Íslensk stjórnvöld hafa ekki eftirlit með eða beina aðkomu að rannsóknarmiðstöð Heimskautastofnunar Kína á Kárhóli í Þingeyjarsýslu. Starfsemi umræddrar rannsóknarmiðstöðvar byggir hins vegar á formlegu samstarfi íslenska og kínverska ríkisins og það er kínverska ríkisstofnunin, Heimskautastofnun Kína, sem rekur hana. Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við spurningum þingmanns Pírata, Andrésar Inga Jónssonar, sem birt var á vef Alþingis í gær.
Í svarinu segir Áslaug Arna meðal annars: „Íslensk stjórnvöld hafa ekki beina aðkomu að rekstri rannsóknamiðstöðvarinnar á Kárhóli. Rannsóknamiðstöðin er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Aurora Observatory sem gert hefur leigusamning við Heimskautastofnun Kína. Rekstur og viðhald fasteignarinnar er í höndum sjálfseignarstofnunarinnar en umsjón og viðhald með þeim tækjabúnaði sem þar er, er í höndum starfsfólks Heimskautastofnunar Kína og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands.“
Heimildin hefur fjallað um rannsóknarmiðstöðina síðustu mánuði.
„Íslensk stjórnvöld hafa ekki beint eftirlit með starfsemi rannsóknamiðstöðvarinnar á Kárhóli.“
NATO hefur lýst áhyggjum
Eins og Heimildin hefur greint frá hefur Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO) lýst yfir áhyggjum af starfsemi rannsóknarmiðstöðvarinnar. Þær byggjast á því að hægt sé að nota rannsóknarmiðstöðina til að stunda iðnaðarnjósnir.
Í svari frá NATO í Brussel sagði upplýsingafulltrúi bandalagsins aðspurður um þetta: „Aðildarríki NATO eiga í víðtækum samskiptum á sviði öryggismála, meðal annars hvað varðar fjárfestingar annarra ríkja sem ekki eru í NATO. Varðandi spurningar um sértæk atriði á Íslandi þá bendi ég þér á ríkisstjórn Íslands.“ NATO svaraði spurningunni því ekki beint.
Utanríkisráðuneytið svaraði því til að Ísland ætti í samstarfi og samvinnu við bandalagsríki en ekki væri hægt að ræða um eðli samskiptanna við aðila eins og NATO. „Íslensk stjórnvöld eiga í náinni samvinnu og samráði við helstu vina- og bandalagsríki, meðal annars um fjárfestingar og starfsemi annarra ríkja, með það að markmiði að skýrt stöðumat sé til staðar á hverjum tíma. Eðli máls samkvæmt eru slík samtöl bundin trúnaði.“
Þá hafa önnur ríki einnig lýst yfir áhyggjum vegna rannsóknarmiðstöðvarinnar. Sérfræðingur í þjóðaröryggismálum, Gregory Falco, sagði til dæmis við Heimildina í byrjun apríl: „Í mínum huga er það of mikil tilviljun að Kína sé með rannsóknarmiðstöð einmitt á þeim stað sem hentar best til að sinna þessu eftirliti.“
Ekkert sérstakt eftirlit
Í svari Áslaugar Örnu kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi ekkert sérstakt eftirlit með starfsemi rannsóknarmiðstöðvarinnar, frekar en með sambærilegri rannsóknarmiðstöð Japans hér á landi. „Íslensk stjórnvöld hafa ekki beint eftirlit með starfsemi rannsóknamiðstöðvarinnar á Kárhóli fremur en öðrum vöktunarrannsóknum sem innlendir og erlendir aðilar framkvæma á hverju ári á Íslandi. Til samanburðar má nefna að Heimskautastofnun Japans hefur um áratugaskeið rekið tvær norðurljósarannsóknastöðvar á Íslandi sem ekki hefur verið haft sérstakt eftirlit með.“
Áslaug Arna segir enn frekar að færa eigi tækjabúnað heimskautamiðstöðvar Japans í stöðina á Kárhóli síðar á þessu ári. „Þess má geta að gert er ráð fyrir að tækjabúnaður japönsku heimskautastofnunarinnar sem er á Norðurlandi verði færður að rannsóknamiðstöðinni á Kárhóli síðar á þessu ári sem mun efla starfsemi stofnunarinnar. Þess má einnig geta að allur sá tækjabúnaður sem er til staðar á Kárhóli var fluttur inn af Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og er í samræmi við tækjabúnað sambærilegra rannsóknastöðva.“
Andrés Ingi Jónsson segir við Heimildina að hann bíði nú eftir svörum frá Þórdísi Gylfadóttur utanríkisráðherra um rannsóknarmiðstöðina. Hann spurði þrjá ráðherra spurninga um hana og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var fyrst til svara.
Athugasemdir (2)