Engin skrifleg gögn né jákvætt svar regluvarðar eru til um beiðni Ara Daníelssonar, stjórnarmanns í Íslandsbanka, um undanþágu frá banni við þátttöku í lokuðu útboði á hlutum íslenska ríkisins í Íslandsbanka sem fór fram 22. mars í fyrra. Félag í eigu Ara, sem skráð er í Lúxemborg, keypti fyrir tæpar 55 milljónir króna í útboðinu, en hann hafði komið inn í stjórn Íslandsbanka nokkrum dögum áður en útboðið fór fram.
Í sáttarskýrslu Fjármálaeftirlitsins Seðlabanka Íslands, sem birt var í dag og útlistar lögbrot bankans við sölu á hlutum í sjálfum sér, kemur fram að Ari hafi fengið undanþáguna munnlega á fræðslufundi sem haldinn var fyrir nýja stjórnarmenn, eftir að yfirlögfræðingur Íslandsbanka kom inn á fundinn og tilkynnti um að útboðið væri hafið. Undanþágan hafi svo verið staðfest skriflega af regluverði, í tölvupóstsamskiptum að morgni næsta dags. Hún var hins vegar ekki skráð fyrr en tveimur dögum síðar, eftir að útboðið var um garð gengið.
Þar segir orðrétt: „Þegar útboðið hófst kl. 16:11 hafi staðið yfir fræðsla regluvarðar fyrir nýja stjórnarmenn. Á fræðslufundinum voru regluvörður, stjórnarformaður, umræddur stjórnarmaður og varamaður í stjórn. Yfirlögfræðingur málsaðila kom inn á fræðslufundinn til að upplýsa um að útboðið væri hafið. Varpaði umræddur stjórnarmaður m.a. fram þeirri spurningu hvort hann mætti sem stjórnarmaður taka þátt í útboðinu þó svo að lokað tímabil stæði yfir hjá málsaðila.“
Regluvörður hafi metið það sem svo að þar sem engar innherjaupplýsingar hefðu legið fyrir á þessum tíma væri hægt að beita undanþáguákvæði 5. kafla reglnanna enda slíkt ekki í ósamræmi við lög og reglur. „Reglugerð ESB nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR) kveður einungis á um að viðskipti stjórnenda með bréf í útgefandanum séu óheimil í 30 daga fyrir birtingu uppgjörs, sbr. 11. tölul. 19. gr. reglugerðarinnar. Með vísan til þessa fékk stjórnarmaðurinn skýrt og afdráttarlaust svar regluvarðar þess efnis að honum væri heimilt að taka þátt í útboðinu og að frekari aðgerða væri ekki þörf.“
Forsendur til að taka ákvörðunina ekki til staðar
Í sáttarskýrslunni segir að Fjármálaeftirlitinu hafi ekki borist gögn sem staðfesta að send hafi verið skrifleg beiðni um undanþágu frá reglunum, þrátt fyrir beiðni þar um. „Ekki verður litið á umrætt samtal sem veitta undanþágu, enda gera reglur málsaðila ráð fyrir að beiðnir um undanþágu berist skriflega. [...] Forsendur til að taka ákvörðun um hvort starfsmönnum væri heimilt að taka þátt í útboðinu á grundvelli reglna málsaðila um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum voru ekki til staðar vegna skorts á greiningu hagsmunaárekstra.“
Íslandsbanki viðurkenndi í andsvörum sínum til eftirlitsins að það hefði verið í betra samræmi við þær formkröfur sem gerðar eru í áðurnefndum reglum að skrá atburðarásina skriflega.
Ari er fyrrverandi starfsmaður Glitnis banka og og framkvæmdastjóri eignastýringafyrirtækisins Reviva Capital SA. Ari situr einnig í áhættu- og endurskoðunarnefnd Íslandsbanka. Ari settist fyrst í stjórn Íslandsbanka um það leyti sem útboðið fór fram og var eins, og áður segir staddur á fræðslufundi fyrir nýja stjórnarmenn, ásamt regluverði bankans, þegar útboðið fór fram.
Tók hann 10% snúninginn?