Sólveig Hrappsdóttir, 19 ára, og Tómas Atlason, 18 ára, ganga varfærnislega á eftir vængbrotnum fugli sem trítlar haltur niður Austurstræti. Þau eru í gulum vinnugöllum með appelsínugula hanska og teygja sig niður að fuglinum til þess að stýra honum í burtu frá svartri Teslu sem nálgast óðfluga. Bílstjóri bifreiðarinnar stoppar bílinn og fuglinn kemst yfir götuna án frekari áverka.
„Við eigum að vera að hreinsa einhver tré, eða svona arfa, akkúrat núna. Við vorum líka að planta blómum þarna í gær,“ segir Sólveig og bendir í átt að Austurvelli. „En síðan sáum við þennan fugl. Já, við fundum hann bara á götunni. Hann hreyfði sig ekki.“
„Já, hann er veikburða og kann varla að fljúga. Við erum að reyna að gefa honum orm eða eitthvað,“ bætir Tómas við.
Hvað ætlið þið svo að gera?
„Bara láta hann í friði.“ Sólveig fylgist með honum haltra áfram.
„Já, kannski passa að enginn köttur komi og borði hann,“ svarar Tómas íhugull og sleppir fuglinum ekki úr augsýn.
Parið er í bæjarvinnunni annað sumarið í röð en stundar líka nám við Menntaskólann í Hamrahlíð. „Við erum saman og byrjuðum eiginlega að vera vinir í fyrra í bæjarvinnunni. Þá vorum við að tala saman hérna við þetta beð,“ segir Sólveig, sem brosir og lítur á Tómas. „Já,“ segir hann og endurgeldur henni brosið.
Athyglin beinist að fuglinum sem stefnir aftur út á götuna. Sólveig gengur að honum og appelsínugulu vinnuhanskarnir búa til mjúkt og öruggt umhverfi fyrir fuglinn í lófum hennar. Hún lyfti honum rólega frá jörðinni. Nú er kominn matartími. Parið arkar brosandi í burtu frá blaðakonu í leit að næsta ormi.
Athugasemdir