Mér er það til efs að hún hefði litið dagsins ljós á árunum fyrir hrun,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um skýrslu sem Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands birti í gær vegna lögbrota Íslandsbanka við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum.
Katrín bendir á að regluverkið á fjármálamörkuðum sé gjörbreytt frá því sem var fyrir hrun.
„Ég tel að að einhverju leyti sýni þessi ferill að við höfum staðið okkur vel, margar ríkisstjórnir frá hruni, í að byggja upp þetta regluverk,“ segir Katrín sem viðurkennir þó að það séu mikil vonbrigði að sjá reglurnar brotnar.
Hún segir skýrsluna mikilvægan þátt í uppgjörinu vegna sölunnar. Ríkið á enn um 40% í bankanum og sagði fjármálaráðherra í samtali við Heimildina fyrr í dag að mikilvægt væri að hætta ekki við áform um að losa um þann eignarhlut ríkisins.
Katrín segir Vinstri græn sammála því að selja megi frekari hlut í bankanum.
„En það verður þá með breyttu fyrirkomulagi og þetta má ekki endurtaka sig,“ segir Katrín.
Spyr að leikslokum í fylgismálum
Ríkisstjórnarflokkarnir mældust samanlagt með 34,2 prósent fylgi í könnun Maskínu sem birt var í morgun: Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 18,5 prósent, Framsóknarflokkur með 8,8 prósent og Vinstri græn slétt 7 prósent.
Katrín telur að þrálát verðbólga og vaxtahækkanir hafi sitt að segja um lágt fylgi.
„En ég er líka mjög sannfærð um það að mín hreyfing er að skila þeim verkum sem við ætluðum okkur að gera þannig að eins og allir stjórnmálamenn segja: Við spyrjum að leikslokum í þessu eins og öðru.“
Athugasemdir (2)