Í tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar er lagt til að ýtt verði úr vör verkefni sem nefnt er „Stolt siglir fleyið mitt“. Það inniberi að fundið verði áhugasamt útgerðarfélag til samstarfs um það verkefni að konur eða kvár verði að minnsta kosti þriðjungur skipverja á togara viðkomandi útgerðarfélags, í fyrsta skipti í sögu íslensks sjávarútvegs.
Umrædd tillaga er hluti kafla í tillögum starfshópanna þar sem fjallað er um starfsumhverfi í sjávarútvegi. Meðal þeirra þátta sem fjallað er um þar er jafnrétti. Vísað er í skýrsluna Staða kvenna í sjávarútvegi árið 2021, þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um hlutfall kvenna í tilteknum störfum hjá sjávarútvegsfyrirtækjum.
Í rúmum tíu prósentum sjávarútvegsfyrirtækja starfar engin kona. Mjög hallar á konur þegar kemur að störfum til sjós og sömuleiðis þegar um er að ræða stjórnendastörf í landi. Þó hefur konum í störfum millistjórnenda fjölgað undanfarin ár og voru samkvæmt rannsókninni konur starfandi sem slíkir í 47 prósent fyrirtækjanna.
„Þetta á eftir að koma í bakið á ykkur“
Hjá fjórðungi sjávarútvegsfyrirtækja voru konur í stöðu framkvæmdastjóra og í rúmum 16 prósentum tilvika voru þær æðstu stjórnendur fyrirtækjanna.
Ekki ein einasta kona í stjórn SFS
Þá er tilgreint að verulega athygli hafi vakið á síðasta ársfundi fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), 12. maí á síðasta ári, var engin kona kjörin í stjórn. Allir 19 stjórnarmenn voru karlar.
„Það sló mig svolítið þegar ég kom hérna í dag og frétti að nú væri komin ný stjórn SFS. Það er 19 manna stjórn og þar eru núll konur í stjórninni. Iðnaður sem ætlar að halla sér fram og breyta heiminum, búa til aðgreinanleika, getur ekki hagað sér svoleiðis. Þetta er algjörlega forkastanlegt og það liggur mér á hjarta, af því að nú vinn ég við að ráðgefa fyrirtækjum út um allan heim, þetta er ekki hægt. Þetta á eftir að koma í bakið á ykkur,“ sagði
Klemens sagðist vona að atvinnugreinin fari að skilja að þetta gangi virkilega ekki. „Ef þetta gerðist einhvers staðar annars staðar í venjulegu fyrirtæki sem er með þennan metnað sem hægt er að hafa hér, þá væri það bara alls ekki ásættanlegt.“
„Þarna verðum við að taka okkur tak“
Á sama fundi sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, að henni hefði þótt vænt um það að Klemens hefði, með þessum orðum sínum, stungið á kýlin þegar kæmi að jafnréttismálum í sjávarútvegi. „Þarna verðum við að taka okkur tak. Það er ekki neinn annar en við sjálf sem eigum að gera betur þar. Það sama á kannski við um þegar talað er um eignarhald og kynslóðaskipti. Og það er nú einu sinni þannig að enginn kemst hjá kynslóðaskiptum. Þannig er einfaldlega tímans hjól. Næstu ár eru ár umbreytinga í sjávarútvegi. Það verða áskoranir í þessum kynslóðaskiptum. Við þurfum að gera það vel og við þurfum að gera það í góðu samtali við samfélagið.“
Í tillögum starfshópanna er í þessu samhengi lagt til að gildissvið löggjafar um kynjakvóta í stjórnum verði útvíkkað svo skylda um hlutföll kynja nái til hagsmuna- og félagasamtaka yfir ákveðinni stærð. Í lögum um einkahlutafélög og hlutafélög er nú sú skylda lögð á félög þar sem fleiri en 50 starfsmenn starfa að jafnaði og fleiri en þrír eru í stjórn, að hlutfall hvors kyns fyrir sig sé ekki lægra en 40 prósent. Þetta vilja starfshóparnir að verði látið gilda um hagsmuna- og félagasamtök einnig, þó með þeirri breytingu að eitt kyn, karl, kona eða kvár, skuli ekki vera hærra hlutfall stjórnar en 60 prósent.
Athugasemdir (4)