Elizabeth Holmes hóf afplánun 30. maí, um hálfu ári eftir að dómur var kveðinn upp yfir henni, 11 ára fangelsi fyrir að svíkja fjárfesta var niðurstaða dómara eftir umfangsmiki réttarhöld. Holmes reyndi hvað hún gat til að fá afplánuninni frestað, meðal annars með þeim rökum að hegðun hennar hefði verið til fyrirmyndar á meðan réttarhöldunum stóð og að hún hefði enga ástæðu til að flýja land þar sem hún á í góðu og ástríku sambandi við fjölskyldu sína, en Holmes á tvö börn: William sem er tveggja ára og Invicta sem fæddist í febrúar.
Afplánun Holmes átti að hefjast 27. apríl en lögmönnum hennar tókst á elleftu stundu að fresta afplánuninni með því að leggja fram áfrýjunarbeiðni til níunda áfrýjunardómstóls Bandaríkjanna (e. United States Courts for the Ninth Circuit) og með henni frestaðist afplánun Holmes sjálfkrafa þar til áfrýjunardómstóllinn tók afstöðu til beiðninnar. Holmes var því frjáls ferða sinna, gegn tryggingu, en það varði stutt þar sem áfrýjunardómstóllinn hafnaði beiðninni. Holmes hóf því loks afplánun í síðustu viku, nánar tiltekið klukkan 14, þriðjudaginn 30. maí.
Ætlaði að bjarga heiminum
Holmes ætlaði að breyta og bjarga heiminum þegar hún stofnaði líftæknifyrirtækið Theranos aðeins 19 ára gömul og hélt því fram að hún hefði þróað byltingarkennda blóðskimunartækni sem gæti greint hundruð sjúkdóma.
Tækin sem Holmes lét vísindamenn sína nota voru hins vegar þegar aðgengileg á markaði og hún vissi sjálf að tæknin sem hún barðist fyrir virkaði ekki. En hún lét það ekki stöðva sig og sveik fé út úr fjölda fjárfesta áður en upp komst um að vísindin að baki starfi Theranos stóðust ekki. Saga Elizabeth Holmes er um margt áhugaverð og sendir niðurstaða dómsins skýr skilaboð til Kísildalsins: Það eru afleiðingar af því að ljúga að fjárfestum.
Raunveruleikastjarna sem herbergisfélagi?
Alríkisfangelsi í Texas, FPC Bryan, verður heimili Holmes til 30. ágúst 2034, það er að segja ef hún mun afplána alla 135 mánuðina.

Fangelsið er um 160 kílómetra norðvestur af Houston, borginni sem Holmes ólst upp að hluta, og þar afplána um 655 konur hverju sinni. Öryggisgæsla í fangelsinu er í lágmarki og flestar konurnar sem þar afplána eru sekar um ýmis konar hvítflibbaglæpi. Holmes er án efa frægasta konan sem situr inni í Bryan þessa stundina en meðal samfanga hennar er Jen Shah, sem aðdáendur raunveruleikaþátta ættu að kannast við úr Real Housewives of Salt Lake City. Shah, líkt og Holmes, situr inni fyrir fjársvik.

Shah gæti verið herbergisfélagi Holmes en fangar eru yfirleitt í fjórar til átta saman í svefnklefa í tveggja manna kojum.
Holmes hefur nú sagt skilið við svarta rúllukragann sem hún klæddist í þeirri trú að vera tekin alvarlega, líkt og Steve Jobs, í Kísildalnum. Það var reyndar hennar eigin ákvörðun en hún hefur lítið að segja um klæðaburðinn í fangelsinu: Khaki-buxur og khaki-skyrta verður einkennisklæðnaðurinn næstu árin.
Fangarnir í FPC Bryan eru vaktar klukkan 6 á hverjum morgni, að því er fram kemur í handbók fangelsisins. Daglegt líf snýst svo um vinnu og tómstundir. Allir fangar þurfa að vinna og er tímakaupið á bilinu 12 sent til 1,15 Bandaríkjadala. Vinnan felst ýmist í matarundirbúningi eða verksmiðjuvinnu. Utan vinnutíma geta fangar tekið námskeið í viðskiptafræði og erlendum tungumálum, horft á sjónvarpið, stundað íþróttir eða sótt trúarathafnir.
Holmes getur talað við fjölskyldu sína með myndsímtölum og fær heimsóknir frá eiginmanni sínum og börnum um helgar og á sérstökum frídögum. Börn Holmes verða 11 og 13 ára þegar hún lýkur afplánun. Holmes er í hópi kvenna sem fer ört fjölgandi í fangelsum í Bandaríkjunum, síðustu tvo áratugi hefur kvenkyns föngum fjölgað um 700 prósent. Meirihluti þeirra eru mæður, rétt eins og Holmes.
Gert að greiða milljarða í skaðabætur
Auk þess að afplána 11 ára fangelsisdóm var Holmes dæmd til að greiða 452 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmum 64 milljörðum króna. Upphæðin skiptist á milli hennar og Ramesh “Sunny” Balwani, fyrrum kærasta og viðskiptafélaga. Hann hlaut þyngri dóm en hún, 13 ár, og hóf afplánun í apríl eftir árangurslausar áfrýjunartilraunir.
Sjálf hefur Holmes gefið út að hún sé nánast gjaldþrota og geti ekki einu sinni greitt lögfræðingum sínum. Lífið hefur því breyst talsvert. Fjölmiðlar, sem áður fjölluðu um Holmes sem yngsta kvenkyns milljarðamæringinn sem byrjaði frá grunni og „næsta Steve Jobs“ er núna „frumkvöðullinn sem féfletti fræðgarmenni“ á borð við Henry Kissinger fyrrverandi innanríkisráðherra.
Athugasemdir