Í umræðu um kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar hefur ýmsu verið kastað fram þar sem ekki er tekið tillit til heildarsamhengis kjarasamninga á Íslandi. Það er óheppilegt þar sem kjarasamningar, annars vegar milli einstakra félaga og hins vegar yfir tíma, mynda eina heild. Dæmi um slíkan skort á samhengi má sjá í ágætri grein Kjartans Brodda Bragasonar á Heimildinni. Greinin er ekki einsdæmi, en gefur gott tilefni til að fara yfir samhengi kjarasamninga.
Uppskrift að höfrungahlaupi
Í greininni segir að „[k]omi til þess að Efling nái fram betri samningi fyrir sitt félagsfólk í þessari atrennu er ekki ólíklegt að sá ávinningur nái lengra inn í framtíðina en aðeins til loka samningstímans“. Hér gleymist að reynslan sýnir, svo ekki verður um villst, að þeir hópar sem koma á eftir munu sækja fast á að fá það sama og meira til. Hugtakið er gamalt og gott, en efnislega vont fyrir samfélagið: Höfrungahlaup.
Það er mat SA og fjölmargra greiningaraðila að í þeim kjarasamningum sem þegar hafa verið undirritaðir sé gengið mjög langt í kjarasamningsbundnum launahækkunum. Sérstaklega ef ætlunin er að vinna bug á verðbólgu. Verði samið við Eflingu um enn meiri hækkanir munu svo aðrir reyna að sækja enn meira næst. Það er jafn öruggt að það snjói á Íslandi og að þá verði gengið of langt. Niðurstaða þess er því miður alltof þekkt: Víxlhækkun launa og verðlags sem skilar engu nema tapi fyrir alla og er mjög sársaukafullt að vinda ofan af.
Hver vill semja um að vera síðastur?
Það þarf líka að íhuga hvers konar skilaboð SA senda með því að minni hópar, sem semja á eftir meira en 80.000 manns, uppskeri meira en þeir sem fyrst sömdu. Skilaboðin með því liggja í augum uppi: Það borgar sig ekki að semja fyrst við SA – þú færð meira með því að koma á eftir öðrum.
Væri þetta raunin er t.d. nær útilokað að búið væri að semja við 18 af 19 félögum verkafólks, verslunarmenn og iðnaðar- og tæknifólk. Í staðinn sætum við uppi með miklu flóknari stöðu og óvissu sem gagnast engum. Þetta skiptir sérstaklega máli núna þegar verðbólga mælist mikil og tugþúsundir manna hefðu ekki enn fengið kjarasamningsbundnar launahækkanir.
Engar vísbendingar um þörf á hærri töxtum á höfuðborgarsvæðinu
Það er skýr afstaða SA að draga landsmenn ekki í dilka eftir búsetu, aldri, þjóðerni eða öðrum þáttum. Í kjarasamningum er samið um kjör, skyldur og réttindi tiltekinna starfa óháð þessum þáttum. Forysta Eflingar hefur á hinn bóginn reynt að færa rök fyrir því að Eflingarfélagar skuli fá meiri launahækkanir en félagar annarra stéttarfélaga sem vinna nákvæmlega sömu störf, jafnvel í næsta bæjarfélagi.
Í greininni er fjallað um þetta en því miður stendur röksemd Eflingar á brauðfótum. Annars vegar gengur hún að mjög miklu leyti út frá því að nota fullkomlega gagnslaust viðmið um framfærslukostnað. Hins vegar út frá því að benda á mismunandi húsnæðiskostnað. Það efast enginn um að íbúða- og leiguverð sé hærra á höfuðborgarsvæðinu en víðast hvar á landsbyggðinni. Aftur á móti getur það eitt og sér ekkert sagt um framfærslu og lífskjör á heildina litið. Til þess þarf ítarlega greiningu, sem kannanir stéttarfélaga með litlu svarhlutfalli eru ekki.
Efling úti í horni
Þegar allt er tekið saman blasir við að Efling er í öngstræti sem bitnar verst á þeirra eigin félagsmönnum. SA mun ekki bregðast trausti annarra viðsemjanda og hugmyndir um sérstaka framfærsluuppbót standast auk þess ekki skoðun. Enda virðist sem að aðgerðir forystu Eflingar snúist um eitthvað allt annað en hag félagsmanna og kjarasamningagerð.
1) Í fréttum hefur ekki komið fram að Efling vilji hærri laun vegna búsetu, en krafa þeirra sé vegna annarrar samsetningar félaga en í öðrum félögum og fyrir liggjandi samn. SG skili félagsmönnum Eflingar ekki sömu kjarabótum og félagar í SG njóta. SA hefur ekki sýnt fram á að þetta sé rangt.
2) Greinarhöf. viðurkennir að húsnæðiskostn. á Höfuðborgarsv. sé hærri en annars staðar. Hann telur að það eitt og sér segi ekkert til um framfærslu og lífskjör. Hvernig getur verið að Eflingarfél. búi við hærri húsnæðiskostn. og leigu en það hafi ekki áhrif á afkomu þeirra? (Ef til vill er það lausn deilunnar að ríkið komi með húsnæðispakka sem gildir fyrir alla, líka þá sem þegar hafa samið.)
3) Greinarhöf. telur Eflingu komna í öngstræti sem bitni á félgsmönnum. Þetta er fullyrðing, sem er órökstudd að öðru leyti en því að SA ætlar að semja með þeim hætti að þetta raungerist. Svar réttmæti þessarar fullyrðingar fæst fyrst þegar endanlega verður lokið vð samninga eða lagsetningu eða einhverja endanlega niðurstöðu. Höf. getur nú á þessum tíma ekki haft svar við hver sú niðurstaða verður.
4) Greinarhöf. telur að aðgerðir forystu Eflingar snúist um annað en hag félagsmanna. Höf. er hér með órökstuddar ágizkanir. Hann nefnir ekki hvað annað aðgerðir Eflingar snúist um eða gætu snúist um. Svona framsetning er aðferð til þess að koma af stað rógi. Hvers vegna vill rágjafi SA koma af stað rógi?? Er það rágjöfin til SA að hagstætt fyrir SA sé að rægja viðsemjandan frekar en að ræða sjónarmið viðsemjandans. Eftir fréttum virðist Efling tilbúin að rökræða misklíðina milli aðila en SA ekki.
SA hefur, eftir fréttum margoft lagt fil að Eflingarfélagar greiði atkvæði um samningana, sem gerðir voru milli SA og SG. Væri ekki til athugunar að SA greiddi atkvæði um tillögur Eflingar, sem þau segjast hafa lagt fram?
Legg til að SA vandi betur málflutning. SA gæti ef til vill skipt um rágjafa.
Gefur tækifæri til andsvara.
Lægst launaða verkafólkið ber enga ábyrgð á verðbólgu í landinu, en þau taka sér ábyrgð á eigin kjörum.
Lægst launaða verkafólkið ber enga ábyrgð á öðrum stéttum, né bera þau ábyrgð á ábyrgðarlausu höfrungahlaupi þeirra. Halldór Benjamín er með 48 milljónir króna í árslaun, og Ríkis Sátta Lemjarinn er með tæpar 2 millur á mánuði og fær um fjórfalt hærri launahækkun í krónum en þessar láglaunakonur sem hann og félagar hanns lemja nú sem harðast á.
Íslenskan á viðeigandi orð um það innræti og siðferði sem þetta lýsrir, en ég vil ekki nota þau hér.