Hrefna Líf Ólafsdóttir var ófrísk af dóttur sinni þegar verkföll starfsfólks í leikskólum í Reykjavík, þar sem hún var búsett, hófust vorið 2020. Þá var sonur hennar þriggja ára og raskaði verkfallið því lífi fjölskyldunnar. Nú er árið 2023 og fjölskyldan búin að koma sér fyrir í Kópavogi. Og þá skellur annað verkfall á í leikskólum, nú í Kópavogi og fleiri sveitarfélögum utan Reykjavíkur.
Hrefna fór því reynslunni ríkari inn í verkfallsaðgerðir félagsfólks BSRB sem starfar í leikskólum. Á ísskáp fjölskyldunnar er vaktaplan sem segir til um það hver sér um börnin á hvaða tíma og hvaða stundir dagsins leikskólinn geti séð um þau.
Hrefna er óvenju róleg miðað við foreldri sem hefur varla getað skipulagt sig mikið lengra fram í tímann en einn dag í einu vegna þess hve hratt dagskrá leikskólans hefur breyst í verkfallinu. Hún stillir væntingum sínum í hóf í þetta skiptið.
„Ég var alltaf mjög bjartsýn á að þetta myndi leysast þegar ég bjó í Reykjavík, þá hafði ég ekki upplifað þetta í nærumhverfi áður,“ segir Hrefna. Það verkfall stóð í tæpan mánuð og var vegna kjaradeilu félagsfólks Eflingar og Reykjavíkurborgar. Ekki löngu seinna fór kórónuveiran af stað og raskaði starfsemi leikskólanna.
„Núna einhvern veginn er ég ekki með neinar væntingar og er frekar bara að reyna að redda pössun,“ segir Hrefna. „Mér fannst fátt ganga upp og allt var svo seinlegt síðast, ég trúði því ekki að verkfall gæti enst svona lengi fyrir svona mikilvægt starf fyrir fólk sem er að sinna svona mikilvægum störfum.“
Í um fjórar vikur hafa verkföll um 2.500 félagsmanna BSRB sem starfa í leikskólum, íþróttamannvirkjum og víðar í nokkrum sveitarfélögum, raskað lífi almennings. Stéttarfélagið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa ekki náð saman í deilu um kjör fólksins. BSRB hefur gert kröfu um 128.000 króna eingreiðslu fyrir 7.000 félagsmenn sem fengu minna greitt á fyrstu mánuðum ársins en fólk í sömu störfum sem er í Starfsgreinasambandinu. BSRB segir kröfuna ófrávíkjanlega en Samband íslenskra sveitarfélaga vill ekki gangast við kröfunni þar sem hún rímar ekki við kjarasamninginn sem gerður var við BSRB árið 2020.
Hádegismatur á bílastæði leikskólans
Síðastliðnar vikur hefur Hrefna og hennar nánasta fjölskylda sótt systkinin í leikskólann ýmist eftir hálfan dag eða komið við til þess að gefa þeim að borða í hádeginu þar sem starfsfólk skorti. Oftar en ekki fór hádegismaturinn fram á bílastæðinu því ekki gafst tími til þess að skjótast heim og svo aftur í leikskólann.
Hrefna segist frekar heppin miðað við marga foreldra þar sem hún getur unnið heima. Það geti aftur á móti ekki allir og þá vandast málið. Þá býr hún einnig að góðu stuðningsneti sem samanstendur af móður hennar og tengdaforeldrum.
„Ef ég hefði þau ekki væri ég örugglega mjög ósátt,“ segir hún.
Börnunum líður ágætlega þó að þau skilji ekki fyllilega hvað er um að vera. Það erfiðasta er að útskrift sonar Hrefnu úr leikskólanum raskast vegna verkfallsins. Hann og samnemendur hans hafa í nokkurn tíma æft lög og leikrit fyrir útskriftina og eru spennt fyrir að leika listir sínar fyrir kennara og foreldra. Það eru því vonbrigði fyrir börnin að starfsfólk í verkfalli muni ekki geta mætt.
Áfram sér ekkert til lands í deilu BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eitt er þó víst, að þetta er í annað og síðasta skiptið sem sonur Hrefnu mun upplifa leikskólaverkfall sem nemandi. Hann er enda að útskrifast.
Athugasemdir