„Það er saga til næsta bæjar þegar hófstilltar, skynsamlegar tillögur um næstu skref og aðgerðir og vinnulag í þessum málaflokki, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi samþykkt að vísa þeim frá, samþykkt að vísa málinu frá, stinga höfðinu í sandinn því einhver annar sé að fjalla um málið,“ sagði Guðmundur Árni Stefánsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar lögðu á síðasta fundi fram fjórar tillögur um aðgerðir vegna málefna heimilislausra. Tillögurnar voru byggðar á tillögum sem settar voru fram í skýrslunni „Samstarfsverkefni í málefnum heimilislausra“ og kom út í mars á þessu ári. Skýrslan var unnin á vettvangi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og að verkefninu stóðu velferðarsvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkurborgar.
Tillögunum var hins vegar vísað frá, hverri fyrir sig, með 6 atkvæðum frá meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gegn 5 atkvæðum Samfylkingar og Viðreisnar með þeim rökum að efnislega væru þær þegar til vinnslu á vettvangi SSH og í fjölskylduráði Hafnarfjarðar.
Efnisleg meðferð ekki tímabær
Valdimar Víðisson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði, sagðist líta málið mjög alvarlegum augum. Áðurnefnd skýrsla sé afar vel unnin og þar birtist góðar tillögur sem séu af sama meiði og Samfylkingin lagði fram á fundinum.
Valdimar lagði fram bókun fyrir hönd meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þar sem sagði: „Fyrir liggja góðar tillögur frá starfshópi sem vert er að rýna með aðildarsveitarfélögunum og vinna málið áfram.
Þessi vinna er í fullum gangi þessar vikurnar og teljum við í meirihlutanum því ekki tímabært að taka tillögur Samfylkingar til efnislegrar meðferðar í bæjarstjórn og er þeim því vísað frá.“
Í bókuninni kom ennfremur fram: „Á fundi fjölskylduráðs þann 30. maí sl. fól fjölskylduráð sviðsstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs að hefja samtal við sviðsstjóra aðildarsveitarfélagana um niðurstöður skýrslu starfshóps um málefni heimilislausra. Samtalið er hafið og verður á dagskrá á fundi SSH í júlí nk. Fjölskylduráð mun áfram fjalla um málefni heimilislausra á fundi sínum þann 27. júní nk. Í skýrslu starfshóps um málefni heimilislausra er mælst til að aðildarsveitarfélög vinni saman og sú vinna er hafin að frumkvæði Hafnarfjarðar.“
Árni Rúnar Þorvaldsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi í fjölskylduráði, var afar ósáttur við frávísunina. „Það er hlutverk bæjarstjórnar að ákveða næstu skref. Við getum ekki bara setið hjá og sagt að þetta sé í vinnslu hjá SSH eða fjölskylduráði. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur það verkefni að móta stefnuna fyrir bæinn og í stórum málaflokkum eins og þessum á frumkvæðið að koma frá bæjarstjórn. Við getum ekki litið svo á að bæjarstjórn sé bara fyrst og fremst einhver bókunarstaður eða afgreiðslustöð og að hér megi ekki koma fram tillögur sem þarf að takast á um og ræða í bæjarstjórn,“ sagði hann.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði mikilvægt að gera þetta erfiða málefni ekki pólitískt. „Þetta er margslungið, þetta er flókið. Við erum annars vegar að ræða gistiskýlin í Reykjavík og við erum að ræða stöðu heimilislausra. Það þarf að veita þjónustuna þar sem fólkið er, og það sækir oft og tíðum hvert í annað. Fólk sem leitar til gistiskýlanna er ekkert endilega fólk sem er skráð heimilislaust í sveitarfélögunum. Við skulum átta okkur á því líka. Í gistiskýlin leitar stundum fólk sem er ekki með stöðu heimilislauss einstaklings í sveitarfélaginu þannig að þetta er ofboðslega flókið, vandmeðfarið og víðfemt mál og mér finnst þessi umræða um að bæjarstjórn eigi að taka afstöðu og hafa skýra sýn á þetta. Jú, auðvitað. Við getum gert það með bókunum eða öðru slíku og komið áherslum okkar á framfæri hér í bæjarstjórn. En við skulum halda okkur við stjórnsýsluna og faglegheitin sem við erum að leggja upp með í kerfinu okkar,“ sagði Rósa.
„Hvort að úrræði í hverju sveitarfélagi fyrir sig er málið er svo spurningin. Ég ætla ekki að fara út í einhver smáatriði hérna“
Þá ítrekaði hún að verið væri að vinna málið heildstætt. „Við þurfum að komast að því hvert er besta fyrirkomulagið á þessu, veita þjónustuna þar sem fólkið sem er að óska eftir henni þarfnast hennar. Hvort að úrræði í hverju sveitarfélagi fyrir sig er málið er svo spurningin. Ég ætla ekki að fara út í einhver smáatriði hérna. En það er alveg hægt að koma afstöðu sinni á framfæri í bæjarstjórn, hnykkja á því ef það er það sem fólk er að tala um hérna án þess að endurflytja í rauninni hér tillögur aftur og aftur, sem eru í vinnslu og hafa verið, með kannski einhverju öðru orðalagi og einhverjum aðeins öðrum áherslum. Það er verið að vinna að málaflokknum heildstætt,“ sagði Rósa ennfremur og bætti við að vandi heimilislausra leysist ekki „þótt við leggjum fram einhverjar tillögur um þetta eða hitt“.
