Gestir og gangandi í Kringlunni voru beðin um að giska á hæstu heildarárstekjur Íslendinga á síðasta ári. Svörin voru ólík og nokkrum milljörðum of lág. Einnig var fólk beðið um að segja þá upphæð sem þau myndu veita sér í laun ef það væri undir þeim sjálfum komið. Öll sögðust þau sátt við laun sem væru á bilinu 600–800 þúsund krónur, en það er rétt undir meðallaunum þeirra sem voru í fullri vinnu árið 2022 samkvæmt Hagstofunni.
Brjálæði
Gríma Kóps heyrði að einhver hefði verið með 42 milljónir á mánuði á síðasta ári. Aðspurð hverjar hún haldi að mestu heildarárstekjurnar árið 2022 hafi verið svarar hún: „Alltof mikið.“
Það voru fjórir milljarðar, hvað finnst þér um það?
Mér finnst þetta brjálæði. Bara munur á fólki í tekjum er brjálæði.
Finnst þér að það ætti að vera eitthvert þak á því hvað einstaklingur getur fengið háar tekjur?
Já, mér finnst það. Það mætti alveg vera.
Hverju myndi það breyta?
Mér finnst náttúrlega að þeir sem eru með lægstu launin eigi að fá hærri laun, mannsæmandi laun. Mér finnst brjálæði þegar fólk er með margar milljónir á mánuði því við vitum að við þurfum ekki margar milljónir á mánuði. Við eigum bara að vera svolítið raunsæ og ekki komin út í græðgi. Græðgin er að drepa okkur.
Værir þú til í að vera á svona hátekjulista einhvern tímann á lífsleiðinni?
Nei. Mér finnst nóg að hafa bara nóg fyrir mig.
Ein spurning að lokum, ef þú fengir að velja launin þín alveg sjálf og gætir gefið þér hvað sem er, hvað myndirðu greiða þér í laun?
Mér finnst allt í lagi að vera með svona kannski 700–800 þúsund krónur á mánuði. Mér finnst að það ætti að vera svona ... en ef fólk á fyrirtæki og gengur vel finnst mér ekkert óeðlilegt að fólk geti borgað sér góð laun. En þegar bankastjórarnir eru með öll þessi laun, sem bera enga ábyrgð, bara bullshit.
Ekki meira en forsetinn
Leifur Guðmundsson er hugsi yfir því hverjar hæstu heildarárstekjurnar hafi verið. „Ég bara get ekki ímyndað mér það. Ég veit að það er alveg svakalega mikið.“
Rúmir fjórir milljarðar. Hvað finnst þér um það?
Ég bara ... já, já, það er alltof mikið. Ég kann ekki að ræða svona háar tölur.
Finnst þér að það ætti að vera eitthvert þak á því hvað fólk getur fengið miklar tekjur?
Já, það finnst mér. Bara ekkert meira en forsetinn allavega.
Forsetinn væri þá þakið?
Já, mér finnst það bara eðlilegt.
Værir þú til í að vera á svona hátekjulista einhvern tímann á lífsleiðinni?
Nei, ég held að það sé ekki gott að vera svona ríkur.
Ef þú gætir gefið þér hvað sem er í laun. Ef þú fengir bara alveg að ráða, hver væri svona þín draumatala?
600–800 þúsund krónur í mesta lagi. Ég hef ekkert að gera með meira.
Til hamingju
Viktor Guðlaugsson giskar á að mestu heildarárstekjurnar hafi verið 300 milljónir króna.
Rúmir fjórir milljarðar.
Heyrðu, það ... ég óska viðkomandi bara til hamingju.
Finnst þér að það ætti að vera eitthvert þak á því hvað fólk getur verið með miklar heildarárstekjur?
Ég held að það sé mjög erfitt að eiga við það því að ég veit ekki eiginlega hver ætti að setja þær reglur og hvernig ætti að framfylgja þeim. Þannig að ég sé nú ekki mikla möguleika á því, hins vegar held ég að það væri kannski ráð að skatta meira þessi ofurlaun svokölluðu. Ég held að það væri kannski svona það sem við gætum gert, en ég held að þessu verði aldrei handstýrt.
Værir þú til í að vera á svona lista einhvern tímann á lífsleiðinni?
Nei, ég held að ég hafi engar áhyggjur af því af því að mér liði ekkert betur með það.
Ef þú fengir að stjórna því alveg hvað þú værir með í mánaðarlaun, hvaða upphæð heldurðu að þú myndir velja þér?
Ég myndi nú bara velja mér upphæð sem myndi nægja mér vel til framfærslu svo ég gæti lifað svona mannsæmandi lífi og sú tala er náttúrlega afstæð því að auðvitað er lífsstíll fólks misjafn og þarfir manna og lífstilgangur mjög misjafn þannig að ég held að það sé erfitt að nefna einhverja tölu. Ég er nú eftirlaunamaður með þokkaleg eftirlaun og ég er bara mjög sáttur með það.
Heimurinn þarf ekki milljarðamæringa
„Svona 300 milljónir. Ég veit það ekki,“ giskar Fanndís Fjóla Hávarðardóttir á að hæstu heildarárstekjur síðasta árs hafi verið.
Sá sem var með mestu heildarárstekjurnar fékk rúma fjóra milljarða.
Já. Are we sure? Fjórir milljarðar!
Finnst þér að það ætti að vera eitthvert þak á hvað fólk getur grætt mikið eða á það bara að vera frjálst öllum að fá það sem þau vilja?
Málið er að heimurinn þarf ekki milljarðamæringa, það er bara málið. Þeir þurfa það ekki. Af hverju eru þið að hoarda svona mikinn pening? Það er engin ástæða til þess nema bara gloatið að eiga pening þannig, já.
Værir þú til í að vera á svona lista einhvern tímann á lífsleiðinni?
Nei. Ég er ekki nógu mikilvæg eða rík til að geta farið á þennan lista.
Ef þú fengir að velja hvaða tölu sem er í mánaðarlaun, hvaða tölu heldurðu að þú myndir velja?
Fyrir eða eftir skatt?
Fyrir skatt.
Segi bara 800 þúsund fyrir skatt og málið dautt. Ég skal bara sætta mig við það.
Athugasemdir