Það var vorlegt í fáeina daga um daginn og ég leyfði mér að hugsa að bjartari tímar væru fram undan, að það væri ekki langt þangað til maður gæti farið að gera eitthvað annað en að hanga innandyra og lesa bækur. Heima hjá mér má reyndar merkja árstíðabreytingar á hvaða bækur eru dregnar úr hillunum. Til að mynda eigum við mikinn doðrant um pottablómarækt, sem er ekki mikið lesinn yfir veturinn því flest inniblóm eiga það sammerkt að vilja næði og litla sem enga vökvun yfir dimmustu mánuðina. Að öllum líkindum verður þessi bók höfð meira uppi við næstu vikur, það þarf að fara að umpotta og vökva meira. Og hver veit nema að maður láti reyna á eitthvað nýtt í sumar, prófi kannski að rækta eitthvað utandyra. Þá þarf maður að finna sér góða handbók um garðablóm og fjölærar plöntur. Svona getur maður látið hugann reika þegar það hlýnar.
Og ef maður hættir sér út fyrir lóðina – tala nú ekki um út fyrir bæjarmörkin – þarf að útvega viðeigandi literatúr, vegahandbækur, ferðaatlasa, yfirlit yfir gönguleiðir á hálendinu og þess háttar. Maður þyrfti að verða sér úti um árbækur Ferðafélagsins, þjóðsagnasöfn (til að hafa ofan af fyrir krökkunum í bílnum), jarðfræðilykla, fuglavísa og ýmis önnur kver sem eru nauðsynleg þegar ferðast er um landið, hvort sem það er á bíl eða fæti.
Ég hef líka íhugað aðra fararmáta, fara að stunda hjólreiðar eða utanvegahlaup. Um slíkt skortir ekki fræði, það hafa verið skrifaðar bækur um hlaupaleiðir, hjólaleiðir, þjálfun, mótiveringu, skipulag, álagsdreifingu, næringu, úthald, stíl, meiðsli, mjólkursýrur, áætlun meðalhraða og annað í þeim dúr. Margt af þessu er svo flókið að manni veitti ekki af að dusta rykið af menntaskólastærðfræðinni, hafa uppi á þeim skruddum.
„Sumarið er nefnilega tíminn þegar maður vill hlaða batteríin fyrir næsta vetur, hlaða lífsnauðsynlegum efnum inn á kerfið.“
Ef maður ætlar fyrst og fremst að rúnta um á bílnum ætti maður kannski að lesa einhverjar bílabækur til að vita hvernig allt virkar, að minnsta kosti að renna yfir leiðarvísinn í hanskahólfinu. Og skoða smurbókina.
Sumarið er nefnilega tíminn þegar maður vill hlaða batteríin fyrir næsta vetur, hlaða lífsnauðsynlegum efnum inn á kerfið – ekki bara sólskini og D-vítamíni og góðum minningum, heldur nýjum pælingum, stunda sjálfsvinnu – hafa í bunkanum rit sem eiga að auka lífshamingju lesenda, brjóta upp gömul mynstur, bæta samskipti, bæta núvitund, bæta svefn, bæta nánd í samböndum, bæta sjálfstraustið, bæta sjálfsmatið, kenna okkur að nota minna, kenna okkur að meta arkitektúr og góða hönnun, kenna að meta gott vín, kenna okkur að greiða okkur, kenna okkur að standa á okkar.
Við þetta bætast síðan jólabækurnar sem maður hefur enn ekki komist yfir. Og staflinn sem maður hafði með sér út af bókamarkaðnum í fyrra. Og það sem bættist við á bókamarkaðinum í ár. Og bókaklúbbsbækurnar sem koma í póstkassann hjá manni ein af annarri án þess að maður hafi náð að klára þá síðustu. Og blöð og tímarit sem maður er með í áskrift, maður vill fylgjast með því sem er að gerast í heiminum. Og bækur sem setja málefni líðandi stundar í samhengi, reynslusögur flóttamanna, ævisögur hugsuða, listamanna og stjórnmálamanna, söguskýringar, heimspeki og ég veit ekki hvað og hvað.
Ég var búinn að upphugsa dágóðan lista, þegar það fór snögglega aftur að kólna.
Athugasemdir