Litlar efnisbreytingar hafa orðið á frumvarpi um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu, frá þeirri útgáfu sem lögð var fram í samráðsgátt í byrjun árs, og þeirri útgáfu sem dómsmálaráðherra sagði tilbúið í ráðuneytinu. Þó hefur ákvæði um að heimila lögreglu að nálgast upplýsingar um einstaklinga, þar á meðal persónuupplýsingar, frá opinberum hlutafélögum, verið felld út, samkvæmt nýjustu útgáfunni.
Stundin fékk aðgang að frumvarpinu í krafti upplýsingalaga í tilefni af ummælum dómsmálaráðherra í kjölfar umfangsmikilla lögregluaðgerða og handtöku lögreglu vegna meintrar hryðjuverkaógnar 20. september.
Með því verða lögreglu veittar heimildir til að hefja rannsókn, stunda umfangsmikið eftirlit, fylgjast með ferðum fólks á almannafæri, afla gagna um persónulega hagi þess og leggja hald á eignir, án rökstudds gruns um að viðkomandi hafi framið afbrot eða ætli að fremja afbrot. Núverandi löggjöf veitir ekki samsvarandi heimildir. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt þunga áherslu á að frumvarpið verði að lögum.
Samkvæmt þeirri útgáfu frumvarpsins sem Stundin fékk afhenta er ekki gert ráð fyrir því að aukið eftirlit verði með því hvernig lögregla beiti þessum auknu heimildum, umfram það sem þegar er í höndum sérstakrar nefndar um eftirlit með störfum lögreglu. Ein meginrök þeirra sem goldið hafa varhug við því að færa lögreglu svo umfangsmiklar eftirlitsheimildir með borgurunum, hefur verið sú að ekki sé gert ráð fyrir því að virkt eftirlit verði með beitingu heimildanna.
Í frumvarpinu er sérstaklega vísað til samsvarandi heimilda í löggjöf Dana og Norðmanna. Þar eru þær stofnanir sem fara með það vald þó undir sérstöku eftirliti umfram það sem lögregla þar býr við almennt. Í Danmörku fer sérstök nefnd með eftirlit með þeim stofnunum sem slíkar heimildir hafa þar í landi. Auk þess sem starfsemin heyrir undir eftirlit og ábyrgð dómsmálaráðherra og heyrir auk þess undir eftirlitshlutverk sérstakrar þingmannanefndar.
Í Noregi er svipaður háttur hafður á en þar hefur nefnd á vegum norska þingsins eftirlit með beitingu heimildanna auk þess sem ráðherra og ríkissaksóknari hafa almennt eftirlit með starfsemi löggæsluyfirvalda sem heimilt er að beita þessum heimildum.
Samkvæmt svari dómsmálaráðuneytisins til Stundarinnar er ekki loku fyrir það skotið að frumvarpið geti tekið breytingum, áður heldur en það verður lagt fyrir alþingi. Frumvarpið hefur verið sent nokkrum aðilum til umsagnar, meðal annars lögreglustjórum.
Grundvallarbreyting
Ákvörðun um eftirlit með fólki verður á höndum lögreglustjóra og þurfa aðrir aðilar ekki að koma að þeim ákvörðunum. Þá verður lögreglu heimilt að leggja hald á muni í eigu eða vörslu annarra aðila en þeirra sem sæta eftirliti, sé slíkt talið nauðsynlegt eða líklegt til að veita lögreglu upplýsingar til að koma í veg fyrir brot er varða landráð eða brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum. Slík haldlagning verður þó aðeins ákveðin með úrskurði dómara.
Jón Gunnarsson sjálfur greindi frá því að frumvarpið væri tilbúið í dómsmálaráðuneytinu í fréttum Ríkisútvarpsins 22. september síðastliðinn og óskaði Stundin því eftir því að fá frumvarpið afhent. Tilefni orða Jóns var að sama dag voru tveir karlmenn úrskurðaðir í gæsluvarðhald, grunaðir um að hafa í undirbúningi hryðjuverkaárásir hér á landi. Þær árásir áttu samkvæmt lögreglu að beinast gegn Alþingi og lögreglu, hið minnsta.
Heimildir til vopnaburðar verða lögfestar
Um er að ræða breytingu á lögreglulögum og lýtur sú breyting að forvirkum rannsóknarheimildum, sem nefnd eru afbrotavarnir í frumvarpinu, og vopnaburði lögreglu.
