Í Barnaskóla Íslands, eins og við krakkarnir á Brekkunni á Akureyri kölluðum gamla fræðasetrið okkar í ofanverðu Gilinu af því að við héldum að hann væri nafli alheimsins, var til siðs að standa í röð á morgnana og jafna bilin áður en strigsað var upp tröppurnar og haldið harla léttum skrefum inn fyrir aðaldyrnar á reisulegu húsinu.
En það var ekki öllum gefið að fara inn um þá gættina.
Tossunum var ætlað að fara inn að aftan. Aðaldyrnar voru ekki fyrir þá. Skólastofa þeirra var í kjallara hússins.
Menntavegurinn sem þeim bauðst var bakdyramegin.
Enn er það svo að ég fyrirverð mig fyrir þá tilhugsun að við krakkarnir sem fengum náðarsamlegast að fara inn að framan gerðum ekki uppsteyt gegn þessu misrétti sem hafði líklega viðgengist um árabil í gamla barnaskólanum.
Og vel má vera að þetta hafi verið svona víðar um land.
En krakkarnir voru sumsé flokkaðir eins og rusl á þessum árum, í þá sem voru nothæfir og þaðan af betri til endurvinnslu – og hina sem máttu missa sín.
Og þóttu sjálfsagt ekki til nokkurs nýtir.
Nokkrum áratugum eftir skólavistina í slakkanum ofan við gömlu og góðu Akureyrarkirkju, þar sem okkur var kennt að allir menn væru jafnir fyrir Guði, hringdi einn strákanna úr tossabekknum í mig, en þá vorum við báðir fyrir löngu fluttir til Reykjavíkur. Ég hafði kynnst honum lítillega á æskuárunum á Akureyri, enda átti hann heima lítið eitt utar á Brekkunni en ég og leiðir okkar höfðu því legið saman á stundum í ærslafullum útileikjum.
Ég man samt að hann var alltaf frekar uppburðarlítill, rétt eins og hann þyrfti að afsaka tilveru sína fyrir okkur hinum. Það var ekki að sjá á honum sama æskufjörið og alla jafna geislaði af krökkunum á Brekkunni.
En hann spyr hvort hann geti hitt mig. Svona mörgum, mörgum árum seinna. Og ég segi það velkomið.
Erindið er sérstakt. Hann hafi átt erfitt líf, flosnað úr skóla upp úr fermingu, leiðst út í óreglu og tollað illa í vinnu á milli þess sem hann hafi þó tekið tarnir. Það hafi ekki vantað dugnaðinn í hann, en eirðarleysið hafi ávallt farið saman við athyglisbrestinn.
Svo kemur hann sér að efninu. Hann viti sem er að ég beri ábyrgð á fréttaskýringaþættinum Kompási á Stöð 2 ásamt öðrum fréttamönnum stöðvarinnar – og nú renni hann í grun að hann hafi náðst á mynd þar sem verið var að leggja snörur fyrir meinta barnaníðinga.
Hann muni ekki geta umborið það ef hann sjáist opinberlega.
Svo kveðjumst við.
En ég læt hann vita nokkrum dögum seinna að þrátt fyrir skoðun á myndskeiðunum hafi ég ekki komið auga á hann. En hvort hann vilji ekki leita sér aðstoðar, segi ég við hann í símanum. Hann sé greinilega ekki á góðum stað í lífinu.
Ég held það hafi ekki verið liðinn mánuður þegar ég heyrði af því að þessi gamli skólafélagi minn úr Barnaskóla Íslands hafði svipt sig lífi. Hann gat sennilega ekki horft lengur framan í eigin ásjónu.
Líf hans hafði augljóslega tekið ranga stefnu.
Og mér varð ósjálfrátt hugsað til mótunarára okkar tveggja. Honum var gert að fara inn að aftan. Mér bauðst að fara inn að framan.
Vandinn við þessa sögu er sá að hún er enn þá að gerast. Okkur virðist vera einkar lagið sem samfélagi að flokka fólk niður í misstór hólf í stóru fötunni inni í skáp, allt eftir hugsanlegum gáfum þess og getu, ellegar litarafti og kynhneigð, eða bara geðslagi.
Við höfum búið til ósjálfráðar reglur um að gefa fólki misjöfn tækifæri í lífinu.
Sjálfur ól ég upp yndislega dóttur með þroskahömlun og alvarlegan hrörnunarsjúkdóm sem átti ekki að eiga möguleika á því að flytja að heiman eins og aðrir krakkar sem vaxa úr grasi.
Nokkrir foreldrar í sömu sporum tóku sig saman og héldu á fund með félagsmálaráðherra um aldamótin. Hann sýndi málinu lítinn áhuga. En vissi til þess að það væri hægt að fá ódýrt húsnæði úti í Hrísey.
Og af því að maðurinn meinti það sem hann sagði, héldum við á dyr.
Og börðumst upp á eigin spýtur fyrir húsnæðinu.
Þegar nokkuð var liðið á öldina sem nú er uppi, þráði ungur strákur í ættinni minni að læra múrverk. Enga iðngrein þráði hann meira í lífinu. Hann vissi sem var að hann var bæði atorkumikill og harðduglegur, en býsna lélegur á bókina. Múrarameistarinn sem hann var kominn í vinnu hjá sagði honum að hafa engar áhyggjur af því, því strákurinn hefði svo góða rýmisgreind – og varla væri nokkur náðargáfa sem nýttist honum betur með réttskeiðina á lofti.
En Verkmenntaskólinn hafnaði honum.
Hann féll endurtekið á stærðfræði. Skólakerfið hafði ekki þörf fyrir hæfileika hans. Það varð að hafa uppi á veikleikum hans í stað þess að ýta undir styrkleika hans. Svo pilturinn fór á sjóinn.
Og þetta er gömul saga og ný.
Sjálfur fór ég inn að framan á íslenska menntaveginum. Ég get verið þakklátur fyrir það. Og ég var svo heppinn að njóta kennslu fólks sem trúði á skástu hliðar mínar. Það gafst ekki upp þótt ég gæti verið rellinn.
Mínir bestu kennarar voru stjórnsöm kona sem kenndi mér íslensku og harður karl sem leiddi mér galdra landafræðinnar fyrir sjónir. Þetta voru kennarar sem báru af í útgeislun og héldu athygli minni allan tímann.
Ég get verið þakklátur fyrir það, enn þann dag í dag.
Starfsævi mín og áhugamál hafa hverfst um hvorutveggja. Íslensku og landið mitt. Blaðamennsku, bókaskrif, ferðalög og fjallgöngur.
En þakklæti er snúið orð þegar fyrir liggur að Íslendingum er ekki öllum boðið inn að framanverðu.
Hvar maður er ræður ekki alltaf för.
Sum börn lifðu ekki bara við félagslega nauð heldur líka efnahagslegan skort og sum börn gera það enn í dag. Nauð sem hindrar leiðina að biðlistanum að aðaldyrunum. Það er ýmislegt sem hindrar getu til náms og frama. Næringarskortur af allslags tagi hefur verið þröskuldur margra. Ekki bara félagslegur heldur beinlínis fjörefnalegur og er enn í ddag.
Til að bæta gráu ofan á svart voru tossunum fengnir lökustu kennararinr.