Ekkert mál var fyrirferðarmeira í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum fyrstu viku ársins en „stóra fiskaramálið“. Sú umræða spratt af þeim misskilningi að verið væri að hrófla við orðinu sjómaður í þágu kynhlutlauss máls og varpar skýru ljósi á bæði umræðuhefð á samfélagsmiðlum og karllæg viðhorf til tungumálsins í málsamfélaginu.
Fiskimaður verður fiskari
Rétt fyrir þinglok í fyrra voru samþykkt ný Lög um áhafnir skipa nr. 82/2022 sem komu í stað nokkurra eldri laga. Í greinargerð með lagafrumvarpinu kom fram að markmið þess væru „að stuðla að jöfnu aðgengi kynjanna að menntun, þjálfun og störfum um borð í íslenskum skipum“ og í samræmi við það hefði „verið leitast við að draga úr karllægni í orðfæri“. Síðar í greinargerðinni segir svo: „Lagt er til að hugtakið fiskari verði notað í stað fiskimanns til að minnka kynlæga orðanotkun í lagatexta“ og vísað í sambærilega þróun erlendis. Orðið fiskari kemur þrisvar fyrir í lögunum, þar af tvisvar í orðskýringagrein þar sem það er skilgreint svo: „Fiskari er hver sá eða sú sem starfar eða er ráðinn eða ráðin til vinnu á fiskiskipi […].“.
Frumvarpið var sent ýmsum hagsmunaaðilum til umsagnar og bárust alls 15 umsagnir. Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var umrædd orðalagsbreyting talin óþörf, en ekki lagst beinlínis gegn henni. Einnig barst umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda og sameiginleg umsögn frá Félagi skipstjórnarmanna, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambandi Íslands. Í hvorugri umsögninni voru gerðar nokkrar athugasemdir við orðið fiskari. Ekki er heldur að sjá að minnst hafi verið á orðið í umræðum um málið á Alþingi þannig að það virðist ekki hafa farið sérstaklega fyrir brjóstið á alþingismönnum – ekki einu sinni Sigmundi Davíð þótt hann hæðist að því núna.
Á Þorláksmessu birti Morgunblaðiðfrétt með fyrirsögninni „Fiskimaður verður fiskari í nafni kynhlutleysis“. Þar var haft eftir samskiptastjóra Samgöngustofu „að við mótun laganna hafi sérstaklega verið gætt að því að orðalag þeirra væri kynhlutlaust, en þó ekki þannig að það nái til tiltekinna hugtaka sem hafa unnið sér til hefðar að vera sérstaklega kynjuð“. En að kvöldi þriðja janúar hófst eitthvert sérkennilegasta fjölmiðla- og samfélagsmiðlafár síðari ára, allt síðan á dögum Lúkasarmálsins alræmda, með Facebook-færslu þar sem því var haldið fram að orðið sjómaður hefði verið „tekið út úr íslenskri löggjöf“ og orðið fiskari, sem í færslunni var kallað „orðskrípi“, sett í staðinn. Út af þessu var svo lagt í löngu máli.
Höfundur færslunnar er fyrrum alþingismaður með víðfeðmt tengslanet þannig að þetta vakti mikla athygli. Þegar þetta er skrifað hefur færslunni verið deilt 58 sinnum, fengið 578 læk og 329 ummæli hafa verið skrifuð um hana – langflest til að taka undir hneykslun höfundar á þessari meintu aðför gegn orðinu sjómaður. A.m.k. tveir vefmiðlar tóku færsluna upp í heild og um þetta mál hefur verið fjallað í allmörgum innslögum í fréttum og dægurmálaþáttum útvarps- og sjónvarpsstöðva, dagblöðum og vefmiðlum og forystugrein skrifuð um það í Morgunblaðinu, auk þess sem ótal þræðir á samfélagsmiðlum hafa spunnist af færslunni. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem hafa tjáð sig um málið fordæmir breytinguna og orðið fiskari.
