Ég missti alveg af síðustu kreppu. Ég átti hvorki íbúð, bíl né börn. Bjó bara í rotnandi kjallaraíbúð í Norðurmýrinni með tveimur öðrum fulltíða misloðnum einhleypum karlmönnum; búsetumynstur sem í dag mundi líklega kalla á einhvers konar incel-eftirlit hjá embætti ríkislögreglustjóra. Helsta áhyggjuefni mitt var að samlokugrillið og uppþvottavélin gátu ekki verið í sambandi á sama tíma án þess að slá út öryggi og hvort lokaserían af Lost mundi ná að binda fullnægjandi hnút á alla þessa ólíku söguþræði.
Ég átti sum af mínum bestu árum í fúna sagganum í þessari niðugröfnu leiguíbúð. Ég sakna oft blauta handklæðisins í horninu á sturtunni sem enginn gat tímasett hvenær birtist þar né hafði taugar í að díla við. Ég sakna plastpokans sem var teipaður utan um opna rafmagnsvírinn fyrir utan innganginn. Ég sakna óræðu lyktarinnar og að eiga ekki rúmbotn eða neitt í ísskápnum nema Slots Guld og einn spíraðan lauk sem hægt var að grípa til í sárri neyð. Það er einhver tær einfaldleiki fólginn í því að eiga fátt og þurfa lítið.
En allar loðnar lirfur að nálgast fertugsaldurinn þurfa að lokum að grafa sig út úr púpunni og breytast í hvít millistéttarfiðrildi eins og samfélagssáttmálinn kveður á um.
Í dag er ég fram úr hófi heppinn. Á yndislega fjölskyldu, bý í eigin húsnæði og hef fátt til að kvarta yfir. En nú stefnir aftur í kreppu og ég finn eins og aðrir hvernig Miðjarðarhafsbláu veggirnir sem voru málaðir eftir Pinterest moodboard-innblæstri þrengja að. Verðbólgan hefur ekki mælst hærri síðan lokaþáttur Lost olli heimsbyggðinni nær óbætanlegu tjóni. Ef hugtakið verðbólga er eitthvað að vefjast fyrir ykkur get ég glatt ykkur með því að ég útskrifaðist með gráðu í hagfræði úr hinum virta háskóla „ein Wikipediu-grein sem ég skimaði yfir og skildi ekki alveg“ og get því útskýrt þetta fyrir ykkur. Verðbólga er þegar allt dótið sem þú þarft, og líka dótið sem þú þarft ekki en langar mjög mikið í, verður dýrara. Þetta er ákveðið vandamál þegar launin sem þú færð halda ekki í við verðbólguna.
Einhverjir myndu segja, „hvernig væri þá að kaupa bara aðeins færri hluti?“ og því mundi ég einfaldlega svara með „vá, takk, pabbi“, en líka með því að benda á að ef við strípum í burtu alla hina neysluna sem neyslusamfélagið er reist á þá stendur samt eftir að fólk þarf að búa einhvers staðar og borða mat. Ég ætla ekki að láta eins og ég sé Óliver Twist hérna, en staðreyndin er samt sú að heppnasta mengið sem náði einhvern veginn að komast í eigið húsnæði í þessari heimatilbúnu fasteignabúblu síðasta áratugar horfir núna ofan í dýpstu fátæktargildru okkar tíma þegar lánin þurrka út allan mögulegan sparnað og stefnir í að stór hluti þessa hóps geti einfaldlega ekki borgað af þessum lánum. Óheppnara mengið býr hins vegar við þann veruleika að kaup á íbúð er bara einhver fjarstæðukennd fantasía (eins og lokaþáttur Lost) þar sem verðbólgan étur upp launin og útborgun í rotna kjallaraíbúð í Norðurmýrinni kostar tvöföld árslaun á meðan fólk þarf að greiða leigufélagi 350.000 krónur fyrir afnot af íbúð sem það eignast aldrei neitt í.
