Á íslenskum vinnumarkaði hafa í gegnum árin myndast ákveðnar hefðir og venjur við gerð kjarasamninga. Þannig hefur hópur innan ASÍ gjarnan tekið af skarið og gert fyrstu samninga og aðrir samningar á almennum markaði tekið mið af þeim. Samningar á opinberum markaði hafa síðan fylgt á eftir.
Það er ekkert óeðlilegt að samningafólk í einstökum félögum vilji ekki fylgja þessari hefð og ögri þessu skipulagi líkt og Efling gerir nú, enda hefur hvert stéttarfélag sjálfstæðan rétt til að gera kjarasamninga. En það er rétt að staldra við og velta fyrir sér stöðu þeirra 20 þúsund félaga Eflingar sem starfa á almennum markaði og samninganefnd Eflingar er að semja fyrir við Samtök atvinnulífsins (SA).
SA hefur boðið Eflingu sambærilegan kjarasamning og það gerði við 18 aðildarfélög Starfsgreinasambandsins (SGS), þ.e. við öll aðildarfélög önnur en Eflingu. Sá kjarasamningur felur í sér að taxtar hækka að lágmarki um 35 þúsund krónur á mánuði frá 1. nóvember 2022 og gildir samningurinn til loka janúar 2024, eða í 15 mánuði. Þetta felur í sér að þeir sem fá greitt samkvæmt þessum kjarasamningi fá að minnsta kosti 525 þúsund krónur greiddar á samningstímabilinu til viðbótar fyrri launum. Samningurinn felur jafnframt í sér lagfæringu á launatöflu sem þýðir að hækkunin getur orðið allt að 52 þúsund krónur á mánuði (780 þúsund á samningstímabilinu). Að meðaltali má ætla að hækkunin nemi 42 þúsund krónum á mánuði (630 þúsund á samningstímabilinu).
Þegar þetta er skrifað hefur Efling hafnað tilboði SA og boðað atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir. Við samningsslit voru viðbrögð SA að lýsa því yfir að afturvirkar launahækkanir væru ekki lengur í boði. Telja verður ólíklegt að samningar náist í þessum mánuði og því er útlit fyrir að félagsfólk Eflingar hafi nú þegar orðið af þremur mánuðum á hærri taxta sem annað félagsfólk SGS hefur fengið. Ef miðað er við meðaltalið hefur hver Eflingarfélagi því nú þegar orðið af 126 þúsund krónum.
Gerum ráð fyrir að gerður verði nýr samningur á milli Eflingar og SA í næsta mánuði og taki gildi 1. febrúar og gildi til loka janúar 2024, eða 12 mánuði. Ef við miðum við meðaltalshækkunina 42 þúsund krónur á mánuði, þarf launahækkun Eflingarfélaga að nema að minnsta kosti 53 þúsund krónum á mánuði. Þetta er 11 þúsund krónum hærri krónutala en SGS samdi um. Jafnvel þótt SA fallist á kröfu Eflingar um 15 þúsund króna viðbótargreiðslu, sem telja verður ólíklegt, þá myndi sú greiðsla ekki gera mikið meira en að bæta upp tekjutap félagsfólks Eflingar af frestun gildistöku samninga þar sem SA hefur tekið afturvirkni samninga út af borðinu. Ávinningurinn verður enn minni ef undirritun samninga dregst enn lengur en hér er gert ráð fyrir.
Samninganefnd Eflingar er í fullum rétti þegar hún slítur viðræðum og boðar verkfallsátök. Að auki er auðvelt að færa rök fyrir því að kominn sé tími til að endurskoða hefðir og venjur við gerð kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði. En af þeim einföldu útreikningum sem hér eru sýndir er erfitt að sjá að hagsmunum félagsfólks Eflingar sé best mætt með átökum á vinnumarkaði fremur en hefði verið að taka síðasta tilboði SA.
Höfundur er dósent í hagfræði við Háskólans í Reykjavík.
Hver sleit viðræðum?? SA hafnaði tilboði Eflingar. Það er orsök viðræðuslita ekki síður en höfnun Eflingar á tilboði SA.
SA hefur lagt til að atkvæði verði greidd hjá Eflingu um samninga, sem SA hefur gert við önnur félög. Nú er boðað verkfall hjá ferðabransanum. Er þá ekki upplagt að fyrirtækin í ferðabransanum greiði atkvæði um tilbooð Eflingar. Ekkert hefur komið fram um það. Eða getur ferðabransinn ekki gengið gegn fyrirskipunum SA ???