Fjölskylduráð Hafnarfjarðar hefur kallað eftir að lagðar verði fram verklagsreglur varðandi aðgengi fólks með lögheimili í bæjarfélaginu að neyðarskýlum í Reykjavík. „Þær eru ekki komnar ennþá,“ segir Árni Rúnar Þorvaldsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og fulltrúi flokksins í fjölskylduráði.
Ástæða beiðninnar er sú að heimilislausum karlmanni með lögheimili í Hafnarfirði var ítrekað vísað frá neyðarskýli í Reykjavík að kröfu Hafnarfjarðarbæjar og svipti hann sig lífi í kjölfarið, eins og Heimildin hefur fjallað um.
„Mér finnst við ekki hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um af hverju þess var krafist að honum yrði vísað frá og við hvaða verklagsreglur væri miðað,“ segir Árni Rúnar.
Það var föstudagskvöldið 26. maí sem maðurinn leitaði í neyðarskýlið í síðasta sinn. Systir hans sagði í samtali við Heimildina eftir andlátið: „Þetta var í minnst þriðja skipti sem honum var vísað frá. Ég talaði við hann á laugardeginum og við ætluðum að hittast og fá okkur kaffi. Hann svaraði síðan aldrei þegar ég hringdi aftur. Ég vissi ekkert um hann fyrr en spítalinn hringdi.“ Hann gerði lífshættulega sjálfsvígstilraun laugardaginn 27. maí en komst hvorki til lífs eða meðvitundar og 1. júní voru öndunarvélar teknar úr sambandi og hann úrskurðaður látinn.
Í svörum frá Árdísi Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, við fyrirspurn Heimildarinnar vegna málsins í síðustu viku, kom fram að Hafnarfjörður sé með skýra verkferla varðandi einstaklinga sem leita til gistiskýla.
Rýr svör bæjarins
„Hafnarfjarðarbær er með samning við Reykjavíkurborg um veitingu þjónustunnar og hefur nýleg hækkun á gistináttagjaldi hvorki haft áhrif á verklag sveitarfélagsins um þriggja daga gistiviðmið né á þjónustu til einstaklinga,“ sagði þar einnig en eftir að einstaklingar með lögheimili í Hafnarfirði hafa þrisvar leitað næturskjóls í neyðarskýlunum er að beiðni Hafnarfjarðarbæjar haft samband við fulltrúa þar og þeir látnir vita.
„Engum einstaklingi hefur verið vísað frá án boða um önnur úrræði og ráðgjafar sveitarfélagsins boðnir og búnir til að finna leiðir og lausnir í öllum málum,“ segir ennfremur í svari Árdísar.
Árni Rúnar segir að bærinn hafi haldið sig við þau svör sem Árdís hafi sent frá sér en honum finnst þau „heldur rýr“.
„Þetta er síðasta úrræði þeirra sem eru á götunni og eiga við vanda að stríða, og það er ekki í boði að úthýsa þeim“
Málefni heimilislausra voru til umræðu í bæjarráði Hafnarfjarðar í gær. Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og fulltrúi í bæjarráði, segir að aðalumræðan um málið hafi átt sér stað innan fjölskylduráðs sem heldur utan um samkomulagið við Reykjavík vegna gistingar heimilislausra í neyðarskýlum.
Til stóð að forstöðumaður fjölskylduráðs kæmi á fund bæjarráðs í gær til að fara yfir stöðuna en viðkomandi hafi verið vant við látin og komst ekki á fundinn. „Það kom því fátt nýtt fram og ekkert sem var bókað á fundinum,“ segir Guðmundur Árni.
„En umræðan var á þá leið að þetta mætti ekki gerast. Þetta er síðasta úrræði þeirra sem eru á götunni og eiga við vanda að stríða, og það er ekki í boði að úthýsa þeim. Þetta er neyðarúrræði og þau verður að virkja, ekki stundum heldur alltaf. Það á að ganga þannig um hnútana að þessi leið sé greið.“
Taka þurfi ákvarðanir hratt og örugglega
Á fundi fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar mánudaginn 12. júní óskuðu fulltrúar Samfylkingarinnar eftir upplýsingum um stöðu viðræðna við önnur sveitarfélög í málefnum heimilislausra. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu einnig fram eftirfarandi bókun:
Að frumkvæði Samfylkingarinnar voru málefni heimilislausra til umræðu á fundi bæjarstjórnar þann 24. maí sl. Þar fögnuðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar nýbirtri skýrslu um samstarfsverkefni velferðarsviða Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness um málefni heimilislausra með flóknar þjónustuþarfir.
Á sama tíma minntum við á að umrædd sveitarfélög verði að bæta aðkomu sína að þessum málaflokki og bjóða upp á betri og markvissari úrræði fyrir íbúa sína. Mikilvægt er að nýta niðurstöður og tillögur fyrrnefndrar skýrslu með markvissum hætti en til þess að svo megi verða þarf að taka ákvarðanir um næstu skref hratt og örugglega.
Hér er um hóp fólks að ræða sem býr við erfiðar aðstæður og úrlausnir þola enga bið. Þess vegna er mikilvægt að fyrrnefnd sveitarfélög vinni hratt að ákvörðunum um næstu skref. Einnig benda fulltrúar Samfylkingarinnar á að Hafnarfjörður er ekki bundinn af ákvörðunum annarra sveitarfélaga heldur getur hann tekið ákvarðanir um aðgerðir í þágu heimilislausra með sjálfstæðum hætti.
Í umræddri skýrslu, sem unnin var á vettvangi SSH - Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í mars 2023 og Heimildin hefur áður sagt frá, var heildarkostnaður Hafnarfjarðarbæjar vegna nýtingar neyðarskýlanna í Reykjavík 4,2 milljónir króna árið 2022. Þar segir ennfremur að 18 heimilislausir einstaklingar með fjölþættan vanda séu með lögheimili í Hafnarfirði.
Við vinnslu fréttarinnar náðist ekki tal af Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar.
Athugasemdir (1)