Alþjóðahvalveiðiráðið lagði bindandi bann við hvalveiðum 1986 í umhverfisverndarskyni þar eð hvalastofnar voru taldir vera í útrýmingarhættu. Bannið er talið hafa bjargað lífi tugþúsunda hvala. Allar aðildarþjóðir ráðsins virtu bannið – nema þrjár.
Norska ríkisstjórnin mótmælti hvalveiðibanninu þegar það var sett, hélt áfram aðild sinni að Hvalveiðiráðinu, hunzaði bannið og hefur leyft hvalveiðar til þessa dags.
Japanska ríkisstjórnin fór eins að, hélt áfram aðild sinni að Hvalveiðiráðinu, hunzaði bannið og leyfði hvalveiðar áfram í vísindaskyni samkvæmt sérstakri undanþágu. Alþjóðadómstóllinn í Haag felldi þann úrskurð 2014 að hvalveiðar Japana væru í reyndinni ekki stundaðar í vísindaskyni nema að litlu leyti og mælti fyrir um – fyrirskipaði! – að Japanar hættu hvalveiðum umfram veittar undanþágur í samræmi við lögbann Hvalveiðiráðsins. Ríkisstjórn Japans brást við þessum úrskurði með því að segja Japan úr Hvalveiðiráðinu 2019 og halda áfram að leyfa hvalaföngurum að veiða og kvelja hvali með gamla laginu.
Ríkisstjórn Íslands hafði annan hátt á, sagði Ísland úr Hvalveiðiráðinu strax 1992 og hefur leyft Hvali hf. að halda hvalveiðum til streitu, en þó með hléum, gegn háværum andmælum víðs vegar að úr heiminum og æ háværari andmælum einnig hér innan lands. Íslandi var hleypt aftur inn í ráðið 2002 með einhliða fyrirvara um hvalveiðibannið frá 1986 af Íslands hálfu, en mörg aðildarríkja ráðsins virða ekki þennan fyrirvara sem gilda undanþágu handa Íslandi. Hvalveiðar Íslendinga vekja megna andúð um allan heim og ógna að auki óskyldum viðskiptahagsmunum.
Hvað sagði Jónas?
Hver ríkisstjórn Íslands á eftir annarri hefur dansað í kringum Hval hf., helzta ef ekki eina hvalveiðifyrirtæki landsins, stofnað 1947 og nú starfrækt af syni annars stofnandans, Kristjáni Loftssyni, sem leikur líkt og löngum áður á núverandi ríkisstjórn eins og harmóníku.
Margir hafa lagzt gegn hvalveiðum Íslendinga af auknum þunga, einkum af umhverfis- og dýraverndarástæðum. Andstaðan virðist þó jafnan hafa verið kröftugri utan þings en innan.
Grípum niður í nokkra leiðara Jónasar Kristjánssonar, eins merkasta blaðamanns Íslands frá öndverðu, fyrirmyndar yngri manna sem skara nú fram úr á fjölmiðlum.
-
„Margar ríkisstjórnir og fjölmiðlar hafa fordæmt íslenzku ríkisstjórnina fyrir að ákveða að hefja nú þegar hvalveiðar að nýju eftir fjórtán ára hlé. Þar á meðal er ríkisstjórn Bandaríkjanna og ýmsir bandarískir fjölmiðlar. Réttilega er sagt, að það sé hræsni Íslendinga að kalla þetta vísindaveiðar. Vakin er athygli á mótmælum íslenzkrar ferðaþjónustu, sem telur hagsmuni hvalaskoðunar vera langtum þyngri á metaskálunum en hagsmunir hvalveiða. Almennt má segja, að sýnd sé neikvæð mynd af Íslandi í vestrænum fjölmiðlum þessa dagana. Vafalaust leiðir það til þess, að miklu færri en ella taki ákvörðun um að heimsækja Ísland. Segja má því, að Íslendingar stundi dýrkeypta hræsni á þessu sviði til að þjónusta minni hagsmuni á kostnað meiri hagsmuna í þjóðfélaginu.“ (Dýrkeypt hræsni, 8/8/2003).
-
„Ef hvalir éta eins mikinn fisk og hin hápólitíska Hafrannsóknastofnun telur okkur trú um, má spyrja, hve mikinn fisk hvalir átu fyrir nokkrum öldum, áður en hvalveiðar hófust og meðan sjórinn var fullur af hval og fiski. Af hverju gátu menn mokað upp fiski um leið og þeir fengu stórvirk tæki til rányrkju? Var ekki einmitt nógur fiskur í sjónum, þegar hvalir voru í hámarki? Er það ekki langvinn og vaxandi ofveiði mannsins, sem hefur stjórnað hnignun fiskistofna við Ísland? Með aðstoð Hafrannsóknastofnunar.“ (Pólitísk gervivísindi, 27/9/2003).
