Norska ríkisstjórnin hefur ákveðið að lækka fyrirhugaðar skattahækkanir á norsk laxeldisfyrirtæki úr 40 prósent og niður í 35 prósent. Ríkisstjórn Jonas Gahr Støre, formanns Verkamannaflokksins, greindi frá þessu í fréttatilkynningu í morgun. Útspil ríkisstjórnarinnar í Noregi er ein af stóru fréttunum í landinu í dag. Støre og fjármálaráðherrann Trygve Slagsvold Vedun úr Miðflokknum eru þeir sem hafa kynnt þessar hugmyndir norsku miðju vinstristjórnarinnar.
Verkamannaflokkur Støre er systurflokkur Samfylkingarinnar á meðan Miðflokkurinn er ígildi Framsóknarflokksins hér á landi í norskum stjórnmálum. Til stóð að Sósíalíski vinstriflokkurinn, sem er systurflokkur VG hér á landi, yrði með í ríkisstjórninni þegar hún var mynduð um haustið 2021 en flokkurinn dró sig úr ríkisstjórnarmynduninni.
„Það er réttlátt að samfélagið fái hluta af þeim verðmætum sem skapast þegar einhver fær afnot af náttúruauðlindum samfélagsins“
Tillögur þessarar ríkisstjórnar um aukna skattheimtu á laxeldisfyrirtækin hafa verið harðlega gagnrýndar af þeim og þrýstihópum þeirra, meðal annarrs Sjömat Norge sem líkja má við SFS hér á landi, frá því að tillögurnar voru fyrst kynntar í fyrrahaust.
Í kjölfar tilkynningar ríkisstjórnarinnar féllu hlutabréf stórra laxeldisfyrirtækja eins og Mowi, sem er stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi og hluthafi í Arctic Fish á Ísafirði, í verði.
Salmar gagnrýnið eftir rúmlega 30 milljarða arðgreiðslu
Norsku laxeldisfyrirtækin eru hins vegar ennþá ósátt við fyrirhugaða skattlagningu, meðal annars Salmar AS sem er stærsti eigandi Arnarlax á Bíldudal.
Í tilkynningu fra Salmar kemur fram að hugmyndirnar um skattlagninguna sé byggðar á veikum forsendum. „Tillögurnar eru byggðar á því að matvælaframleiðsla sé iðngrein, sem byggir á notkun á auðlindum, sem skili allt of hárri arðsemi miðað við áhættuna sem fylgir henni. Þetta er rangt. Allt skattalagafrumvarpið byggir þar með á veikum forsendum. Þess vegna á að leggja hugmyndir um auðlindaskatt á fiskeldi í Noregi varanlega til hliðar.“
Þessi andmæli Salmar AS við skattlagningunni í Noregi koma í kjölfar þess að félagið greiddi út 32 milljarða króna arð vegna rekstrarársins í fyrra. Síðastliðin þrjú ár hefur reksturinn verið afar góður og hafa arðgreiðslurnar verið jafnar síðastliðin ár, meira en 30 milljarðar króna ári. Þrátt fyrir þetta hefur fyrirtækið tönnlast á þvi að arðsemi laxeldisfyrirtækja í Noregi sé ekki óhófleg.
Forsætisráðherrann stendur fast á sínu
Þrátt fyrir mótmæli laxeldisfyrirtækjanna stendur forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, fastur á sínu og ætlar að skattleggja greinina með stórauknum hætti.
Á blaðamannafundinum í morgun sagði hann meðal annars að samfélagið veitti laxeldisfyrirtækjunum aðgang að fjörðum landsins og að þar af leiðandi væri réttlátt að samfélagið bæri einnig meira úr býtum. „Að mörgu leyti má segja að samfélagið veiti einkaaðgang að fjörðum þess til fólks sem er gott í því að nýta auðlindirnar í þessum fjörðum. [...] Það er réttlátt að samfélagið fái hluta af þeim verðmætum sem skapast þegar einhver fær afnot af náttúruauðlindum samfélagsins.“
Fjármálaráðherrann, Trygve Vedun, segir sömuleiðis að með skattahækkunum þá þurfi laxeldisfyrirtækin í Noregi, sem mörg hver eru með erlent eignarhald, að skilja eftir meiri peninga í Noregi. „Þetta þýðir að erlendu eigendurnir þurfa að leggja meiri peninga til Karlseyjar [eyja í Norður-Noregi] og geta þá tekið minni peninga til Kýpur. Og þetta er gott. Mistubishi [bílaframleiðandinn] er til dæmis stór eigandi í Cermaq [laxeldisfyrirtæki í Noregi] og þarf þá að leggja meiri peninga til Misund [sveitarfélag í Noregi] og svolítið minni peninga til Mitsubishi. Í mínum huga er þetta rétt og mikilvægt.“
Skattalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður nú lagt fram til umræðu og mögulegra breytinga á norska þinginu.
Ísland fetar aðra braut í skattlagningu
Ísland fetar aðra braut í gjaldtökunni af laxeldisfyrirtækjum hér á landi en gert er í Noregi.
Fyrir það fyrsta hafa ný laxeldisleyfi hér á landi verið gefin á grundvelli umsókna laxeldisfyrirtækjanna á meðan ný leyfi ganga kaupum og sölum í Noregi fyrir háar fjárhæðir. Tekið skal fram að munurinn á Íslandi og Noregi er sá að Norðmenn hafa stundað sjókvíaeldi í nokkra áratugi á meðan Íslendingar eru fyrst núna að byrja að ná árangri í sjókvíaeldi á laxi eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að koma þessum atvinnuvegi á laggirnar á fyrri áratugum. Þegar verið var að koma þessum iðnaði á laggirnar í Noregi á sínum tíma voru laxeldisleyfin líka gefin í Noregi á meðan fyrirtækin voru að koma undir sig fótunum.
Munurinn á Íslandi núna og Noregi þá er hins vegar meðal annars sá að norsku fyrirtækin voru frumkvöðlafyrirtæki þar sem Noregur var fyrsta landið í heiminum sem náði að koma sér upp arðbærum iðnaði í sjókvíaeldi á laxi. Íslensku laxeldisfyrirtækin eru hins vegar að stóru leyti í eigu þessara fjársterku laxeldisfyrirtækja í Noregi sem og í auknum mæli í eigu íslenskra útgerðarfélaga.
Í öðru lagi þá er skattlagning á rekstur íslensku laxeldisfyrirtækjanna miklu lægri en í Noregi en þetta byggir meðal annars á því að þessi iðnaður er yngri hér á landi en þar. Á Íslandi er til dæmis enginn sérstakur auðlindaskattur á greinina sem er sambærilegur við það sem Norðmenn eru að innleiða. Skattheimtan hér á landi er svo miklu hagstæðari fyrir laxeldisiðnaðinn að stjórnaformaður Arnarlax, Kjartan Ólafsson, hefur bent á að í þessu gætu falist tækifæri fyrir norsku fyrirtkin að flýja aukna skatta í Noregi og koma til Íslands í staðinn.
Athugasemdir (1)