„Þetta leggst ljómandi vel í mig en þetta er áskorun, það er rosalega þungur vetur fram undan,“ segir Dagbjört Hákonardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sem tók sæti á Alþingi í vikunni í stað Helgu Völu Helgadóttur sem lét af þingmennsku í upphafi mánaðarins.
Dagbjört hefur áður sest á þing sem varaþingmaður en hún skipaði þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður í alþingiskosningunum 2021. Hún segist finna fyrir pressu sem þingmaður í stjórnarandstöðu en segir fólk tilbúið að hlusta á breytta nálgun. „Ég kem auðvitað svolítið bratt inn í þetta, þetta var ekki mikill fyrirvari sem ég fékk. Ég upplifi þá pressu sem ég er undir sem þingmaður í stjórnarandstöðu hjá félagshyggjuflokki sem ætlar að gera atlögu að því hvernig þessum efnahagsmálum hefur verið stjórnað á undanförnum árum og áratugum. Við sjáum fram á að fólk er tilbúið að hlusta á breytta nálgun sem tekur meira mið af félagslegum áherslum í ríkisfjármálum og við fögnum því.“
Ýmsar ógnir steðja að samfélaginu að mati Dagbjartar, sama hvort um er að ræða verðbólgu eða bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. „Verðbólgan ógnar þeim stöðugleika sem við eigum skilið sem samfélag. Það eru kjaraviðræður fram undan og þetta fjárlagafrumvarp sem við erum að líta á núna tekur ekki sérstaklega mikið mið af þeim kröfum sem vinnumarkaðurinn mun eðlilega koma fram með. Það eru ekki lagðar miklar áherslur á viðkvæmustu hópana okkar sem eru ungt fjölskyldufólk, ég horfi sérstaklega til þess. Við munum koma til með að þurfa að setja æskilega pressu á stjórnvöld í þeim efnum.“
Ekki nóg að mæta blómum skreyttur í hinsegin gleðigöngu
Forsætisráðherra flutti stefnuræðu í vikunni en Dagbjört segir fátt nýtt hafa verið undir sólinni í ræðu hennar. „Það var ekki að finna neina stöðutöku gagnvart þeim ógnum sem steðja að okkur, það var meiri áhersla lögð á sátt í samfélaginu og auðvitað talaði forsætisráðherra um samfélagsmál sem við verðum að horfast í augu við, hún talaði um bakslag í hinsegin baráttunni og ég fagna því að það var nefnt.“
„Stuðningurinn verður að vera raunverulegur og hann verður að sýna í verki“
Dagbjört bendir á að það sé ekki beinlínis í verkahring ríkisins að taka á fræðslumálum í skólum en hins vegar eigi ríkið að styðja við hagsmunasamtök á borð við Samtökin '78. „Það er verið að draga úr stuðningi í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og það er auðvitað slæmt. Við verðum að koma tilhlýðilega að stuðningi við viðkvæma hagsmunahópa. Það þýðir ekki bara að mæta blómum skreyttur í hinsegin gleðigöngu. Stuðningurinn verður að vera raunverulegur og hann verður að sýna í verki.“
Þingveturinn verður þungur að mati Dagbjartar en hún er spennt fyrir áskoruninni. Hún mun taka sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og verður varamaður í velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. „Ég er spennt að læra inn á það hvernig við vinnum á Alþingi, ég viðurkenni það. Ég hef komið nokkrum sinnum inn sem varaþingmaður en nú er ég með forræði yfir mínum málaflokkum. Ég er lögfræðingur, félagshyggjukona, femínisti og Evrópusinni og er gífurlega spennt fyrir því að taka mína málaflokka í fangið og fylgja þeim eftir.“
Athugasemdir (2)