Sérfræðingar innan lífeyrissjóðakerfisins virðast almennt ekki vera með afgerandi skoðanir á frumvarpi sem breytir lögum um Seðlabanka Íslands á þann veg að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri taki við formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd bankans. „Þó þykir rétt að benda á að við umræður um frumvarpið kom til tals hvort frumvarpið kunni að fela í sér hættu á samþjöppun valds en líkt og alkunna er kann slíkt að vera varhugavert.“
Þetta kemur fram í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um frumvarpið, en lífeyrissjóðir landsins eru langstærstu fjárfestar landsins.
Formennska í umræddri nefnd hefur verið í höndum Unnar Gunnarsdóttur varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits frá því Seðlabankinn tók við eftirliti með fjármálastarfsemi í ársbyrjun 2020. Unnur greindi frá því í upphafi árs að hún hafi beðist lausnar frá embættinu. Hún mun láta af störfum í byrjun maí, en hún hefur stýrt Fjármálaeftirlitinu frá 2012.
Seðlabankastjóri fer þegar með formennsku í öðrum nefndum bankans, peningastefnunefnd og fjármálastöðugleikanefnd.
Varað við orðsporsáhættu
Lögum var breytt árið 2019 svo hægt yrði að ráðast í sameiningu Seðlabankans við Fjármálaeftirlitið. Í upphaflegu frumvarpi þess efnis var gert ráð fyrir að seðlabankastjóri færi einnig með formennsku í fjármálaeftirlitsnefndinni, en því var breytt í meðförum Alþingis árið 2019.
Í nefndaráliti á Alþingi á þeim tíma var breytingin rökstudd þannig að með henni væri verið að reyna að draga úr orðsporsáhættu, sem rýrt gæti trúverðugleika Seðlabankans og haft neikvæð áhrif á starfsemi hans á öðrum sviðum, auk þess sem þetta væri gert til að milda áhrif þeirrar miklu samþjöppunar valds sem fælist í sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði þrjá aðila í úttektarnefnd árið 2021 til að fara yfir reynsluna af starfi nefnda Seðlabankans á árunum 2020 og 2021. Sú nefnd skilaði skýrslu í nóvember 2021 þar sem hún mælti meðal annars með því að Ásgeir myndi einnig fara með formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd, líkt og hinum nefndunum. Í skýrslunni sagði meðal annars: „Mismunandi formennska býr til flækjustig og það gerir einnig hið margbrotna framsal valds og hin lagskipta stjórnsýsla sem búin er til í kringum eftirlitsverkefni innan sömu stofnunarinnar.“
Í skýrslu nefndarinnar kom einnig fram að áhyggjur sem settar voru fram á þingi af orðsporsáhættu fyrir Seðlabankann vegna setu seðlabankastjóra í fjármálaeftirlitsnefnd virðast hafa verið ýktar. Í viðtölum nefndarinnar við aðila innan og utan Seðlabankans kom fram að Seðlabankinn myndi „í raun aldrei sleppa við gagnrýni eða óánægju með fjármálaeftirlitsstarfsemina þótt ákvarðanir séu teknar án þátttöku bankastjórans“.
Spurningar um hvernig úttekt miðar
Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða er áréttað að samtökin hafi ekki tekið afgerandi afstöðu til málsins, heldur sé um vangaveltur að ræða í umsögn þess. Þar segir að vaknað hafi spurningar í tengslum við það að forsætisráðherra hafi skipað þrjá óháða sérfræðinga á sviði peninga- og fjármálahagfræði og fjármálaeftirlits til að gera á því úttekt hvernig Seðlabanka íslands hafi tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits, en samkvæmt ákvæðinu ber við þá úttekt jafnframt að líta til annarra þátta í starfsemi bankans, svo sem skipulags, verkaskiptingar og valdsviðs.
Samtökin segja að þeim sé kunnugt um að nokkrir lífeyrissjóðir hafi síðastliðið haust fengið boð um að senda fulltrúa sína á fund þeirra sérfræðinga sem forsætisráðherra fól umrædda úttekt. „Samhengisins vegna vaknar sú spurning hvernig úttektinni miðar og hvenær þess megi vænta að niðurstöður liggi fyrir. Megi vænta niðurstaðna úttektarinnar á næstunni kann þar eitthvað að koma fram sem nýst getur við mat á því hvernig best verði vandað til þeirra þátta sem varða skipulag, verkaskiptingu og valdsviðs í starfsemi bankans.“
Telja rétt að gera nokkrar athugasemdir
Seðlabankinn skilaði líka umsögn um frumvarpið fyrr í þessum mánuði, sem Ásgeir Jónsson skrifar sjálfur undir. Þar kemur fram að bankinn styðji frumvarpið en að hann telji rétt að gera nokkrar athugasemdir. Sú helsta er við tillögur um að Seðlabankinn eigi að gefa fjármálaeftirlitsnefnd tækifæri til að koma að ábendingum og athugasemdum áður en teknar eru ákvarðanir í ákveðnum málum. Það telur Ásgeir ekki vera í samræmi við þá afmörkun sem gerð var varðandi ákvarðanir sem nefndin eigi að taka. Vart sé hægt að ætlast til þess að fjármálaeftirlitsnefnd, með utanaðkomandi nefndarmenn innanborðs, geti tekið þátt í málsmeðferð í málum þar sem aðdragandi ákvörðunar hefur oft verið langur, magn gagna gríðarlegt og oft nauðsynlegt að taka ákvarðanir um einstaka þætti meðan á afgreiðslu stendur.
Þess í stað vill seðlabankastjóri að fjármálaeftirlitsnefnd verði einungis upplýst um ákvarðanir í málum sem snúa að ákvörðunum sem varða könnunar- og matsferli fjármálafyrirtækja sem teljast kerfislega mikilvæg, veitingu eða synjun starfsleyfis til eftirlitsskyldra aðila, afgreiðslu á tilkynningum um virka eignarhluti eftirlitsskyldra aðila og höfðun dómsmáls, áfrýjun eða kæru á niðurstöðu dómsmáls til æðri dómstóls í málefnum fjármálaeftirlits.
Athugasemdir