá get ég leitað til dóttur hans, því þótt hún þykist ekkert vita um brauðbollur, þá fékk hún sagnahæfileika og minni föður síns í vöggugjöf. Ég hugga mig við að gleyma aldrei hvað brauðbollurnar voru margar, né hvernig sögurnar létu mér líða.
Athugasemdir