Fljótlega var bent á það í athugasemdum við upphaflegu færsluna að þar væri um misskilning að ræða – ekki hefði verið hróflað við orðinu sjómaður heldur hefði fiskari verið sett í stað orðsins fiskimaður í orðskýringagrein nýrra laga. Færslunni var þá breytt og nú er ekki lengur talað um að orðið sjómaður hafi verið tekið út úr lögum, heldur að orðið fiskari hafi verið sett inn í íslenska löggjöf í merkingunni sjómaður. Það er ekki heldur rétt – orðið var sett í stað fiskimaður eins og fyrr segir, og af skilgreiningu þess þar er ljóst að fiskari hefur mun þrengri og afmarkaðri merkingu en sjómaður. En samt sem áður er enn verið að halda því fram á samfélagsmiðlum að um sé að ræða árás á orðið sjómaður – og sjómannastéttina.
„Í samfélaginu er takmarkaður skilningur á því að karllægni í tungumálinu geti haft áhrif á viðhorf til kynjanna“
„Orðskrípi“ laumað inn?
Í umræðunni hefur verið sagt að þarna hafi breytingu á starfsheiti verið laumað í gegn án samráðs við þá starfsstétt sem um er að ræða. Eins og hér hefur verið lýst er fráleitt að halda því fram. Í greinargerð með frumvarpinu er vakin sérstök athygli á þessari orðalagsbreytingu, og markmiðinu með henni – ekki einu sinni, heldur tvisvar. Félög sjómanna fengu frumvarpið til umsagnar og gerðu vissulega athugasemdir við greinina þar sem orðið fiskari er skilgreint – en ekki við það orð. Það er ekki heldur verið að breyta starfsheiti – þau eru ekki ákveðin í lögum nema þau séu lögvernduð sem ekki er í þessu tilviki. Það er aðeins verið að breyta um orð sem notað er í lögum til að afmarka ákveðinn hóp sem nauðsynlegt er að geta vísað til.
Í Morgunblaðinu var haft eftir formanni Sjómannasambandsins: „Fiskari er orðskrípi að mínu mati. Sjómannadagurinn til dæmis fær aldrei nafnið Fiskaradagurinn.“ Sami formaður skrifaði þó undir áðurnefnda umsögn þar sem engin athugasemd var gerð við orðið. Fyrrverandi forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins sagðist hafa „orðið var við talsvert ósætti í stéttinni“. Það er þó ekki svo að orðið fiskimaður hafi verið rótgróið í þeim lögum sem um ræðir. Það kom inn í lögin fyrir þremur árum og vakti þá takmarkaða hrifningu eins og fram kom í Fiskifréttum Viðskiptablaðsins þar sem var sagt: „Þetta orð, fiskimaður, getur varla talist sérlega tamt þeim sem nú tengjast sjávarútvegi.“ En nú er þetta allt í einu ómissandi orð.
Það hefur verið hamast gegn orðinu fiskari og það kallað „orðskrípi“. Þetta orð hefur þó verið í málinu a.m.k. síðan á 15. öld og virðist hafa verið aðalorðið, mun algengara en fiskimaður, frá 16. og fram á 19. öld. Það er m.a. notað í „Tilskipun fyrir Ísland um tilhögun á löggæzlu við fiskiveiðar fyrir utan landhelgi í hafinu umhverfis Færeyjar og Ísland“ frá 1903. Orðið er hliðstætt fjölda starfsheita sem þykja góð og gild – af baka er leitt bakari, af kenna kemur kennari, af leikaleikari, af ljósmynda ljósmyndari, og af fiskafiskari. En orðið hefur vissulega lítið verið notað undanfarna öld og við þekkjum það fæst, og það er alkunna að okkur finnst þau orð sem við þekkjum ekki iðulega skrítin og fellum okkur ekki við þau fyrst í stað.
Annað orð sem hefur verið fellt úr lögum á undanförnum árum er loftskeytamaður sem er gamalgróið í íslensku – elstu dæmi um það eru frá 1906, og á tímarit.is eru hátt í tíu þúsund dæmi um orðið. Þetta orð var í lögum um áhafnir skipa fram að gildistöku Laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001. Þar kemur orðið ekki fyrir, en í greinargerð með frumvarpinu segir: „Nokkur ný hugtök eru skilgreind sem hafa ekki verið skilgreind eða notuð í íslenskri löggjöf áður, t.d. fjarskiptamaður […]“. Það hefði mátt búast við háværum mótmælum við því að hið gamalgróna orð loftskeytamaður væri fellt úr lögum, en ég finn engin dæmi um slíkt, eða að orðið fjarskiptamaður hafi verið kallað „orðskrípi“.
