Guðný Elísabet Ingadóttir, mannauðsstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Heimildina að slökkviliðið hafi farið í þessa skoðun í áfangaheimili Betra lífs við Vatnagarða. Vegna þess að ekki hafi verið komin niðurstaða í málið hafi slökkviliðið ekki haft samband við eiganda vegna mögulegra aðgerða. „Þetta var allt í eðlilegu ferli en í millitíðinni kviknar í,” segir hún.
Horfðu á eigur sínar brenna
Eins og greint var frá fyrr í dag var slökkviliðið kallað út um klukkan tíu í morgun eftir að eldur kviknaði í einu herberginu. Alls voru um þrjátíu manns í húsinu þegar eldurinn kom upp. Fimm voru fluttir á slysadeild með minniháttar
Á meðan slökkviliðið vann að því að slökkva eldinn stóðu íbúar áfangaheimilisins stóðu fyrir utan og horfðu á eigur sínar verða að engu.
Arnar Hjálmtýsson, forstöðumaður áfangaheimilisins, fullyrðir að eldvarnir hafi verið í góðu lagi.
Enginn umsækjandi um alþjóðlega vernd í húsinu
Arnar sagði í samtali við Heimildina í janúar að hann væri þarna að leigja virkum fíklum og umsækjendum um alþjóðlega vernd.
Heimildin hefur hins vegar fengið staðfest að þegar eldurinn kom upp var þar enginn umsækjandi um alþjóðlega vernd búsettur. Hins vegar hafi þarna verið fólk sem áður hafði stöðu flóttafólks en heyrði ekki lengur undir úrræði stjórnvalda og var því að leigja á markaði eins og hver annar.
Í janúar sagði Arnar að hann væri að leigja sex flóttamönnum tveggja manna herbergi þar sem hver greiði 140 þúsund krónur, samtals 280 þúsund krónur fyrir herbergið.
Áður hefur Stundin, nú Heimildin, fjallað um starfsemi Betra líf. Á árinu 2022 þurfti að loka áfangaheimili þeirra í Fannborg í Kópavogi vegna þess að slökkviliðið taldi „öryggi þeirra sem dvelja í húsinu óviðunandi“ vegna ófullnægjandi brunavarna. Húsráðandi fékk ítrekuð tækifæri til að laga húsnæðið, þannig að það uppfyllti lágmarkskröfur um brunavarnir, en gerði það ekki.
Hver sem er getur opnað áfangaheimili og ekki þarf starfsleyfi til að reka það. Ekkert eftirlit er heldur með slíkri atvinnustarfsemi.
Athugasemdir