Í vegferð minni að verða ábyrgari og meðvitaðri neytandi ákvað ég að reyna að bera saman bifreiðatryggingar. Verna er nýtt fyrirtæki á tryggingamarkaðnum. Þið vitið, eitt af þessum hressu fyrirtækjum skreytt glaðlegum teiknimyndum, brosköllum og hnyttnum textabrotum, sem öll eru hönnuð til að láta okkur gleyma eitt andartak að þetta er bara enn eitt sálarsjúgandi tryggingafélagið. Þeirra loforð er allt að 40% ódýrari tryggingar, allt í krafti tækninnar. Frábært! Ég sæki appið og mér mætir hress kynningartexti sem útskýrir hvernig fyrirtækið virkar. Þá renna á mig tvær grímur. Verna virkar nefnilega þannig að til þess að fá hámarks afslátt þarf maður einfaldlega að sýna fram á hversu ábyrgur og góður bílstjóri maður er. Ehh, ok. Hvernig? Jú, það er einfalt, þau vakta einfaldlega hverja einustu bílferð sem maður keyrir og skoða hverja einustu hreyfingu, hvort maður haldi jöfnum hraða, hvernig maður bremsar, hvort maður sé stöðugur í beygjum, klukkan hvað maður keyrir, hversu marga tíma sólarhringsins maður er við stýrið. Þetta er bara eins og að vera með grábaugaðan og lífsleiðan ökuprófdómara við hliðina á sér allan daginn, allan ársins hring, að merkja hjá sér rauða krossa í hvert einasta skipti sem maður fer aðeins of bratt yfir hraðahindrun. Nema þetta er saklaust því þetta er bara lítið app í vasanum.
Mörgum ykkar finnst líklega ekkert að þessu. Bara enn eitt appið sem hjálpar manni að straumlínulaga lífið. Það að framselja andlitslausum fyrirtækjum aðgang að upplýsingum og persónufrelsi er nefnilega eitthvað sem er bara eðlilegur hluti tilverunnar. Þessi sjálfvirka þjónusta á að auðvelda okkur lífið, minnka núning, fjarlægja hindranir. Auglýsingar segja okkur að við eigum að eyða minni tíma í að hugsa svo við höfum meiri tíma til að njóta. Netverslun með tryggingar, sjónvarpsþjónustu, föt, matvöru. Kortaupplýsingarnar þínar vistaðar svo þú þarft ekki að taka veskið upp úr vasanum. Má bjóða þér að versla það sama og síðast? Gleymdirðu nokkuð mjólk? Svörtum Doritos á afslætti? Ískaldri kók? Sendillinn skilur pokann bara eftir fyrir utan ef þú ert ekki heima.
Meira að segja úti í kjötheimum er allt gert til að straumlínulaga upplifun þína. Taka alla hnökra úr neysluferðalaginu. Maður líður í gegnum matvöruverslunina eins og vofa með noise cancelling heyrnartólin á sér, skannar vörurnar og tínir beint ofan í pokann. Maður upplifir þetta sem fullkomlega straumlínulagað neytendaferðalag, þótt maður sé í raun bara að borga fyrir að fá að upplifa hvernig er að vinna í vörutalningu 2. janúar. Svo borgar maður með Apple Pay og labbar beint út í norðanlægðina. Þarft aldrei að horfa í augun á nokkrum manni; það er þvert á móti alls ekki mælt með því. Þú bókar borð á veitingastað á Dineout.is. Það er QR kóði á borðinu með matseðlinum, pantar og borgar með símanum. Maturinn birtist bara á borðinu. Þarft ekki að spyrja um fisk dagsins, spyrja hvaða bjór sé til á dælu, reyna vandræðalega að ná augnsambandi við þjóninn til að biðja um reikning. Allt mjög straumlínulagað. Enginn núningur.
Þjónustufólkið er enn þá til, þau eru bara ekki partur af lífi þínu lengur. Þau svífa bara um í hliðarsjóninni. Birtast með poka með matvöru á tröppurnar þínar eða nýjan bjór á borðið þitt. Í besta falli heyrirðu þau spyrja hvort þú viljir afrit eftir að þú slengdir úrinu þínu með öllum kortunum inn á í átt að posanum til að borga í Krambúðinni. Létt-rasíski frændi þinn þarf ekki einu sinni lengur að pirra sig á því hvort þjónustufólk tali nægilega boðlega íslensku því hann þarf bara alls ekkert að yrða á það lengur.
Auðvitað er þetta þægilegt. Tæknin hefur einfaldað og bestað nærri allt sem hægt er að hugsa sér. Þetta er allt gert í nafni betri og skilvirkari þjónustu. Hver nennir að fara í bankaútibú? Hringja ótal símtöl til að finna laust borð á veitingastað eða panta pitsu eða reyna af veikum mætti að fá leigubíl? Heimurinn heldur auðvitað bara áfram að þróast og það er eins gott að maður aðlagist svo maður endi ekki sem gamla fólkið sem maður sá í Arionbankaútibúinu sem var alls ekki útibú í Kringlunni sem reyndi af veikum mætti að finna gjaldkera, en hitti í staðinn glaðlegan mann í jakkafötum sem leiddi það vingjarnlega í átt að iPad á standi og sagði því að drullast til að fá sér rafræn skilríki.
Þetta útibú er að sjálfsögðu ekki til lengur, enda búið að fjarlægja allan slíkan núning úr þjónustunni.
