Um miðjan júlí stendur íslenska ferðasumarið sem hæst og ferðaglaðir lesendur geta valið um aragrúa ólíkra bæjarhátíða sem haldnar eru víðs vegar um landið á þessum árstíma. Slíkar hátíðir geta fært mikið líf í bæi landsins, jafnt stóra sem smáa, og sökum þess hve fjölbreyttar þær eru geta ferðalangar yfirleitt fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Sumar gera menningunni hátt undir höfði og leggja áherslu á myndlist eða tónlist, á öðrum er maturinn í fyrsta sæti og svo eru aðrar hátíðir sem eiga sér engan annan líka, á borð við bíladaga á Akureyri, goslokahátíð í Vestmannaeyjum eða þjóðlagahátíð á Siglufirði.
Eins og það getur verið skemmtilegt að sækja hressilega bæjarhátíð heim, þá snúast ferðalög um landið líka oft um afslöppun og rólegheit. Stundum fær maður mest úr ferðalaginu ef maður getur einfaldlega dólað sér og gert hlutina á sínum eigin hraða, óháð fyrir fram ákveðinni dagskrá. En eitthvað þarf maður nú að gera og fyrir þau sem hafa áhuga á menningu og sögu þjóðarinnar er enginn hörgull á áhugaverðum áfangastöðum víða um land. Heimildin hefur tekið saman nokkra áhugaverða áfangastaði sem geta gefið sumarferðalaginu ögn menningarlegri blæ.
Varla þarf að taka það fram að sú upptalning sem hér fer á eftir er langt í frá tæmandi. Menningarsinnuðum ferðalöngum má benda á vefsíðuna sofn.is sem Félag íslenskra safna og safnmanna hleypti af stokkunum nýlega með slagorðinu „Söfnum söfnum!“ Þar má finna yfirlit yfir söfn, setur og sýningar Íslands og hægt er að haka við öll söfn sem heimsótt hafa verið. Einnig er kort á síðunni sem hægt er að nýta sér til þess að finna söfn sem gætu leynst á næstu grösum, hvar svo sem lesendur eru niðurkomnir. Góða ferð!
1. Fetaðu í fótspors Ásgríms Jónssonar í Flóanum
Það er stundum sagt að myndlistin geti gefið fólki nýja sýn á umhverfi sitt. Nú hafa þrjú söfn tekið höndum saman til þess að heiðra minningu eins fremsta brautryðjanda íslenska landslagsmálverksins, Ásgríms Jónssonar, með hinni svokölluðu Ásgrímsleið. Þessi leið samanstendur af þremur áfangastöðum; Byggðasafninu á Eyrarbakka, Listasafni Árnesinga í Hveragerði og Ásgrímssafni sem er hluti af Listasafni Íslands. Á öllum þessum stöðum má fræðast um Ásgrím í sumar sem fæddur var í Flóanum, skammt frá Eyrarbakka.
2. Rík saga í Eyjum og skemmtilegasta rennibrautin
Í ár er liðin hálf öld frá Heimaeyjargosinu. Í Eyjum er sögu gossins vel miðlað á sérstöku gosminjasafni sem nefnist Eldheimar. Í stórri safnbyggingunni má fræðast um ólíka anga gossins og skoða íbúðarhús sem grófst undir vikri í gosinu. Í Sagnheimum, sem er byggðasafn Vestmannaeyinga, er svo hægt að fræðast um aðra atburði sem tengjast sögu staðarins, til að mynda sjávarútvegssögu staðarins og sjálft Tyrkjaránið. Sundlaugin í Vestmannaeyjabæ er einnig vinsæll áningarstaður ferðalanga og þar er að mati greinarhöfundar ein skemmtilegasta rennibraut landsins.
3. Rjómi íslenskrar samtímalistar á Djúpavogi
Menningarlíf á Djúpavogi stendur um þessar mundir í miklum blóma. Þar var opnað fyrir skemmstu eitt fremsta samtímalistasafn landsins, ARS LONGA. Nú stendur yfir sumarsýning safnsins sem samanstendur af verkum 16 listamanna. Skammt frá safninu, meðfram sjónum, hvíla Eggin í Gleðivík, listaverk Sigurðar Guðmundssonar. Áhugafólk um jarðfræði verður ekki svikið af Steinasafni Auðuns og þar hefur áhugi margra ungra gesta á steinasöfnun kviknað. Þessu til viðbótar má nefna Löngubúð, elsta hús Djúpavogs. Þar undir einu þaki má finna safn myndhöggvarans Ríkarðs Jónssonar og ráðherrastofu Eysteins Jónssonar, en þeir komu báðir frá Djúpavogi, og minjasafn. Einnig er í húsinu rekið kaffihús og veitingastaður sem getur svalað þeim sem ekki þyrstir í söfn.
4. Myndlist og kvikmyndir í Skaftfelli og Herðubreið
Seyðisfjörður hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem einn öflugasti menningarbær landsins. Á veturna er þar haldin listahátíðin List í ljósi og á sumrin opnar bærinn faðminn fyrir ungu listafólki á LungA. Það er líka nóg að sjá fyrir menningarsinnaða ferðalanga. Áhugafólk um samtímamyndlist ætti ekki að láta hjá líða að staldra við í Skaftfelli, myndlistarmiðstöð Austurlands, en þar eru haldnar sýningar allt árið. Í góðu veðri er rakið að ganga að útilistaverki þýska listamannsins Lukas Kühne sem nefnist Tvísöngur, en verkið er hljóðskúlptúr sem heiðrar íslensku tvísöngshefðina. Svo er líka hægt að kúpla sig aðeins úr frígírnum og fara í bíó í kvikmyndahúsinu Herðubreið sem er einkar snoturt og gamaldags í besta skilningi þess orðs.