-
„Hvalveiðar hafa verið leyfðar. Hvalstöðin í Hvalfirði fær ekki uppáskrift heilbrigðisyfirvalda, enda er eins gott, að eftirlit Evrópska efnahagssvæðisins sjái ekki stöðina. Ferðaþjónustan býst við tjóni, ekki bara í hvalaskoðun. Enginn markaður er fyrir kjötið. Japanir hafa með miklum tilkostnaði reynt að fá ungt fólk þar í landi til að borða hval, en ekkert hefur gengið. Íslendingar geta ekki heldur torgað mörgum hvölum. Hvað á þá að gera við veidda hvali, annað en að gleðja þjóðernissinna? Ákvörðun útvegsráðherra um hvalveiðar er rugl í þágu þjóðernisöfga.“ (Hver étur hvalinn?, 19/10/2006).
-
„Einar K. Guðfinsson sjávarútvegsráðherra hefur gefið út yfirlýsingu um, að hvalveiðum Íslendinga sé lokið. Ekkert hefur selzt af hvalkjöti og því er veiðunum sjálfhætt. Þetta sagði ég áður en hvalveiðar hófust að nýju. Nú hefur ráðherrann séð ljósið, síðastur manna. Hvalveiðar eru bara hugsjón auðugs sérvitrings, sem erfði nokkra hvalabáta. Bátarnir hafa lengi verið að grotna niður í Reykjavíkurhöfn. Þrjózka erfingjans og hvalveiðisöngur Helga Björnssonar hafa of lengi talið fólki trú um, að líkið væri lifandi. Þótt þjóðlegt sé talið að skjóta hvali, sögðu markaðslögmál stopp.“ (Þjóðleg iðja stöðvast, 25/8/2007).
-
„Ítrekað hefur komið fram í fréttum, að markaðurinn er hruninn. Japanir éta ekki hvalinn okkar, þótt Kristján Loftsson gefi hann. Nýjar kynslóðir líta ekki við hval. Síðasti gámurinn, sem þangað fór, lá í ár á hafnarbakkanum, áður en ákveðið var að gefa innihaldið. Kristján Loftsson er íslenzkur Ahab skipstjóri, sem berst við Moby Dick.“ (Dauðadæmdar hvalveiðar, 10/6/2009).
-
„Hvalaskoðun er bisness, sem gefur evrur, alvörupening. Ekki skrípó eins og flótti á hvalkjöti undir dulnefni milli hafna við Norðursjó. Kjötinu var svo snúið aftur til Íslands. Verðlaus afurð, sem enginn vill flytja, enginn vill geyma og enginn vill kaupa. Hrefnan er skrípó. Hvalveiðar eru að vísu ekki ógnun við náttúru, heldur ógnun við bisness. Síðan þrengir Sigurður Ingi ráðherra að hvalaskoðun til að efla hvalveiði. Situr svo undir bandarískum hótunum um viðskiptaþvinganir. Þrautseigur karl eins og Kristján Loftsson, eins og Bjartur í Sumarhúsum, eins og þjóðin sjálf. Alveg fram í andlátið.“ (Hvalur er skrípó, 13/7/ 2013).
-
„Ósigur hvalveiða fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag hefur keðjuverkun í för með sér. Andstaða Bandaríkjanna við hvalveiðar Íslands magnast um allan helming. Kristján Loftsson getur ekki lengur sent hvalkjöt í hefðbundinni fragt út um heim. Gámarnir eru strax kyrrsettir í höfnum. Yrðu líka stöðvaðir í Súez eða Panama. Kristján hefur tekið á það ráð að útvega Ölmu til að sigla beint til Japans. Siglir í felum löngu leiðina suður fyrir Góðrarvonarhöfða. Í Japan safnast hvalkjöt fyrir í frystihúsum, því Japanir eru að mestu hættir að éta hval.“ (Síðasta sigling Ölmu, 3/4/2014).
Hvalir og regnskógar
Svo er eitt enn. Sjávarlíffræðingar hafa komizt að því að hvert stórhveli sem deyr í hafinu og sekkur til botns bindur að jafnaði 33 tonn af koltvísýringi og fjarlægir þannig kolefnið úr andrúmsloftinu um aldir. Einn dauður hvalur bindur jafnmikið af koltvísýringi og skógur með 1500 trjám. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vekur athygli á þessum samanburði í nýlegum skýrslum sínum. Það er til marks um að sjóðurinn líkt og systurstofnun hans, Alþjóðabankinn, tekur loftslagsmálin föstum tökum í samhengi við efnahagsráðgjöf í aðildarlöndum.
Því er haldið fram í þessum skýrslum að fjórfalda þurfi hvalastofna, það er snúa við 75% fækkun hvala síðustu áratugi, meðal annars vegna þess að endurreisn hvalastofna myndi sporna umtalsvert gegn hlýnun loftslags. Hvalir eru næsti bær við regnskóga samkvæmt þessum rannsóknum. Hvalveiðar eru samkvæmt þessum skilningi næsti bær við eyðingu regnskóga. Hættum hvalveiðum.
Athugasemdir (1)