SA og fjöldamörg verkalýðsfélög hafa undirritað kjarasamninga til næstu mánaða eða frá 1.11.22 til 31.1.24. Þetta er skammtímasamningur sem hefur farið í atkvæðagreiðslu og verið samþykktur með miklum meirihluta atkvæða. Stríðið í Úkraínu, há verðbólga, verðbólguvæntingar og vaxtastig eru mikilvægir óvissuþættir sem gera lengri tíma áætlanagerð illmögulega. Það er slæmt fyrir alla hagaðila efnahagslífsins. Sem mest vissa um komandi þróun efnahagslífsins er best – þá er auðveldara að gera lengri tíma áætlanir eins og samninga um kaup og kjör.
Innlend heimili standa frammi fyrir að vaxtastig hefur hækkað mikið á skömmum tíma og mörg þeirra finna fyrir því í formi hærri greiðslubyrði af fasteignalánum eða hækkandi húsaleigu, samtímis hefur verðbólga aukist verulega og innkaupapokinn orðin mun dýrari. Svipaða sögu má segja víða erlendis.
Mikill styr stendur um kjarabaráttu Eflingar og hefur maður haft á tilfinningunni að röksemdir Eflingar um að fyrirliggjandi samningur væri ekki nægilega góður fyrir þeirra félagsmenn hefðu holan hljómgrunn meðal landsmanna en einnig meðal margra systurfélaga Eflingar eins og þekkt er. Röksemdirnar væru meðal annars að það væri dýrara að búa á höfuðborgarsvæðinu og að mikill fjöldi félagsmanna Eflingar væru með styttri starfsaldur og væru því almennt í lægri skala launatöflunnar (bæði launaflokkum sem starfsaldursþrepum) en félagar þeirra á landsbyggðinni.
Það þykir sjálfsagt að mæla breytingar verðlags þegar kaupmáttarþróun er lýst. En ef verðlag hækkar meira á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar, t.d. vegna aukins húsnæðiskostnaðar, þá minnkar kaupmáttur meira þar en annars staðar. Þá eru rök fyrir því að hækka laun á höfuðborgarsvæðinu meiri en úti á landi.
Staðaruppbót sem þessi þekkist víða erlendis. Þá er samið um kauptaxta sem gildir í öllu landinu en í þéttbýli er bætt við upphæð sem getur verið föst eða í hlutfalli við umsamin laun til þess að koma til móts við húsnæðiskostnað.
Katrín Ólafsdóttir – dósent í hagfræði – skrifaði stuttan pistil sem dregur í efa hvort framganga forystu Eflingar sé félagsmönnum fyrir bestu. Hún styðst við einfalda meðaltalsútreikninga og kemst að þeirri niðurstöðu að meiri líkur en minni séu á að félagsmenn Eflingar nái ekki að vinna upp þær aukakrónur sem afturvirkni nýs kjarasamnings hefðu haft í för með sér og félagsmönnum Eflingar standa ekki lengur til boða. Þannig bendir Katrín á að jafnvel þótt nýr samningur SA og Eflingar tæki gildi 1.2.23 yrðu meðalmánaðarlaun Eflingarfólks að hækka um 53 þúsund á mánuði eða um 11 þúsund meira en samningur SA segir til um svo Eflingarfólk yrði jafn vel sett yfir líftíma samningsins. Dragist samningar enn frekar þarf meðallaunahækkun á mánuði að verða enn hærri.
Þessi rök Katrínar standast því miður illa skoðun. Komi til þess að Efling nái fram betri samningi fyrir sitt félagsfólk í þessari atrennu er ekki ólíklegt að sá ávinningur nái lengra inn í framtíðina en aðeins til loka samningstímans. Þetta verði komið til að vera. Þessa staðreynd tekur Katrín ekki tillit til, nefnir þennan möguleika ekki einu sinni og verður það að teljast óheppilegt.
Síðasta fimmtudag tók ríkissáttasemjari málin í sínar hendur og lagði fram málamiðlunartillögu. Í sínum málflutningi vísaði hann meðal annars til skrifa Katrínar. Hafi ríkissáttasemjari gert sér grein fyrir þessu misræmi í málflutningi Katrínar er ólíklegt að hann hefði vísað í umrædd skrif.
Að lokum. Efling vitnar í könnun sem Gallup gerði á haustmánuðum um dagvinnu- og heildarlaun félagsmanna Eflingar annars vegar (höfuðborgarsvæðið) og hins vegar félagsmanna Iðju (Akureyri). Þar kemur fram að munurinn á heildarlaunum sé Iðjufólki í hag um 21 þúsund á mánuði þrátt fyrir að vinnutími sé um 2 stundum færri á viku. Þessi aukafrítími Iðjufélaga bætist ofan á þann tímasparnað sem búseta úti á landi hefur hvað varðar að koma sér úr og í vinnu á höfuðborgarsvæðinu og sækja og skutla ungunum í tómstundir. Starfskraftar Eflingarfélagsmanna eru nauðsynlegir á höfuðborgarsvæðinu og má þar nefna ýmis umönnunarstörf eins og við heimaþjónustu, á sjúkrastofnunum og elliheimilum þar sem framlag þeirra er sérstaklega mikilvægt en einnig við ræstingar og hvers konar hreinlætisstörf. Þótt búseta sé val hvers og eins þá setja stórar atvinnugreinar launafólki skorður. Að þessu sögðu er þá ekki jafnvel skynsamlegt að taka að einhverju leyti tillit til hærri húsnæðiskostnaðar á höfuðborgarsvæðinu þegar samið er um kaup og kjör?
Höfundur er hagfræðingur
Athugasemdir (5)