Yfirvöld segja að þetta sé bara nýr samfélagssáttmáli; við eigum bara öll að sætta okkur við að verða fátækari núna. Þegar seðlabankastjóri hækkar vexti í enn eitt skiptið notar hann hugtök eins og að „hemja eftirspurn“ og „kæla hagkerfið“. Við eigum ekki að kaupa hluti, við eigum ekki að eignast íbúðir. Það á að vera ómögulegt fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á markað, það á að vera erfitt að kaupa hluti, gera hluti. Þetta á að vera hin nýja þjóðarsátt, við erum öll í þessu saman. En það er eitthvert rof þarna, eitthvað rotið eins og veggir allra leikskóla höfuðborgarsvæðisins. Erum við virkilega öll saman í þessu?
Halldór Benjamín var holdgervingur þessarar snákaolíusölu þegar hann stóð viku eftir viku í sjónvarpsfréttum og tíndi upp ló úr vösunum á Tom Ford-jakkafötunum sínum og spurði þjóðina, „mundi maður með hár eins og Pete Doherty ca 2005 virkilega ljúga að ykkur að hann eigi bara enga fleiri peninga?“ Því að það er narratífan: hækkun lægstu launa samfélagsins mun kollvarpa hagkerfinu og fátæklingarnir munu þurfa að éta hver annan.
„Þetta á að vera hin nýja þjóðarsátt, við erum öll í þessu saman. En það er eitthvert rof þarna, eitthvað rotið eins og veggir allra leikskóla höfuðborgarsvæðisins. Erum við virkilega öll saman í þessu?“
Rofið í þessum sáttmála myndast þegar hvert stórfyrirtækið á fætur öðru tilkynnir margmilljarða króna hagnað. Fyrirtækin sem segjast einfaldlega vera að kikna undan álagi launahækkana tekst samt einhvern veginn að auka hagnað sinn með hverju árinu sem líður. Bananar ehf., sem hafa stoltir selt Íslendingum rotnandi jarðarber og spergilkál síðustu áratugi, greiða milljarð í arð inn í móðurfélag sitt, Haga, sem greiðir svo tvo milljarða í arð til fjárfesta sinna. Alma íbúðafélag, sem helst vann það sér til frægðar að hækka leigu öryrkja, flóttafólks og annarra leigjenda um tugi prósenta síðasta árið, hagnaðist um rúma 5 milljarða. Eitt grímulausasta dæmið er ræstingafyrirtækið Dagar, sem ákvað að velta hverri einustu krónu af kjarasamningshækkunum beint út í verðskrána. Afturvirkt. Þetta fyrirtæki, sem er í eigu fjölskyldu fjármálaráðherra, hefur greitt út 2 milljarða í arð frá árinu 2016.
Það er áhugavert hvernig ábyrgðinni er alltaf velt á þá sem berjast við að halda nefinu fyrir ofan yfirborðið á meðan flæðir að. Það er aldrei talað um að fyrirtæki þurfi að taka það á sig að skila aðeins minni ofurhagnaði. Það er aldrei talað um að heild- og smásalar þurfi að taka á sig aðeins lægri framlegð. Það er aldrei vandamálið að ofurlaun og kaupaukapakkar stjórnenda þessara fyrirtækja haldi bara áfram að hækka og hækka. Það er enginn að biðja þá viðbjóðslega ríku um að sætta sig við að vera bara ógeðslega ríkir um stundarsakir.
Það er samt erfitt að reyna að berja markaðinn á nefið með dagblaði því að honum til varnaðar hefur hann enga framheilastarfsemi; enga hvatastjórnun eða ábyrgðartilfinningu. Hann syndir bara eins og hákarl í átt að einu markmiði. Það er meira að segja erfitt að velta sökinni yfir á seðlabankastjóra sem hefur verið teipaður við bílstjórasætið og neyddur til að keyra þennan Porsche-jeppa í átt að bjargbrúninni með vaxtahækkanir einar að vopni.
