Engum manni mér óvandabundnum á ég meiri þakkarskuld að gjalda en Garðari Cortes sem er nú allur.
Ég stóð í þeim sporum rösklega þrítugur eftir þrettán ár í útlöndum við nám og störf að ég þurfti að hrökkva eða stökkva: vera annaðhvort áfram úti þar sem mér buðust gull og grænir skógar eða hverfa upp á von og óvon heim til Íslands, fólksins míns og fjallanna minna.
Kannski aðdráttarafl fólksins og fjallanna hefði dugað mér til að taka af skarið, en það auðveldaði mér ákvörðun mína um að flytja aftur heim að hér var mikil gróska í menningarlífinu, einkum tónlistarlífinu, og þar munaði manna mest um Garðar Cortes.
Íslenska óperan hafði þá nýtekið til starfa með miklum brag og um áratug áður hafði Garðar ásamt öðrum einnig stofnað Söngskólann í Reykjavík og búið þannig í haginn fyrir óperusýningar í Gamla bíói og Þjóðleikhúsinu. Mér er einkum minnisstæð uppfærslan á La bohème 1981 þar sem Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Garðar sungu hlutverk elskendanna svo vel að ég gekk syngjandi heim úr leikhúsinu og hef sungið síðan. Ég ánetjaðist söng og annarri tónlist.
Ég dróst að Óperunni ásamt vinum mínum Árna Tómasi Ragnarssyni og Þorsteini Blöndal í gegnum Styrktarfélagið. Við vorum kallaðir læknarnir þrír þegar við vorum að sniglast þar á æfingum okkur til upplyftingar. Þegar dró að frumsýningu á I pagliacci 1990 þar sem Garðar söng aldurhniginn trúð á Sikiley fyrir aldamótin 1900 og Ólöf Kolbrún söng eiginkonu hans sem var í tygjum við ungan mann. Þegar trúðurinn kemst að þessu rekur hann konu sína á hol og einnig elskhugann að áhorfendunum ásjáandi og lætur síðan lokaorð dramans falla: Gleðileiknum er lokið!
Nema ég hafði komizt að því að stundum hefði þótt fara betur á að bæklaður trúður sem fylgist úr máttlausri fjarlægð með framvindu dramans syngi lokaorðin frekar en gamli trúðurinn. Ég laumaði þessari athugasemd að leikstjóranum. Hann tók mig á orðinu og flutti lokahnykkinn frá Garðari til Keiths Reed sem söng bæklaða trúðinn. Garðari þóttu þetta afleit skipti, en hann hlýddi leikstjóranum. Sjaldan hef ég séð ástríðuríkari morð framin á óperusviði en þegar æðið rann á Garðar svo sem hægt er að sjá aftur á vefsetri Óperunnar þar sem upptaka af sýningunni er aðgengileg. Ég komst aldrei að því hvort Garðar vissi að ég hafði í mesta sakleysi orðið valdur að því að leikstjórinn tók af honum síðustu orðin í sýningunni.
Í veizlunum á hliðarsvölum Gamla bíós að loknum frumsýningum hélt söngurinn áfram. Garðar þurfti ekki nema smella fingrum og kórinn brast þá í söng ásamt einsöngvurum. Gleðin skein úr hverju andliti.
Árin liðu. Það var ekki fyrr en 2006 að ég áræddi að sýna Garðari fáein kórlög sem ég hafði samið, eitt þeirra frá unglingsárum. Garðar skrifaði mér til baka: „Ég leit aðeins í gegnum þessi lög og sé ekki betur en að þau séu nothæf, og vel það!! Þú skyldir þó ekki ætla að verða tónskáld, eins og pabbinn!!?“ Garðar leiddi mig af alúð fyrstu skrefin á þeirri braut og söng einsöngslög mín opinberlega fyrstur manna með Bergþóri Pálssyni í Hörpu 2012 ásamt Selmu Guðmundsdóttur, Gunnari Kvaran og öðrum hljóðfæraleikurum og aftur 2013. Garðar söng einnig fyrir gesti okkar Önnu Karitasar að heimili okkar. Hann reyndist mér ráðhollur og traustur vinur.
Þegar Jón Stefánsson stjórnaði fjölmennum fjárlagasöng heima hjá okkur Önnu söng Garðar bassa eins og rösklega sjötugum tenór sæmdi.
Í millitíðinni, það var 2010, hafði Garðar talið mig á að taka sæti í stjórn Söngskólans í Reykjavík þar sem við áttum gott samstarf og ég sit enn ásamt Ólöfu Kolbrúnu og nú Viðari Gunnarssyni sem leysti Garðar af hólmi fyrir skömmu. Skólinn sem Garðar stýrði þar til í fyrra þegar Ólöf Kolbrún tók við stjórninni fagnar fimmtugsafmæli sínu á þessu ári.
Garðar var stundum spurður hvað honum fyndist skipta mestu máli í söng. Hann svaraði: Textinn og túlkun hans. Líkt og margir óperusöngvarar hefði Garðar trúlega tekið ljóðasöng fram yfir óperusöng hefði hann þurft að velja. Hann var jafnvígur á hvort tveggja. Upptakan af ljóðatónleikum hans ásamt píanóleikaranum Erik Werba í Austurbæjarbíói 1984 færir áheyrendum ljóðasöng í hæsta heimsklassa. En Garðar var ekki bara söngvari af guðs náð heldur einnig hljómsveitarstjóri, kórstjóri og áræðinn frumkvöðull sem skilur eftir sig tvær af mikilvægustu stofnunum tónlistarlífsins í landinu.
Garðar var trúmaður, en hann minnist aldrei á trúmál við mig. Mér verður hugsað til föður míns sem sagði um séra Friðrik Friðriksson, náinn fjölskylduvin, að hann hefði gert sig að trúmanni með því að tala aldrei við sig um trúmál. Hlýtt og geislandi glaðvært viðmót Garðars og frábært framlag hans til tónlistarlífsins í landinu hafði meiri áhrif á mig en nokkur ræða um trúmál hefði getað haft.
Um Garðar hefur verið sagt að hann væri „kraftaverk í mannsmynd“. Í næsta hefti Andvara, tímarits Hins íslenzka þjóðvinafélags, verður undir þeirri yfirskrift birt ítarlegt samtal okkar Garðars þar sem hann horfir glaður um öxl og lætur gamminn geysa.
Takk fyrir Þorvaldur.