Það er allt komið á svo mikinn hraða. iPhone 11, iPhone 12, iPhone 13, iPhone 14. Nú þarf að hlaða niður appi til að opna bílinn sinn, hugsa hraðar, taka fleiri ákvarðanir. Það þarf að gera meira á styttri tíma. Fara í tvö partí í staðinn fyrir eitt og fylgjast með því þriðja á Instagram-story. Það er ekki tími fyrir neitt lengur því allt er komið á svo mikinn hraða. Svo er hraðinn líka að aukast í vísindum. Gervigreind þróast á veldishraða. Fólk er að úreldast. Mannleg hugsun er ekki nógu hröð. Þessi hraði er að drepa okkur. Þessi hraði veldur kvíða. Samfélagið hefur aldrei verið á jafn miklum hraða. Þróunin hefur aldrei verið hraðari.
Eða hvað? Það er hægt að nefna fullt af dæmum um fyrirbæri sem þróast ekki jafnhratt og áður. Tónlist er ekki að þróast jafnhratt og áður. Þetta er ekkert gildismat um gæði tónlistar. Það kemur enn út stórkostleg tónlist. En hraði tónlistariðnaðarins er ekkert í líkingu við hvernig hann var fyrir fimmtíu árum.
Fyrir rúmlega hálfri öld síðan þurftu listamenn að gefa út plötur á hverju ári og stundum fleiri en eina plötu – helst allt með frumsömdu efni – bara til að vera með í leiknum.
Bítlarnir gáfu út tólf hljóðversplötur (í Ameríku voru þær 17) og 63 smáskífur, allt á innan við átta árum. Frank Zappa gaf út 62 hljóðversplötur en samt náði hann ekki nema 52 ára aldri. Allt frumsamin músík og textar, tilraunir í upptökutækni og framúrstefnulegar útsetningar.
Hraðinn í dag er allt annar. Hann er minni. Coldplay hefur gefið út níu hljóðversplötur á tímabili sem spannar 23 ár. Hér mun enginn gerast sekur um hin klassísku plebbaskilaboð að „músík var miklu betri í gamla daga“ en það verður ekki deilt um að hraði tónlistariðnaðarins var miklu meiri. Þróun í lagasmíðum, textagerð, upptökum, útgáfu og endurgjöf var miklu meiri en hann er í dag.
Byltingar 20. aldar
Það tók myndlist aðeins nokkra áratugi að fara í gegnum formbyltingu; í raun algjöra kúvendingu þar sem hefðbundnar tvívíðar myndir, oftast realískar, viku fyrir hvers konar öðru formi. Gjörningar, vídeó-list og hljóðskúlptúrar eru löngu orðin meira en hálfrar aldar gömul fyrirbæri og hefur hraðinn sem einkenndi tíma formbyltingarinnar ekki komið aftur.
„Gjörningar, vídeó-list og hljóðskúlptúrar eru löngu orðin meira en hálfrar aldar gömul fyrirbæri og hefur hraðinn sem einkenndi tíma formbyltingarinnar ekki komið aftur."
Svipuð sjónarmið eiga við um bókmenntir. Á aðeins nokkrum áratugum undirgengust þær formbyltingu. Á tímabili um miðja síðustu öld var árþúsunda prinsippum um framvindu og uppbyggingu bókmennta kollvarpað og fóru þessar breytingar fram á gríðarmiklum hraða. Það er meira en hálf öld síðan það fór að hægjast verulega á þeirri þróun.
Á síðustu öld var meiri hraði og meiri þróun í margvíslegum listgreinum: kvikmyndir fengu lit og hljóð, hljóðfærum var stungið í samband við rafmagn, arkitektúr var gjörbylt og hús voru teiknuð hratt. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði 73 kirkjur, 36 prestssetur, um 20 sjúkrahús, meira en 170 skólahús og um 500 aðrar byggingar á sinni starfsævi – og þá eru bara taldar byggingar sem voru reistar. Engin höfundaverk eru keyrð áfram á jafn miklum hraða í dag.
„En nú er allt komið á svo mikinn hraða“ segjum við með kvíðatón í röddinni. Við erum sjálfhverf. Við erum svo viss um að við lifum á hröðustu tímunum. Að nú sé varla hægt að ná nokkrum fókus vegna upplýsingaóreiðu.
En talandi um upplýsingaóreiðu. Jack Kerouac skrifaði bókina „Á vegum úti“ í einni leiftursetu með blaðsíðurnar límdar saman í einn langan strimil svo hann þyrfti ekki að taka pásu til að mata ritvélina. Það var 1957. Í því verki er svo mikið af kaótískum hraða að fólk er enn að klóra sér í hausnum yfir því.