Hvar er ríkisstjórnin?
Í þessum mestu efnahagsþrengingum eftir hrun eru ráðamenn nánast ósýnilegir. Vilja helst sem minnst tjá sig um málið. Í kjaradeilu síðustu mánaða sat félags- og vinnumarkaðsráðherra með gríngleraugu og gervinef og fylgdist með deilunni úr öruggri fjarlægð í gegnum tvö útklippt göt á dagblaði sem hann þóttist vera að lesa. Aðrir ráðherrar muldra hálfmelta frasa um stöðugleika og samtakamátt þjóðarinnar. Það er eins og þessi Frankenstein-samklastraða samsteypustjórn þori varla að hreyfa sig af ótta við að liðast í sundur. Það er enginn vilji til að setja þak á stjórnlausan leigumarkað þeirra fyrirtækja sem áttu stóran þátt í húsnæðisbólunni hér með stórkaupum sínum á íbúðum um land allt. Það er enginn vilji til að hemja ofurhagnað fyrirtækja eða láta þau bera einhverja ábyrgð á verðbólgunni. Það er enginn vilji til þess að láta útgerðina greiða sanngjarnan hlut af nýtingu sinni á stærstu auðlind þjóðarinnar og það er alls enginn vilji til þess að hækka skatta á þá sem helst mega við því að greiða þá.
Það virðist ekkert vera hægt að gera á meðan Jóakim Aðalönd er fjármálaráðherra og slær með stafnum sínum á fingur hvers þess sem vogar sér nærri peningageyminum. Eina svarið við öllum spurningum er annaðhvort niðurskurður eða markaðsvæðing á þjónustu hins opinbera. Hugmyndin um jöfnuð er algjörlega fjarri þessari ríkisstjórn. Hugmyndin um hlutfallslega ábyrgð er ekki til. Það er kannski orðið þreytt að spyrja sig til hvers hinir flokkarnir eru í þessu samstarfi; hvaða stefnumál og hugmyndafræði þeir hafa fram að færa. Vinstri græn virðast fyrst og fremst líta á sig sem skaðaminnkandi úrræði. Þau eru ekki þarna til að flagga hugmyndafræði félagshyggjunnar, heldur virðast þau hugsa með sér að þau séu þarna til að vernda þjóðina frá fullu áhlaupi frjálshyggjunnar. En er það að takast? Værum við öll bara að berjast í skylmingabúrum elítustéttarinnar fyrir bensínpeninga og rotnandi ávexti ef ekki væri fyrir mildandi hendi VG?
Sumir mundu kannski halda því fram að þetta sé til marks um þroskaðan stjórnmálaflokk, en ég held að þetta sé frekar uppgjöf þess miðaldra sem gefið hefur hugsjónina upp á bátinn. Flokkur sem hefur verið svo lengi í rótinu að hann trúir því ekki lengur að það sé nokkur leið til þess að stöðva svipuhöggin, heldur aðeins taka mesta stinginn úr þeim. En ef pólitík snýst ekki um tæra, fölskvalausa hugmyndafræði, til hvers er hún þá? Við getum þá allt eins eftirlátið endurskoðendunum og millistjórnendum að ákvarða gildismat þjóðarinnar.
Ég hef það ekki slæmt. Mörg okkar hafa það ekki slæmt. En við þurfum samt alltaf að spyrja okkur hvort okkur þyki gangur samfélagsins réttlátur. Eru kjör hinna lægst settu viðunandi? Er ábyrgðinni á efnahagsástandinu sanngjarnt dreift? Er auðæfum landsins réttlátt deilt? Eru yfirvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að hlúa að stoðum samfélagsins? Án þess er enginn sáttmáli og veggirnir halda áfram að rotna og sveppirnir halda áfram að sverta steypuna undir parketinu.
Athugasemdir (5)