5. Edenslundur á Akureyri
Eðli málsins samkvæmt má finna margs konar afþreyingu í höfuðstað Norðurlands. Þar eru söfn af ólíkum toga, sundlaug sem býður upp á bæði ærsl og afslöppun og matur frá ólíkum heimshornum. Einn er sá staður á Akureyri sem ritstjórn Heimildarinnar var sammála um að draga fram í þessari umfjöllun og það er Lystigarðurinn. Á heimasíðu Lystigarðsins segir að hann sé fyrsti almenningsgarður landsins en hann var formlega opnaður árið 1912. Garðurinn hefur verið stækkaður nokkrum sinnum í gegnum tíðina og nú má þar finna alls um 3.500 tegundir plantna. Í góðu veðri er Lystigarðurinn á Akureyri tilvalinn áfangastaður fyrir jafnt unga sem aldna, hvort sem það er til þess að dást að fjölbreyttri flórunni, busla í einum af gosbrunnum eða tjörnum garðsins, nú eða til þess að fá sér hressingu á kaffihúsinu LYST.
6. Sérviskuleg söfnun á öllu mögulegu
Eitt forvitnilegasta safn landsins er í Eyjafjarðarsveit, Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Á safninu má finna allt milli himins og jarðar en Sverri var ekkert óviðkomandi í sinni söfnun. Vegna þess hve fjölbreyttur safnkosturinn er þá tekst Smámunasafninu að snerta á iðnaðar-, byggingar-, viðskipta-, minja- og landbúnaðarsögu héraðsins. Heimsókn á safnið kemst þar af leiðandi nálægt því að vera menningarleg alslemma en þess má geta að framsetningin á sumum gripum er svo listræn að Smámunasafninu tekst því næstum að standast mörgum listasöfnum snúning í sjónrænni upplifun.
7. Fallegasta laug landsins og saga vesturfaranna
Sundlaugin á Hofsósi þykir með þeim fegurri á landinu enda er útsýnið þaðan út Skagafjörðinn virkilega fallegt. Þar að auki er hægt að heimsækja Vesturfarasetrið á Hofsósi og fræðast um merkilega sögu þeirra Íslendinga sem kusu að ferðast vestur um haf og setjast þar að. Hvers vegna fór allt þetta fólk af landi brott? Hvernig vegnaði þeim á áfangastað? Settust Íslendingar að í Brasilíu en ekki bara í Bandaríkjunum og Kanada? Svörin við þessum spurningum leynast á Vesturfarasetrinu.
8. Heimilisiðnaður við ósa Blöndu
Beggja vegna við ósa Blöndu stendur fallegt þorp, Blönduós, sem nú er hluti af sveitarfélaginu Húnabyggð. Það vill oft brenna við að fólk fari á mis við fegurð staðarins – stoppi kannski bara á bensínstöðinni við þjóðveginn til þess að fá sér í gogginn eða grípa eitthvað til að maula á ferðinni. Ekki einungis er bærinn mjög fallegur heldur er handverkinu gert þar hátt undir höfði. Á heimilisiðnaðarsafninu má fræðast um sögu íslenskra hannyrða og heimilisiðnaðar að fornu, meðal annars á sýningum sem helgaðar eru útsaumi, ullinni og þjóðbúningum.
9. Skrímslasögur og ylþýðar melódíur
Jón Kr. Ólafsson hefur haldið vel utan um tónlistarsögu landsins og hann miðlar henni á sinn einstaka hátt á safninu Melódíur minninganna sem finna má á heimili Jóns á Bíldudal. Hljómplötur, myndir og plaköt prýða veggina og í safninu má einnig finna hljóðfæri, klæðnað og aðra muni sem tengjast mörgum úr hópi fremsta tónlistarfólks landsins. Haldið er utan um annars konar minningar í Skrímslasetrinu, þar geta gestir glöggvað sig á skrímslasögum sem lifað hafa með þjóðinni í gegnum aldirnar. Á heimasíðu safnsins segir að það hafi legið beint við að finna safninu stað á Bíldudal, enda hafa fundir manna og skrímsla verið einna algengastir á Vestfjörðum.
10. Listamaðurinn með barnshjartað í Selárdal
Í Selárdal í Arnarfirði má finna forvitnilegan höggmyndagarð Samúels Jónssonar sem kallaður hefur verið listamaðurinn með barnshjartað. Samúel kom sér upp sannkallaðri ævintýraveröld sem er full af alls konar kynjaverum sem hann vann í steinsteypu og málaði. Félag um listasafn Samúels var stofnað árið 1998 og réðst í kjölfarið í mikið endurreisnarstarf. Á þeim tíma voru listaverkin ásamt húsi Samúels, safni hans og kirkju verulega farin að láta á sjá eftir áratugalangan ágang náttúruaflanna. Safnið er opið á sumrin og þar má fá kaffiveitingar og leiðsögn frá sjálfboðaliðum sem taka á móti gestum.
11. Tónlistarhátíð innan um kríugarg
Margir lesendur eiga eflaust ljúfar minningar af kríugargi og sólskini frá Flatey á Breiðafirði. Eyjan er nánast eins og tímakista og þar er takturinn í öllu á einhvern hátt hægari. Tónlistarmennirnir sem troða upp á Sumarhátíð Hótels Flateyjar í sumar eru aftur á móti ekki feimnir við að slá taktinn af krafti. Sumarhátíðin er orðin að árvissum viðburði og er árið í ár engin undantekning en fjölbreyttur hópur tónlistarfólks leikur þar ljúfa tóna um hverja helgi fram í miðjan ágúst.
Athugasemdir (1)