Ekki öll kurl komin til grafar
Guðmundur Árni sagði þá að það væri stundum háttur manna í bæjarstjórn að flækja tiltölulega einföld mál, hér liggi fyrir skýrar tillögur þó málaflokkurinn sjálfur sé viðkvæmur og snúinn.
„Við erum einfaldlega að taka það á dagskrá. Svo gerist það í millitíðinni, sem er óhjákvæmilegt annað en að ræða, hefur verið í fjölmiðlum, að upp kemur tilfelli þar sem ekki eru öll kurl komin til grafar, hvað orsakaði það að einum einstaklingi, ólánsmanni, var vísað frá og fékk ekki húsaskjól. Ég hef lesið í fjölmiðlum að Hafnarfjarðarbær sé með sér reglur sem önnur sveitarfélög hafa ekki þegar kemur að gistiskýlinu í Reykjavík, að það beri að láta félagsþjónustuna í Hafnarfirði vita ef sami einstaklingur sækist eftir næturgistingu í þrjú skipti, og það hafi gerst einmitt í þessu tilfelli og Hafnarfjarðarbær hafi ekki viljað borga. Þannig er þetta sem við okkur blasir og við getum ekki undan því vikist að þessi umræða á sér stað í fjölmiðlum og við þurfum auðvitað að bregðast við því, og það kemur ofan á þessa almennu umræðu sem við hófum hér í maímánuði eftir að skýrslan ágæta komi fram,“ sagði Guðmundur Árni.
Heimildin greindi frá því 9. júní síðastliðinn að heimilislausum karlmanni með lögheimili í Hafnarfirði var ítrekað vísað frá neyðarskýli í Reykjavík að kröfu Hafnarfjarðarbæjar og svipti hann sig lífi í kjölfarið.
Táknrænn stuðningur við að gera betur
Þá sagðist Guðmundur Árni styðja tillögur Samfylkingarinnar heils hugar. „Ég tel að þetta séu mikilvæg næstu skref þannig að málaflokkurinn fái þá athygli sem honum ber. Það er alltaf verst af öllu í viðkvæmum málaflokkum eins og þessum að stinga höfðinu í sandinn. Hér ætlar meirihluti bæjarstjórnar að gera það enn einn ganginn í lykilmáli sem snertir líf og heilsu því miður of margra, fólks sem er á vergangi og á hvergi höfði sínu að halla. Það er okkar skylda, lagaleg skylda, það er okkar siðferðislega skylda að tala skýrt í þeim málum,“ sagði hann.
Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar, lét bóka að hann styðji tillögur Samfylkingarinnar í málefnum heimilislausra „meðvitaður um það að verið sé að vinna að þessum tillögum í kerfinu. Fulltrúi Viðreisnar lítur á það sem stuðning við þá vinnu sem þegar er í gangi og sem táknrænn stuðningur við það að gera miklu betur í þessum málaflokki. Ásættanlegum árangri í málaflokknum verði aldrei náð nema með náinni samvinnu allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Pólitískt hlutverk bæjarstjórnar er að setja stefnuna og tryggja málaflokknum nægilegt fjármagn.“
„Við skulum gera það sem okkur ber, gera það sem við getum til þess að hjálpa þessu fólki sem þarf á hjálp okkar að halda og hætta að rífast hér um tittlingaskít“
Þá sagði Jón Ingi mikilvægt að fulltrúar bæjarstjórnar „hugsi hér í sameiningu hvað við getum gert til að gera málaflokkinn skilvirkari og nýtt fé sem best þannig að fólk sem glímir við erfiðan og lífshættulegan vanda, hvernig við getum létt því lífið sem okkur ber.“ Í málaflokknum megi ekkert sveitarfélag skorast undan. „Það er bara ekki í boði.“
Og hann gerði ósætti fulltrúa meiri- og minnihlutans að umtalsefni. „Maður fyllist dálitlu vonleysi þegar við tölum um þennan viðkvæma málaflokk í bæjarstjórn. Hér er í raun verið að rífast um formsatriði en við erum ekki að rífast um neyðina eða rökræða neyðina og hvernig við getum hjálpað,“ sagði hann og bætti við: „Við skulum gera það sem okkur ber, gera það sem við getum til þess að hjálpa þessu fólki sem þarf á hjálp okkar að halda og hætta að rífast hér um tittlingaskít.“
Vænir meirihlutann um að vilja svæfa málið
Árni Rúnar sagði að með því að samþykkja tillögur Samfylkingarinnar væri Hafnarfjarðarbær að senda þau skýru skilaboð til hinna sveitarfélaganna að þau séu til, og þeirra að taka næsta skref. Í greinargerð með tillögum Samfylkingarinnar kom fram að pólitískt frumkvæði hafi skort hjá aðildarsveitarfélögunum eftir að skýrsla samstarfsverkefnisins kom út.
Þá sagði hann að það læddist að sér sá grunur að meirihlutinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar „vilji ekki stilla félögum sínum í öðrum bæjarstjórnum sem hér eiga hlut að máli upp við vegg með því að segjast vera tilbúin í þetta núna strax heldur eigi að láta málið malla áfram eitthvað og úr því komi svo kannski ekki neitt.“
Athugasemdir