Streita er ástand sem við könnumst flest við enda búum við í samfélagi þar sem áreitið er mikið. Þegar við tölum um streitu þá erum við í raun að tala um sálræn og líkamleg viðbrögð sem kvikna í aðstæðum sem eru krefjandi og við metum sem svo að það verði tæpt hvort við getum staðist þær kröfur sem eru gerðar til okkar.
Þessar kröfur geta komið frá umhverfinu en oftar en ekki þá erum það við sjálf sem gerum óraunhæfar væntingar til okkar. Við ætlumst til mikils af okkur á hverjum degi, við eigum að vera í fullri vinnu, fara í ræktina, sinna fjölskyldu og vinum, fylgjast með fréttum, eiga hreint og fallegt heimili, og svo mæti lengi telja. Og þetta eigum við svo allt að gera aftur á morgun!
Streituviðbragðið hjálpar okkur að takast á við verkefnið, við verðum meðal annars meira vakandi, orkumeiri og einbeitum okkur að því sem skiptir máli til að klára verkefnið. Streita er því eðlilegt mannlegt viðbragð sem getur svo sannarlega verið hjálplegt þegar eitthvað óvænt gerist, til dæmis þegar einhver svínar fyrir þig í umferðinni og þú þarft að bregðast hratt við. Eða til að komast í gegnum endurtekið tímabundið álag, eins og það að skila verkefnum eða bara halda jólin. Slíkar skyndilegar og endurteknar aðstæður eiga það sameiginlegt að áreitið gengur yfirleitt yfir á frekar skömmum tíma og við getum safnað kröftum á milli og það ráðum við alveg við.
En stundum er álagsþátturinn eitthvað sem ekki hverfur svo auðveldlega. Til dæmis það að búa við fátækt, glíma við langvinn veikindi, eða einhvers konar óvissuástand sem fyrir flesta er mjög íþyngjandi. Dæmi um slíka álagsþætti í vinnu eru viðvarandi undirmönnun og endalausir biðlistar.
Við vitum að langvarandi streita tekur sannarlega sinn toll og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir líkamlega og andlega heilsu okkar.
Einkenni streitu
Líkamleg einkenni streitu eru margvísleg og listinn hér á eftir er langt frá því að vera tæmandi:
-
Höfuðverkur
-
Óútskýrðir verkir í líkama
-
Vöðvaspenna
-
Breytingar á matarlyst/líkamsþyngd
-
Meltingartruflanir
-
Minnkuð kynhvöt/geta
-
Svefnerfiðleikar
-
Hjartsláttartruflanir/hækkaður blóðþrýstingur
-
Veiklað ónæmiskerfi/fleiri veikindadagar
Sálræn einkenni eru einnig fjölbreytt og hér á eftir má sjá nokkur þeirra:
-
Einbeitingarerfiðleikar/minnistruflanir
-
Pirringur/reiði
-
Dómgreindarleysi
-
Kvíði
-
Depurð
-
Vanmáttarkennd
-
Grátgjarnari
-
Erfitt að slaka á
Við höfum væntanlega öll glímt við eitt eða fleiri af þessum einkennum á einhverjum tímapunkti. Við ættum hins vegar að staldra við ef við förum að geta merkt við nokkur þeirra á sama tíma. Þá er einnig líklegt að við tökum eftir breytingum varðandi það hvernig við nálgumst og hugsum um þau verkefni sem þarf að leysa. Við erum líklegri til að sjá glasið hálftómt og búast við hinu versta.
Streitan hefur líka áhrif á hegðun okkar, við verðum líklegri til að fresta verkefnum, eigum erfiðar með einbeitingu sem aftur dregur úr framleiðni og veldur enn meiri streitu. Við getum verið pirruð, reynum að finna meiri tíma með því að sleppa hlutum sem veittu okkur ánægju eins og það að sinna félagslegum tengslum eða fara í ræktina. Þetta eru eðlileg og mannleg viðbrögð þegar við glímum við langvarandi streitu en þau eru óheppileg og auka fremur á vandann heldur en að leysa hann. Sannkallaður vítahringur.
Verum vakandi
Það er fín lína á milli hjálplegra streituviðbragða og þeirra neikvæðu. Því er mikilvægt að vera vakandi og ef þú getur heimfært þessi einkenni og breytingar á hugsunarhætti og hegðun á sjálfan þig, þá er kominn tími til að grípa í taumana.
Fyrst ættum við að skoða hvað er að valda streitu. Getum við fækkað verkefnum? Skipulagt daginn okkar á annan hátt? Erum við hætt að gera það sem hleður á tankinn, svo sem að fara í ræktina og/eða hitta fólk? Í stuttu máli, skoða hvort það er eitthvað sem við getum breytt til að draga úr álagi.
Við getum einnig gert ýmislegt til þess að hjálpa okkur að takast á við álag og áreiti. Þar er mikilvægast að hlúa að grunnþáttunum þremur, svefni, mat og hreyfingu. Ef þessir þættir eru ekki í lagi þá verður allt annað erfitt en staðreyndin er einmitt sú að þetta eru þau atriði sem verða oft fyrst fyrir neikvæðum áhrifum þegar við erum streitt.
Að takast á við streitu
Það er því góð hugmynd að temja sér heilbrigðar svefnvenjur sem byggjast á rútínu, að reyna að sofa í átta tíma, vakna og sofna á svipuðum tíma hvort sem um er að ræða helgi eða virka daga. Við höfum flest heyrt aftur og aftur að það ætti ekki að nota koffín og nikótín fyrir svefn. Í raun ætti að forðast þessi efni í að minnsta kosti sex tíma fyrir háttatíma. Það sama á við um áfengi, þó það geti verið slakandi til skamms tíma að fá sér rauðvínsglas þá er það álag fyrir líkamann að vinna úr ýmsum efnum sem þar finnast sem truflar svefn og svefngæði.
Það getur verið freistandi að leggja sig þegar maður er þreyttur en það ætti að forðast í lengstu lög, þá er hætt við því að rútínan fari í uppnám, enda líklegt að þá verði erfiðara að sofna um kvöldið.
Við þurfum að gæta þess að líkaminn fái næringu jafnt yfir daginn með því að borða reglulega. Hreyfing er eitthvað sem ætti að forgangsraða enda hefur hreyfing margvísleg jákvæð áhrif, við komumst í nýtt umhverfi, örvum líkamsstarfsemi, viðhöldum líkamsstyrk, þoli og svo framvegis.
Félagsleg tengsl ættu að vera ofarlega á listanum en er einmitt eitt af því sem við skerum oft niður þegar okkur finnst við vera í tímaþröng. Manneskjan er félagsvera og við þrífumst í samskiptum. Þegar við loks hittumst væri gott að láta ástandið ekki taka yfir allar samræður. Það er nauðsynlegt að taka stundum hlé frá því sem bjátar á og leyfa sér að gleðjast og hlæja saman.
Að gefa sér tíma til að slaka á hljómar kannski einfalt en er meira en að segja það þegar okkur finnst óteljandi verkefni vera fyrir höndum en það er nauðsynlegt að gefa sér tíma til að gera eitthvað ánægjulegt, eitthvað sem hjálpar þér að slaka á. Ef við finnum ekki tíma til þess að slaka á og hlúa að okkur, hvað verður þá um öll verkefnin ef rafhlaðan klárast?
Athugasemdir