Matvælastofnun (MAST) hefur óskað eftir því við laxeldisfyrirtækið Arctic Fish að það klári að slátra eldislaxinum sem er í kví fyrirtækisins í Patreksfirði sem göt komu á. Fjölmiðlar greindu frá götunum í gær.
Þetta segir Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun sem nú rannsakar málið ásamt Fiskistofu. Hann segir að Fiskistofa hafi lagt net í gær til að reyna að veiða eldislaxa sem kunna að hafa sloppið úr kvínni. „Fiskistofa ætlar líka að leita að strokfiski með drónum í nærliggjandi ám.“
Um er að ræða eldislax sem líklega er ekki orðinn kynþroska, segir Karl Steinar. Þar að leiðandi eru meiri líkur á því að laxinn haldi sig í firðinum og fari ekki upp í nærliggjandi ár.
Nýlega skilaði Hafrannsóknarstofnun gagnrýnni skýrslu um erfðablöndun eldislaxa og villtra laxa hér á landi.
„Vonandi verður þetta innan tveggja vikna.“
Bið eftir niðurstöðu um sleppingar
Karl Steinar segir að klára þurfi að slátra löxunum úr kvínni til að átta sig á því hvort og þá hversu margir laxar kunna að hafa sloppið. „Við erum að rannsaka málið út frá því hvernig þessi göt mynduðust. Við erum að fara yfir verkferla þar, kalla eftir gögnum og annað slíkt til að reyna að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Við erum að fara yfir þetta skref fyrir skref. Við fengum bara upplýsingar um þetta í gær. [...] Ég óskaði svo eftir því við fyrirtækið að þeir myndu slátra upp úr þessari kví sem fyrst. Við vitum hvað það fór mikið af fiski í kvínna, við vitum hvað það er búið að drepast mikið og hvað það er búið að slátra miklu. Við leggjum þetta svo saman og sjáum þá hversu mikið af fiski vantar,“ segir Karl Steinar.
Tæplega 73 þúsund laxar voru í kvínni og er meðalþyngd þeirra sex kíló eða rúmlega 13 pund, segir Karl Steinar. Umræddur fiskur hefur verið tæplega tvö ár í sjó í Patreksfirði. Heildarmagnið í kvínni var um 500 tonn segir Karl Steinar. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hversu margir eldislaxar eru eftir í kvínni, líkt og Karl Steinar segir. Þá liggur heldur ekki fyrir hversu lengi götin voru á kvínni áður en þau uppgötvuðust. Laxeldisfyrirtækin sem reka sjókvíarnar kafa reglulega við kvíarnar til að kanna hvort göt hafi myndast.
Karl Steinar segir að Arctic Fish geti slátrað um 60 tonnum af eldislaxi á dag og því muni alltaf taka nokkra daga að klára hana. „Við verðum að bíða eftir þessari niðurstöðu. Vonandi verður þetta innan tveggja vikna.“
Stærsta slysasleppingin átti sér stað nýlega
Þó um sé að ræða marga fiska þá getur umfang þessarar slysasleppingar aldrei orðið eins mikið og þegar tæplega 82 þúsund eldislaxar fundust ekki í kví sem gat hafði komið á hjá laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi í Arnarfirði. Matvælastofnun sektaði Arnarlax um 120 milljónir króna vegna þessar slysasleppingar og rangrar upplýsingagjafar um hana í fyrra. Um var að ræða fyrsta skiptið sem slík sekt var lögð á laxeldisfyrirtæki hér á landi. Þessi slysaslepping var sú stærsta í Íslandssögunni.
Karl Steinar segir að rannsóknin á götunum á kví Arctic Fish sé á frumstigi um þessar mundir. Stofnunin hefur hins vegar heimildir til að sekta fyrir slysasleppingar ef svo ber undir, líkt og sekt Arnarlax sýnir.
Athugasemdir