Þrátt fyrir að orðið fjarskiptamaður hafi þannig verið í lögum í meira en 20 ár verður ekki séð að það hafi komist inn í daglegt mál. Á tímarit.is eru innan við 20 dæmi um það frá þessum 20 árum, og í Risamálheildinni innan við 30 dæmi (að frátöldum dæmum úr þingskjölum). Aftur á móti eru yfir þúsund dæmi um orðið loftskeytamaður frá þessum sama tíma á tímarit.is og rúm 1600 í Risamálheildinni þannig að brottnám þess úr lögum hefur ekki gengið af því dauðu. Það má líka nefna að hvorki háseti né kokkur koma fyrir í nýjum Lögum um áhafnir skipa án þess að gerðar hafi verið athugasemdir við það – fyrrnefnda orðið var í fyrri lögum en féll út núna en það síðarnefnda hefur ekki verið í lögum en er sprelllifandi í málinu.
Andstaða við breytingar í átt til kynhlutleysis
Af þessu má draga tvær ályktanir. Önnur er sú að það þurfi ekki að vera mikið samhengi milli þeirra orða sem notuð eru í lögum sem eins konar íðorð og þeirra sem notuð eru í daglegu máli. Það er engin ástæða til að ætla að það bitni á orðinu fiskimaður að fiskari er komið inn í lög í þess stað – og tilvist síðarnefnda orðsins í lögum tryggir ekki endurreisn þess í daglegu máli. Hin ályktunin er sú að breytingar á einstökum orðum í lögum veki yfirleitt litla athygli almennings og mæti ekki almennri mótstöðu – það sé fyrst þegar breyting á orðalagi er gerð undir þeim formerkjum að draga úr karllægni tungumálsins sem allt fer upp í loft. Sú ályktun fær stuðning í fjölmörgum ummælum á samfélagsmiðlum síðustu daga.
Meðal þess sem sagt hefur verið um umrædda breytingu er að hún sé „femínísk sjálfsfróun“ og „sturlaður rétttrúnaður“ sem sé „ætlað að sefa hóp helsjúkra einstaklinga sem fyrirlíta það sem er hin eina og rétta skilgreining kynjanna“. Þótt andstaðan við breytinguna sé rekin undir þeim formerkjum að henni hafi verið laumað í gegn án nokkurs samráðs við sjómenn (sem er rangt), að verið sé að breyta starfsheiti sjómanna (sem er rangt), að verið sé að ráðast gegn orðinu sjómaður (sem er rangt), að orðið fiskari sé „orðskrípi“ (sem er smekksatriði), og að sjómenn vilji nota orðið fiskimaður (sem er vafasamt), þá er nokkuð ljóst að meginrótin er andstaða við hvers kyns breytingar sem hafa það að markmiði að draga úr karllægni tungumálsins.
Það er eðlilegt að skoðanir séu skiptar um það hvort ástæða sé til að reyna að draga úr karllægni íslenskunnar, og það má líka deila um hvort það að skipta fiskimaður út fyrir fiskari sé skref í þá átt – og hvort það sé skref sem heppilegt hafi verið að stíga. Hins vegar er alveg ljóst að þessi smávægilega breyting stendur ekki undir því fjaðrafoki sem orðið er og hefði aldrei framkallað það nema tvennt hefði komið til: Annað að sú ranga staðhæfing fór á flug að verið væri að útrýma orðinu sjómaður úr lögum, og hitt að í samfélaginu er takmarkaður skilningur á því að karllægni tungumálsins geti haft áhrif á viðhorf til kynjanna. Af þessu máli má ýmislegt læra, bæði um umræðuhefð á samfélagsmiðlum og um skilning fólks á jafnréttismálum.
Athugasemdir