Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu - félags fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og endurhæfingu, er misboðið vegna þess hvernig tekið er á málum heimilislausra í Hafnarfirði.
Heimildin hefur fjallað um að heimilislausum karlmanni með lögheimili í Hafnarfirði var ítrekað vísað frá neyðarskýli í Reykjavík að kröfu Hafnarfjarðarbæjar og svipti hann sig lífi í kjölfarið.
„Varðandi svör Hafnarfjarðarbæjar í Heimildinni frá 9. júní þá verð ég að segja að mér finnst þau í besta falli ósmekkleg gaslýsing. Í svörunum var ekki verið að koma hreint fram, klárlega var aðeins verið að slökkva elda og teljum við að bærinn þurfi að gera almennilega hreint fyrir sínum dyrum,“ segir Guðmundur Ingi.
„Við skulum ekki gleyma því að Hafnarfjarðarbær hefur einnig margoft boðist til að aðstoða sína borgara við að skrá lögheimili sitt í annað bæjarfélag og jafnvel fyrir greiðslu svo að bærinn losni við að þjónusta fólk og minnki kostnað. Ég hef sjálfur verið á slíkum fundi í Hafnarfirði með skjólstæðingi sem bærinn taldi „óæskilegan borgara“,“ segir hann.
Guðmundur Ingi bendir á að nokkur fjöldi skjólstæðinga félagsins hafi á einhverjum tímapunkti þurft að gista í neyðarskýlum eða flokkast sem heimilislausir.
„Við fáum töluvert af erindum vegna þessara mála og reynum að aðstoða eftir fremsta megni, þrátt fyrir að erindin sem slík rími kannski ekki við hlutverk Afstöðu. Það er því mikil þekking á málaflokknum innan félagsins,“ segir hann.
Jafn mikil neyð eftir 3 eða 300 daga
Í svörum frá Árdísi Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, við fyrirspurn Heimildarinnar vegna málsins í síðustu viku, kom fram að Hafnarfjörður sé með skýra verkferla varðandi einstaklinga sem leita til gistiskýla.
„Hafnarfjarðarbær er með samning við Reykjavíkurborg um veitingu þjónustunnar og hefur nýleg hækkun á gistináttagjaldi hvorki haft áhrif á verklag sveitarfélagsins um þriggja daga gistiviðmið né á þjónustu til einstaklinga,“ sagði þar einnig en eftir að einstaklingar með lögheimili í Hafnarfirði hafa þrisvar leitað næturskjóls í neyðarskýlunum er að beiðni Hafnarfjarðarbæjar haft samband við fulltrúa þar og þeir látnir vita.
Guðmundur Ingi segist sammála því að neyðarskýli ætti að nota mest í nokkra daga eða viku og þaðan færi fólk í annað úrræði. „En það getur aðeins gerst í draumaheimi eða á hinum Norðurlöndunum, sem við getum ekki borið okkur saman við. Auðvitað er neyðarúrræði ekki búsetuúrræði en neyðin er samt jafn mikil eftir 3 daga eða 300 daga, ef bærinn er ekki tilbúinn með nein úrræði,“ segir hann.
„Margt af okkar fólki passar ekki í hefðbundna ferla og þarf því sértæk úrræði og jafnvel einstaklingsbundin, auk þess eru einhverjir sem vilja ekki hjálp eða breyta lífi sínu að svo stöddu og við þurfum að virða það. En þetta er allt fólk með tilfinningar og á rétt á mannlegri reisn þrátt fyrir bágborið ástand. Eins og staðan er í dag þá er það ekki að gerast og sérstaklega hjá þeim sveitarfélögum sem láta vísa sínum borgurum út þegar neyðin er sem mest,“ segir Guðmundur ennfremur.
„Við hjá Afstöðu hörmum það að ekki sé betur gert í þessum málaflokki og teljum að Samband sveitarfélaga, stjórnvöld og þá helst ráðherra félagsmála verði að grípa þarna inn í núna. Ekki á morgun heldur núna, enda þekkist það ekki annars staðar að ríkið taki ekki þátt í að sinna heimilislausum. Þá hörmum við að Hafnarfjarðarbær skuli ekki viðurkenna sína vankunnáttu og þau mistök sem þau hafa gert, svo hægt sé að laga og koma þessum málum í viðunandi horf. Við getum og erum alveg tilbúnir til að aðstoða þau við það,“ segir hann.
Tekið fyrir í bæjarráði Hafnarfjarðarbæjar
Í svari Árdísar, fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar, sagði ennfremur: „Engum einstaklingi hefur verið vísað frá án boða um önnur úrræði og ráðgjafar sveitarfélagsins boðnir og búnir til að finna leiðir og lausnir í öllum málum.“
Heimildin greindi frá því fyrir helgi að fjölskylduráð Hafnarfjarðar hefur vegna málsins kallað eftir að lagðar verði fram verklagsreglur varðandi aðgengi fólks með lögheimili í bæjarfélaginu að neyðarskýlum í Reykjavík.
„Mér finnst við ekki hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um af hverju þess var krafist að honum yrði vísað frá og við hvaða verklagsreglur væri miðað,“ sagði Árni Rúnar Þorvaldsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og fulltrúi flokksins í fjölskylduráði. Hann sagði í samtali við Heimildina að bærinn hafi haldið sig við þau svör sem Árdís hafi sent frá sér en honum finnst þau „heldur rýr“.
Málefni heimilislausra voru til umræðu í bæjarráði Hafnarfjarðar á fimmtudag. Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og fulltrúi í bæjarráði, sagði við Heimildina að til hafi staðið að forstöðumaður fjölskylduráðs kæmi á fundinn til að fara yfir stöðuna en viðkomandi hafi verið vant við látin og komst ekki á fundinn.
„En umræðan var á þá leið að þetta mætti ekki gerast. Þetta er síðasta úrræði þeirra sem eru á götunni og eiga við vanda að stríða, og það er ekki í boði að úthýsa þeim. Þetta er neyðarúrræði og þau verður að virkja, ekki stundum heldur alltaf. Það á að ganga þannig um hnútana að þessi leið sé greið,“ sagði Guðmundur Árni.
Við vinnslu fréttarinnar náðist ekki tal af Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.
- Ekki í fyrsta sinn sem Rósa lætur ekki ná í sig. Svona fólk á ekki erindi í stjórnunarstöður.