„Bíða, á ég þá bara að bíða,“ söng hljómsveitin Hljómar um mann sem orðinn er óþreyjufullur að fá að njóta blíðu konu sem hann hefur augastað á. En það er ekki aðeins í ástum sem „tíminn er lengi, svo lengi að líða“.
Hefð er fyrir því í Bretlandi að forsætisráðherra útbúi við lok embættissetu sinnar lista yfir einstaklinga sem fráfarandi ráðherrann vill að sæmdir verði heiðursorðum og aðalstignum fyrir framlag sitt til samfélagsins.
Í síðustu viku leit dagsins ljós lokaútgáfa heiðurslista Borisar Johnson, sem sagði af sér embætti í fyrra. Listann prýddu bestu vinir Borisar, húsbóndahollir samstarfsmenn hans og dyggir styrktaraðilar Íhaldsflokksins.
Dálkahöfundur dagblaðsins The Sunday Times sagði listann „lögfestingu á spillingu“ og „niðurlægingu fyrir alla þjóðina“. En þótt listinn sé sá ósvífnasti í manna minnum var einn sem komst ekki á blað þrátt fyrir þrábeiðni Borisar.
Hvatar við stjórnarmyndun
Gjarnan er sagt að vika sé langur tími í pólitík. Átján mánuðir eru þó enn lengri.
„Ég er auðvitað óþreyjufull,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Heimildina nýverið. Við myndun núverandi ríkisstjórnar í nóvember 2021 sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, að Guðrún tæki við sæti dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarssyni að átján mánuðum liðnum. Guðrún hefur nú beðið á nítjánda mánuð.
Við stjórnarmyndun árið 2021 klóruðu pólitískir spekúlantar sér í höfðinu yfir róttækum breytingum á ráðuneytum sem bútuð voru niður og málaflokkum dreift eins og smælki milli nýrra ráðherra. „Þetta eru óvenjulega miklar breytingar,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.
Fleira vakti spurningar um hvatana á bak við stjórnarmyndunarviðræðurnar. Öllum að óvörum var ráðherrastólum fjölgað um einn. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði uppátækið ganga þvert á tillögur í rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið þar sem mælst var til að ráðuneytum yrði fækkað. Benti hún á að ríkisstjórn hennar hefði fækkað ráðuneytum niður í átta en nú væru þau orðin tólf.
Margir nutu blíðu Borisar á fyrrnefndum heiðurslista. Á listann vantaði hins vegar nafn sem hafði verið á upprunalega listanum sem birtur var í mars. Þótt Stanley Johnson sé að eigin sögn „latasti maður mannkynssögunnar“, hann sé þekktur flagari og ofbeldismaður sem nefbraut eiginkonu sína, óskaði Boris þess að hann yrði sæmdur riddaratign. Svo vill til að Stanley Johnson er faðir Borisar Johnson.
„Pólitíski prakkarinn Boris, sem komst á hátindi ferils síns upp með trúðslæti jafnt sem blákaldar lygar, hafði loks farið yfir strikið.“
Þegar fréttirnar spurðust út ætlaði allt um koll að keyra. Pólitíski prakkarinn Boris, sem komst á hátindi ferils síns upp með trúðslæti jafnt sem blákaldar lygar, hafði loks farið yfir strikið.
Valdsins gæði
„Hey, hey, heyrðu mig góða/þú gerir það nú/gefðu mér blíðu þína,“ sungu Hljómar árið 1967. Sama stef sungu stjórnarliðar í nóvember árið 2021.
Þrátt fyrir tólf ráðherrasæti, þrátt fyrir að ráðherraefni veldu sér málaflokka úr sundurtættum ráðuneytum eins og mola úr jólakonfektkassa, virtust valdsins gæði ekki nægja til að fullnægja hungri allra þeirra sem töldu sér bera bitlinga. Óháð hagsmunum lands og þjóðar varð Bjarni Benediktsson því að skipta dómsmálaráðuneytinu í tvennt.
Lag Hljóma um mann sem telur sig af einskærri frekju hafa tilkall til líkamlegra ásta við myndarlega konu er augljóslega úrelt. Það sama ætti að gilda um eilíft tilkall stjórnmálafólks til bitlinga.
Háværar raddir eru nú uppi í Bretlandi um að heiðursorðukerfið verði lagt af. Íslenskt stjórnmálafólk hefur ekki aðgengi að sambærilegum titlum til að útdeila. Við eigum þó okkar eigin „lögföstu spillingu“ sem stunduð er til „niðurlægingar þjóðinni“ á formi ráðherrastóla, nefndarsetu, ráðgjafarvinnu og aðgengis að kjötkötlunum. Er því spáð að Guðrún Hafsteinsdóttir fái loks umbunina sem hún telur sig eiga skilið á ríkisráðsfundi á mánudaginn.
Bretar hafa sett stjórnmálastéttinni takmörk. Feður ráðherra fá ekki að koma nálægt spenanum. Á Íslandi er málum hins vegar enn svo háttað að ekki er hægt að einkavæða banka án þess að pabbi fjármálaráðherra dúkki upp. Hvar hyggjumst við Íslendingar draga línuna?
Höfundur er greinilega svo hógvær sem raun ber vitni til að forðast að draga að sér óþarfa athygli fyrir þessa djúpu speki