Páskadag ber alltaf upp á sunnudegi og þá borðum við súkkulaðiegg. Það er þó misjafnt hvaða sunnudagur verður fyrir valinu. Í ár er páskadagur þann 9. apríl, í fyrra var hann 17. apríl. Þetta ósamræmi er sérkennilegt fyrirbæri sem stjörnufræðingar og stærðfræðingar hafa ekki komist að samkomulagi um. Jesús var krossfestur á föstudaginn langa en sá dagur fylgir páskasunnudeginum í tímatalinu og er því jafn síbreytilegur. Fleiri dagar fylgja með, til dæmis þrenningin góða: Bolludagur, sprengidagur og öskudagur. Þetta er kaos.
Fyrir tæpum 1.500 árum fól páfinn í Róm munknum og fræðimanninum Díónysíus Exiguus það verkefni að útbúa nýja páskatímatöflu. Samkvæmt henni átti páskadag að bera upp á fyrsta sunnudegi eftir fyrsta tunglfyllingardag, frá og með 21. mars. Páskatafla Díónysíusar varð algjör hittari og það ríkti sameining á meðal kristinna manna um páskahald í heil 800 ár. Aloysíus Lilíus kom þá fram á sjónarsviðið með nýjar kenningar sem byggðu á sama grunni en hann var ósammála um hvernig tunglfyllingin skyldi reiknuð og allt fór í klessu. Einingin hvarf, glundroði tók við. Ósamræmið algjört.
Það eina sem við vitum fyrir víst er að páskadagur er á sunnudegi og þá borðum við súkkulaðiegg. Við búum til ratleik fyrir krakka í náttfötum, felum súkkulaðieggin í þurrkaranum eða undir rúmi en ruglum þau í ríminu og sendum þau með handskrifaðar vísbendingar út á stétt. Þau stinga berum tásum í hólkvíð stígvél og anda að sér ísköldu vorloftinu. Þau finna miða í frosnu blómabeði, ofan í kommóðuskúffu og bak við sjónvarp. Þau skríkja af kæti þegar þau finna góssið á felustaðnum, klifra upp í sófa, brjóta eggin í skál, lesa málshætti og úða í sig súkkulaði. Njóta. Sama hvernig veðrið er, sama hvernig tunglfyllingin er reiknuð. Sama hvort Jesús Kristur reis upp frá dauðum akkúrat í fyrradag, fyrir rúmri viku eða bara aldrei. Við vitum að páskadagur er haldinn á sunnudegi og að þá borðum við súkkulaðiegg.
Athugasemdir