En annars er ekki mikið vit í því að búa til ríg milli kynslóða um hver keyrði upp mesta hraðann. Varla viljum við heyra lofsöng um amfetamíndrifin leifturstríð þýska hersins, sem fóru fram fyrir um áttatíu árum, eða þegar Mongólar náðu að sölsa undir sig um 25 milljón ferkílómetra lands á um 25 árum, en sá ágæti hraði fór að mestu fram á 13. öld. Meira að segja voðaverk voru framin af meiri hraða á árum áður.
Margt sem á eftir að rannsaka
Þið afsakið þessar hraðsoðnu og tilviljanakenndu hendingar héðan og þaðan. Hér er bara verið að setja saman smá stíl til að beina athyglinni að því að hugmyndin um að hlutir gerist sífellt hraðar, á bara alls ekki við um allt. Raunar er um algjöra skynvillu að ræða. Það eru bara ákveðnir hlutir að breytast hratt og það eru aðallega þættir sem tengjast upplýsingatækni.
Undanfarin þrjátíu ár eða svo höfum við séð gríðarlega þróun ár frá ári í bæði þróun vél- og hugbúnaðar sem vissulega hafa breytt þjóðfélagsgerð okkar. Við fussum og sveium þegar við komumst að því að við þurfum að hlaða niður appi til að borga í stöðumæli, því við þurftum þess ekki í fyrra, eða að nú sé stundataflan fyrir kóræfingar aðeins fáanleg í rafrænu viðmóti.
En ef við horfum á hlutina í stærra samhengi þá er svo ótal margt sem er í raun að þróast undurhægt. Hvers vegna eru rannsóknir á veirum, sem voru þegar í fullum gangi á miðri 20. öld, ekki komnar lengra en raun ber vitni þrátt fyrir að við höfum síðan þá gengið í gegnum alnæmisfaraldur og nú síðast heimsfaraldur vegna Covid? Hvar er hraðinn í þeim heimi? Hvers vegna er þróun á vegan-matvælum ekki komin lengra? Hvers vegna vinnum við enn 40 stunda vinnuviku, hvers vegna er ekki búið að leysa það böl að fátækt færist á milli kynslóða, hvers vegna vitum við svona ósköp lítið um fíkn? Hvers vegna hefur enginn farið til tunglsins síðan 1972? Það var yfirgengilegur hraði í geimrannsóknum fyrir fimmtíu árum.
„Hvers vegna vinnum við enn 40 stunda vinnuviku, hvers vegna er ekki búið að leysa það böl að fátækt færist á milli kynslóða, hvers vegna vitum við svona ósköp lítið um fíkn?"
Í dag er fókusinn annars staðar. Punkturinn er sá að þessi hraði sem við erum svo upptekin af, er ekki til staðar nema á mjög afmörkuðum hlutum vísindarannsókna.
Ranghugmyndir og hik
Það er skynvilla í gangi og hún er sú sama og hefur alltaf hrjáð okkur. Við erum í raun flest að hugsa um það sama og fylgjast með því sama og búum því til þá ranghugmynd að allt sé að gerast hraðar. Ef allir eru að hugsa sömu hugsunina þá er ekki skrítið þó að við komumst upp á lag með að klára þá hugsun nokkuð hratt. Við dælum út ritgerðum og skoðunum en erum samt ekkert endilega að ferðast í átt að neinni niðurstöðu – og ef við erum ekkert að ferðast þá er ekki um neinn hraða að ræða.
Raunin er kannski sú að hraði er afstæður, bara eins og tíminn sjálfur, og þessi ímyndun að allt sé að gerast hraðar er bara sjálfsblekking til að horfast ekki í augu við geysimargar spurningar. Það er til dæmis varla hægt að segja að tískuheimurinn sé að þróast hraðar vegna þess að H&M stilli upp nýjum fötum í búðargluggum þar sem helsta markmiðið virðist vera að endurgera föt frá ýmsum tímabilum með minni efniskostnaði, lélegri saumum og endingarskemmri litarefnum.
Eykur það kvíða að gefa því stundum gaum hversu margt er þrátt fyrir allt staðnað? Hve líf okkar gæti verið fjölbreyttara, dýpra og já – hraðara og meira spennandi – ef við losnuðum við þá ranghugmynd að það sé aldrei tími fyrir neitt því samfélagið sé allt á svo miklum hraða? Það er vissulega hraði í þróun á upplýsingatækni og gervigreind, en tilveran er svo miklu víðfeðmari en það. Það eru undirdjúp sem á eftir að kanna, það er litbrigði sem á eftir að gefa nöfn og tilfinningar sem ekki er búið að skilgreina.
En stöðnun er orð sem við skiljum ekki lengur því það er búið að heilaþvo okkur um að stöðnun sé ekki til. Hraði er hvorki góður né slæmur, hann er bara eitt af innihaldsefnunum. En hann hefur alltaf verið til, og við þurfum alveg svolítið af honum núna. Það er ekki hraðinn sem veldur kvíða, heldur hikið, óttinn og skynvillan. Tökum inn tilveruna með öllum sínum litbrigðum, fáum vindinn í andlitið, allt á okkar hraða.
Athugasemdir (1)