Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka, er ekki meðal þeirra sem tilnefndir eru í stjórn bankans fyrir hluthafafund sem haldinn verður 28. júlí. Hið sama er að segja um Guðrúnu Þorgeirsdóttur, varaformann stjórnarinnar, og Ara Daníelsson stjórnarmann.
Sjö manns sitja í stjórn Íslandsbanka og tilnefnir Bankasýsla ríkisins þrjá þeirra, auk eins varamanns, en tilnefningarnefnd Íslandsbanka tilnefnir fjóra, auk eins varamanns. Stjórn Bankasýslunnar tilnefnir þau Önnu Þórðardóttur og Agnar Tómas Möller, sem bæði sitja í núverandi stjórn, auk Hauks Arnars Birgissonar. Haukur Örn er lögfræðingur og fyrrverandi samstarfsmaður Agnars, en Haukur Örn sat í stjórn Gamma á árunum 2009 til 2012. Agnar er annar af stofnendum Gamma og starfaði þar á sama tíma sem sjóðsstjóri og framkvæmdastjóri sjóða.
Tilnefningarnefnd Íslandsbanka tilnefnir í stjórnina þau Frosta Ólafsson og Valgerði Skúladóttur, sem bæði sitja í núverandi stjórn. Auk þess eru tilnefnd þau Linda Jónsdóttir og Stefán Pétursson sem koma ný inn. Linda er framkvæmdastjóri rekstrar hjá Marel en hefur áður starfað fyrir Eimskip, Burðarás og Straum fjárfestingabanka. Þá hefur hún setið í stjórn Viðskiptaráðs og Framtakssjóðs Íslands. Tilnefningarnefnd hefur lagt til að Linda verði kjörin formaður stjórnarinnar.
Stefán er fjármálastjóri lyfjaþróunarfyrirtækisins EpiEndo Pharmaceuticals ehf. en var áður fjármálastjóri Arion banka í áratug. Hann var stjórnaformaður AFLs sparisjóðs og sat í stjórn Valitors, í stjórn Viðskiptaráðs og er í stjórn ÍL sjóðs, auk annars.
Ari Daníelsson, sem ekki er tilnefndur til áframhaldandi setu í stjórn, var einn þeirra sem keypti hlut í bankanum í útboðinu 22. mars á síðasta ári. Í skýrslu Fjármálaeftirlits Seðlabankans vegna sáttar við Íslandsbanka kemur fram að Ari hafi fengið munnlega undanþágu frá banni við þátttöku í útboðinu þar sem hann sat á fræðslufundi sem haldinn var fyrir nýja stjórnarmenn, eftir að yfirlögfræðingur Íslandsbanka kom inn á fundinn og tilkynnti um að útboðið væri hafið. Undanþágan hafi svo verið staðfest skriflega af regluverði, í tölvupóstsamskiptum að morgni næsta dags. Hún var hins vegar ekki skráð fyrr en tveimur dögum síðar, eftir að útboðið var um garð gengið. Félag í eigu Ara, skráð í Lúxemborg, keypti fyrir tæpar 55 milljónir króna í útboðinu. Ari hafði komið nýr inn í stjórnina nokkrum dögum áður en útboðið fór fram.
Finnur Árnason sagði í viðtali við Heimildina 28. júní síðastliðinn að hann hyggðist gefa áfram kost á sér í stjórn bankans. Finnur kom nýr inn í stjórnina á sama tíma og Ari. Spurður hvort hann bæri ekki ábyrgð á þeim brotum sem framin voru við útboðið svaraði Finnur því til að hann hefði borið formlega ábyrgð á útboðinu en hefði ekki komið að ferlinu þar eð hann hefði bæði verið nýkominn inn í stjórnina og að stjórnin hefði ekki haft aðkomu að söluferlinu.
= Ég ber bara ábyrgð að nafninu til.