Lögmannsstofan Wikborg Rein, fyrir hönd Samherja, bauð listamanninnum Oddi Eysteini Friðrikssyni, Odee, sátt í málaferlum sjávarútvegsfyrirtækisins á hendur honum, um leið og ljóst var að Odee hafði fengið lögmenn til að verja hagsmuni sína úti í Bretlandi. Vildi Samherji fella málið niður gegn því að Odee eftirléti fyrirtækinu lénið samherji.co.uk. Odee hefur hins vegar engin áform um að þiggja þá sátt. „Ég trúi á málfrelsið og tjáningarfrelsið og á ekki von á öðru en að ég vinni þetta mál.“
Svo sem Heimildin hefur ítrekað greint frá setti Odee í loftið vefsíðu sem hluta af listgjörningi sínum, „We‘re Sorry“, þar sem hann birti yfirlýsingu þess efnis að Samherji bæðist afsökunar á framferði sínu í Namibíu og héti því að vinna með yfirvöldum, namibískum sem íslenskum, auk annarra aðila og væri reiðubúið til að bæta fyrir gjörðir sínar.
Létu blekkjast af fréttatilkynningunni
Samherji fór fram á það fyrir dómstóli í Bretlandi að sett yrði á bráðabirgða lögbann á umrædda heimasíðu og á það féllst dómari í málinu. Byggði málflutningur Samherja á því að tilgangur síðunnar, útlit hennar og nafn, hefði verið til að blekkja netnotendur, og lögðu lögmenn fyrirtækisins áherslu á að þeim blekkingum hefði verið beint að breskum neytendum og hugsanlegum viðskiptavinum eða samstarfsaðilum fyrirtækisins þar í landi. Var bent á að minnsta kosti einn fjölmiðill, írska fréttasíðan The Fishing Daily, hefði látið blekkjast og birt frétt upp úr fréttatilkynningunni. Lögmenn Samherja bentu á þetta sem dæmi um skaða sem fréttatilkynningin og vefsíðan hefðu valdið. Umrædd frétt var þó tekin niður af vefsíðu The Fishing Daily.
Óttast frekari skaða á orðspori
Í framburði lögmanns Samherja, Cristophers James Grieveson, varð honum tíðrætt um umrædda fréttatilkynningu. Sagð Grieveson hana innihalda „játningar, afsökunarbeiðnir og loforð sem kærandi [Samherji] hefur einfaldlega ekki sett fram.“
„Kærandi telur verulegar líkur á frekari skaða á orðspori sínu hjá viðskiptavinum“
Þá hefði Odee með gjörningnum villt um fyrir aðilum í sjávarútvegi og almenningi sem myndu augljóslega tengja efni vefsíðunnar við Samherja og þar með „bera annan hug til kæranda. Hann hefur skaðað, og gæti skaðað, viðskiptavild kæranda og tök fyrirtækisins á að reka starfsemi sína með þeim lögmæta hætti sem kærandi leitast við.“
Segjast ekki vera að reyna að hefta málfrelsi
Þá vakti lögmaður Samherja sérstaka athygli dómara á Odee hefði einnig notað vörumerki Samherja, nafn fyrirtækisins, í stóra veggmynd í Listasafni Reykjavíkur, sem hefði vakið athygli íslenskra fjölmiðla og valdið því að fleiri netnotendur hefðu farið um vefsíðuna. Þó tilgreinir Grieveson lögmaður fyrir dómnum að Samherji hyggist ekki leita til dómstóla vegna veggmyndarinnar í Listasafninu, ekki að svo komnu máli. Ástæðan sé að um sé að ræða tímabundið verk á útskriftarsýningu, og „þó það [fyrirtækið Samherji] gagnrýni verkið, er það ekki að reyna að hefta málfrelsi.“
Fer ófögrum orðum um Samherja og Wikborg Rein
Sem fyrr segir buðu lögmenn Samherja sátt í málinu strax og lögmenn þeir sem Odee hafði fengið til starfa settu sig í samband við Wikborg Rein. „Fyrstu viðbrögð hjá þeim voru að Samherji væri tilbúinn að semja við mig. Þeir vildu í raun bara fella málið niður og fá lénið í sínar hendur,“ segir Odee í samtali við Heimildina.
„Þeir hafa komist upp með að semja sig út úr öllum andskotanum“
Odee segir hins vegar að hann hafi hafnað öllum sáttaumleitunum og detti ekki í hug að semja við Samherja um eitt né neitt. „Mín afstaða er að þeir megi fokka sér, þessi norska lögfræðistofa má fokka sér, Samherji má fokka sér. Ég ætla ekki að semja um nokkurn skapaðan hlut. Þeir hafa komist upp með að semja sig út úr öllum andskotanum og í kjölfarið hafa þeir getað sagt að þeir séu saklausir af hinu og þessu sem þeir hafa gert. Með framkomu sinni gagnvart mér sýna þeir bara sitt rétta andlit.“
Málið mun því ganga sinn gang fyrir dómstólum úti í Bretlandi.
Samherji nú með tölvupóstsamskipti fjölda fólks undir höndum
Í úrskurði dómara varðandi lögbannsskröfuna sagði að Odee væri skylt að færa lén vefsíðunnar yfir til Samherja, auk þess að taka niður síðuna, og að tryggja að hún, auk allra netfanga sem henni tengist, verði gerð óvirk þar til dómstóllinn birtir lokaúrskurð í málinu. Samherja er hins vegar óheimilt að nota lénið á nokkurn hátt fyrr en að fenginni heimild dómara. Sömuleiðis var tilgreint að Samherja væri skylt að hlíta hverri þeirri niðurstöðu dómsins sem lyti að því að greiða þyrfti Odee bætur vegna lögbannsins, ef það til þess kæmi.
Samkvæmt úrskurði dómstólsins er Odee óheimilt að skrá, afla sér eða nota nokkuð lén þar sem orðið samherji kemur fyrir, sem og nokkurt orð sem er því líkt. Þá er honum óheimilt að nota orðið Samherji í titli vefsíðu eða í nokkru útgefnu efni. Sömu sögu er að segja um notkun á vörumerkjum eða útgefnu efni Samherja.
Dómarinn féllst hins vegar ekki á þá röksemd lögmanna Samherja að Odee hefði notað vörumerkin í viðskiptalegu samhengi og byggði ákvörðun sína um lögbannið ekki á því, heldur að um óheimila notkun á vörumerkjum væri að ræða.
Odee var þá jafnframt gert skylt að afhenda Samherja öll tölvupóstsamskipti þar sem notast var við samherji.co.uk netföng. Um er að ræða vel á þriðja hundrað tölvupósta, flestir þeirra eru póstar sem Oddur sjálfur sendi en þó einhverjir tugir þar sem um er að ræða tölvupósta frá nafngreindu fólki, blaðamönnum og öðrum, með persónulegum upplýsingum þeirra. Þá hefur Samherji nú undir höndum.
Áfram Oddur alla leið!
Grálúsugir syndaselir samherja eiga sér engar málsbætur!