Ég kíki laumulega fyrir hornið. Lít aftur fyrir mig. Ég er á flótta, reyni að láta lítið fyrir mér fara og vera snöggur. Þetta er gamalt viðbragð. Ég flý sársauka, sorg, reiði, skömm, öfund og afbrýðisemi. Stansa snöggvast, halla hurðinni og er í skjóli. Leita varlega í rökkrinu en finn ekki neitt. Jú, reyndar, ég er einmana.
Það er tilgangslaust að flýja. Samt er stundum eins og það sé meginverkefnið. Fara nógu hratt yfir. Staðnæmast sjaldan og stutt og gleyma ekki að hafa nóg fyrir stafni, passa sig að fara ekki of nálægt. Aldrei of nálægt. Það er auðvitað hættulegt.
Líkami og sál
Það var margreynt að slökkva aðeins á sér, fá sér drykk eða jafnvel eitthvað annað. Þetta þjóðráð féll reyndar í ónáð fyrir áratugum. Reyndist illa og var að flestu leyti mun hættulegra og orkufrekara en að halda bara áfram á flótta. Flóttinn hélt manni þó á hreyfingu. Hugurinn árvökull og sífellt til í að bregðast við næstu ógn. Líkaminn á sífelldum spretti.
En hvaða hugur og hvaða líkami? Það var eitthvað þarna. Í hreyfingu líkamans róaðist hugurinn. Og hvers vegna var ég yfir höfuð að skipta mér í einingar? Líkami, sál, hugur. Var þetta ekki alltsaman ég?
Hlutar heildarinnar
Hreyfingin skiptir máli. Úti í náttúrunni er ekkert að flýja. Það má svosem kvíða því að rata ekki heim eða vera að öðru leyti illa undirbúinn fyrir óveður, snjóflóð eða svosem hvaða ógöngur aðrar sem í boði eru. En þessi kvíði er sjaldnast nema hvetjandi og tilheyrir aðeins hluta af manni. Aðrir hlutar eru kyrrir í núinu. Þeir fylgjast með skrefum, landslagi, veðrabrigðum, reyna að skilja leiðir og áttir. Þeir líta aldrei undan, hugsa ekki um það sem sagt var í gær og óttast ekki morgundaginn. Eru þeir hamingjusamir? Þeir þurfa þess ekki. Þeir bara eru – og þar small eitthvað saman.
Heild hlutanna
Tvennt gerðist hér. Meðvitundin um núið tók að eflast, hún kemur reyndar og fer, og lætur elta sig. En svo skipti ég mér aftur í nokkra hluta. Ekki þó líkama og sál heldur fékk sú hugmynd líf að upplifunin á hverjum tíma væri marglaga. Það mætti upplifa kvíða í einum hluta á meðan aðrir hlutar væru kyrrir og rólegir eða upplifðu eitthvað allt annað jafnvel. Þetta varð svo lykillinn að því að leyfa erfiðari tilfinningum, þeim stóru og stjórnsömu, að hafa pláss án þess að taka yfir allt kerfið. Svona mátti fara í gegnum heilu dagana þar sem einn hluti mannsins var altekinn depurð og kvíða. En það var bara hluti sem ekki réði ferðinni. Aðrir hlutar voru kátir og fóru og keyptu í matinn.
Ekki leita
Og hamingjan? Það reyndist hamingja í sjálfu sér að vera ekki að leita. Vera ekki að fara fram á neitt slíkt. Auðvitað eigum við öll skilið að upplifa hamingju, en í mínu tilviki þá hefur kyrrðin í pörtum mínum verið verðmætust ásamt því að reyna ekki að fela eða kæfa þessa órólegu, kvíðnu og döpru hluta. Eða þá sem vilja píska mig áfram og una aldrei hvíldar.
Frekar hef ég reynt að nálgast þá, skilja þá og leyfa þeim að finna að þeir eru hluti af heild sem leitar jafnvægis. Þeir eru ekki einir, þurfa ekki að vinna alla vinnuna, mega hvílast – allt er í lagi.
Og ég er ekki einn. Ég er hluti af heild. Ég þarf ekki að vinna alla vinnuna sjálfur. Ég má hvíla mig, ég má biðja um hjálp. Allt er í lagi.
Kraftmesta upplifunin
Og þess vegna klæði ég mig og smyr nesti. Sæki börn, kem við í búðinni og rek þau svo í rúmið. Allt þetta venjulega.
Alltaf þegar það er hægt, þá fer ég í fjallgöngu, renni mér á skíðum, klifra í klettum, sem tónlist og leik á píanó. Ég tek líka tíma í að sættast við ökklabrotið, eyði tíma í áhyggjur af lágum launum og öðru sjálfselskulegu smálegu, aðallega hversdagslegu.
Allra helst umgengst ég samt fólkið sem ég elska. Það er kraftmesta upplifunin.
Mér hefur oft virst eins og sumt fólk þurfi ekki að velta neinu fyrir sér. Jafnvægi í lífinu komi af sjálfu sér og án fyrirhafnar og margt fólk sé hamingjusamt frá náttúrunnar hendi. Þetta er auðvitað ekki satt. Allir streða.
Og þegar svo ber við að öll þessi fínu vísindi duga ekki, þá má fara ansi langt á því að þykjast vera glaður.
Athugasemdir