Leiðtogar stafrænnar umbyltingar
Þetta auðvelda flæði er auðvitað draumur kapítalismans. Ég sat einu sinni markaðsfund í fyrirtæki þar sem markaðsfræðingur talaði digurbarkalega um hvernig best væri að fjarlægja sem flesta steina úr vegi neytandans. Til þess að halda fólki í þjónustunni væri skynsamlegast að það þyrfti að taka sem fæstar ákvarðanir; meðvituð ákvörðun getur þýtt efi, og það viljum við ekki. Og þannig er þetta. Líkamsræktarkortið tikkar af kreditkortinu hver mánaðamót þótt ég mæti ca mánaðarlega til þess að ganga í 30 mínútur í 5% halla. Síminn, Internetið og sjónvarpið er þægileg osmósa; bara einhver ein óskilgreind tala sem maður borgar. Netflix, Disney Plus, Viaplay, Spotify. Allt svo lágar upphæðir að það tekur því ekki að finna út úr því hvernig maður segir þessu upp.
Í öllum þessum þægindum tapast nefnilega einhver mennska. Ég er svona temmilega félagsfælinn eins og margir af minni kynslóð; finnst fínt að tala við spjallmenni hjá símfyrirtækinu mínu ef mig vantar eitthvað, svara helst ekki símanúmerum sem ég þekki ekki og finnst fátt betra en að slengja úrinu mínu nánast hugsunarlaust eins og einhver Neanderdalsmaður í átt að posanum þegar ég er í móki búinn að kaupa einhvern óþarfa til að sefa einhverja tilvistarlega örvæntingu innra með mér. En meira að segja ég viðurkenni að eina leiðin til að viðhalda samkennd er að vera á meðal fólks. Að þurfa að eiga í samskiptum, ræða um veðrið við ókunnuga; eitthvert stefnulaust smáspjall um handbolta eða verðtrygginguna. Meira að segja smá núningur er góður því án hans verður maður of straumlínulagaður, eins og steinvala sem veltist stefnulaust eftir árbotninum.
Það birtist atvinnuauglýsing um daginn fyrir eitthvert starf sem ég hef engan skilning á. Um starfið var meðal annars eftirfarandi lýsing: „Á verkefnastofu er unnið eftir hugmyndafræði verkefnastjórnunar, verkefnum er fylgt eftir þvert á verkþætti og ábyrgðarsvið fagskrifstofa“. Það er eins og algrímið sjálft hafi sett saman handahófskennd orð og búið til handahófskennt starf. Þetta er kannski draumur sjálfvirknikapítalismans; allt alvöru starfsfólk verður óþarft og í staðinn verðum við öll sérfræðingar í straumlínustjórnun. Leiðtogar stafrænnar umbyltingar á eigin tilveru.
Það er til gömul samlíking um aðferðina við að sjóða frosk. Ef maður hendir honum lifandi út í sjóðandi vatn stekkur hann upp úr pottinum, en ef þú setur hann ofan í þægilega volgt vatn og hækkar hitann svo hægt og bítandi, þá fattar hann ekki einu sinni að það er verið að sjóða hann lifandi.
Skilvirk afmennskun
Þegar við erum ekki í kringum fólk verður svo auðvelt að afmennska það. Það er ekki til, ekki í alvörunni. Það er auðvelt að missa samkennd með fólki þegar maður þarf aldrei að horfa í augun á því. Bakslag í mannréttindabaráttu, öfgafullar skoðanir, ranghugmyndir og upplýsingaóreiða þrífast best þegar samlíðanin hverfur. Algrímin sýna okkur ekki bara hvað við eigum að kaupa, horfa á, hlusta á og lesa, heldur styrkja þau alltaf öfgakenndustu hugmyndir okkar um veruleikann.
Milliliðalausu þægindin sjálf verða líka eins konar fíkn. Núningurinn ærir okkur, við samþykkjum hann ekki. Við höfnum hegðun sem ógnar þægindum okkar og berjumst gegn öllum þeim breytingum sem gætu ógnað því jafnvægi sem hefur orðið til í straumlínunni. Í þannig andrúmslofti verður hentugt fyrir valdhafa að afmennska umræðuna enn frekar. Þegar kemur að jafnréttismálum, stéttabaráttu, innflytjendamálum og öðrum samfélagslegum núningi er best að tala ekki um fólk, heldur mengi. Baráttan um mannsæmandi laun snýst um launaskrið og verðbólguhvata. Þjóðhagsleg bókhaldstala sem þarf að stemma af. Málefni fólks á flótta undan stríði, örbirgð og ofsóknum eru kerfislegur ómöguleiki; spurning um alþjóðlegar skuldbindingar, skilvirkni í úrvinnslutíma umsókna. Þetta snýst aldrei um réttlæti eða mannúð. Þetta snýst aldrei um hugmyndafræðilega ofbeldið í því að rýra lífsgæði fólks fyrir það eitt að tilheyra annarri stétt eða hafa ekki fengið þann munað fæðast með vegabréf sem virkar eins og töfraflautan í Super Mario 3 og getur flutt mann núningslaust heimsálfanna á milli án þess að vera handtekinn og sakaður um að vera afæta á kerfinu. Nei, þetta snýst alltaf um okkur sem höfum allt. Þægindafíklana. Við viljum ekki að launaskrið hótelstarfsmanna, ræstifólks og vörubílstjóra ógni stöðugleikanum. Við viljum ekki að stjórnlaust flóð fólks á flótta drekki velferðarkerfunum. Viljum ekki menningarlegan núning og árekstra. Þjáninguna sem fylgir aðlögun að breyttum heimi. Það er afmennskunin. Og við eigum að berjast gegn henni, bæði úti í samfélaginu og innan í okkur sjálfum. Við þurfum að hafa meiri tólerans fyrir þeim sem standa í þessari baráttu fyrir samfélagið allt.
Við þurfum að spyrja okkur í öllum þessum þægindum, þessum núningslausa veruleika, hvort vatnið sé raunverulega mátulegt, eða hvort það sé kannski alltaf að hitna.
Athugasemdir (1)