Hvað síðari þátt frumvarpsins, um vopnaburð, varðar er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að við grein laganna þar sem fjallað er um valdbeitingu bætist nýjar málsgreinar þar sem vopnaburður lögreglu er tilgreindur. Í gildandi lögum er ekki fjallað um vopnaburð lögreglu heldur aðeins að lögreglu sé heimilt að beita valdi við skyldustörf sín, og að ekki megi ganga lengra við beitingu valds en þörf sé á hverju sinni. Í hinu nýja frumvarpi er hins vegar sérstaklega fjallað um vopnaburð. „Lögreglustjóri getur gefið fyrirmæli um að lögreglumenn skuli vopnast í samræmi við reglur sem settar eru skv. 3. mgr.,“ segir í frumvarpinu og tilgreint að ráðherra setji nánari reglur um valdbeitingu, meðferð og notkun vopna hjá lögreglu. Þá skuli ríkislögreglustjóri setja verklagsreglur um nauðsynlegar áætlanir lögregluliða varðandi viðbúnað með vopnum.
Heimilt að nýta samskipti við uppljóstrara
Hvað varðar breytingar þær sem snúa að forvirkum rannsóknum þá er sérstaklega tilgreint að lögreglurannsóknar- og greiningardeild ríkislögreglustjóra skuli „sinna upplýsingaöflun og greiningum í þágu afbrotavarna á landsvísu, m.a. með rekstri miðlægs gagnagrunns“.
Þá er frekar fjallað um þær heimildir sem lögreglu verða veittar til að sinna forvirkum rannsóknum. Fram kemur að lögreglu verði heimilt að nýta til greiningar allar þær upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd löggæslustarfa „og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi.“
„Af þeim kunni að stafa sérgreind hætta fyrir almannaöryggi er lögreglu heimilt að hafa eftirlit með viðkomandi“
Þá segir enn fremur að hafi lögregla upplýsingar um að fólk eða hópur fólks hafi tengsl við skipulögð brotasamtök eða „af þeim kunni að stafa sérgreind hætta fyrir almannaöryggi er lögreglu heimilt að hafa eftirlit með viðkomandi“. Það má lögregla gera með því að afla upplýsinga um fólk, fylgjast með ferðum þess á almannafæri eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Ákvörðun um slíkt eftirlit liggur hjá lögreglustjórum eða öðrum yfirmönnum lögreglu samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra.
Lögreglu er einnig heimilt, í sama skyni, að afla upplýsinga, „þar á meðal persónuupplýsinga, hjá öðrum stjórnvöldum og stofnunum“. Er lögreglu það heimilt ef talið er að þær upplýsingar hafi verulega þýðingu við rannsókn á landráðabrotum og brotum gegn stjórnskipan ríkisins eða æðstu stjórnvöldum, „eða til að afstýra slíkum brotum“. Öðrum stjórnvöldum og stofnunum verður samkvæmt frumvarpinu skylt að veita slíkar upplýsingar.
Lögregla verði að geta „brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin“
Enn fremur er lögreglu heimilt að leggja hald á muni eða gögn í eigu annarra en þeirra sem eftirlit er haft með. Úrskurð dómara þarf fyrir slíkum aðgerðum. Í þeirri útgáfu frumvarpsins sem Stundin fékk afhent er að finna athugasemdir Birgis Jónassonar, lögreglustjóra á Norðurlandi vestra. Meðal athugasemda Birgis er að hann telji nauðsynlegt að útvíkka orðalag frumvarpsins þegar kemur að haldlagningu muna og gagna. Eins og frumvarpið sé verði ekki unnt að leggja hald á muni vegna skipulagðrar brotastarfsemi nema því aðeins að um sé að ræða tengingu við landráð eða brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu valdhöfum. Telur Birgir að þörf sé á opnara ákvæði með tengingu við skipulagða brotastarfsemi sem „iðulega eru fíkiefnalagabrot, mansal og vændi. Nefndi enn fremur þegar um ræðir kynferðisbrotamenn gegn börnum.“
Tilgreint er að verði eftirliti hætt án þess að grunur sé um afbrot skuli lögregla tilkynna nefnd um eftirlit með lögreglu um aðgerðina eins fljótt og unnt er, eigi síðar en 30 dögum eftir að eftirliti er hætt. Ekki er að sjá lögreglu sé skylt að upplýsa þá sem sætt hafa eftirliti af hennar hálfu um að svo hafi verið. Hins vegar er gert ráð fyrir því að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu muni fá heimild til að gera lögreglustjórum skylt að tilkynna hverjum þeim sem sætt hefur eftirliti að tilefnislausu, um slíkt eftirlit.
Í athugasemdum með frumvarpinu segir að breytt afbrotamynstur og útbreiðsla skipulagðrar brotastarfsemi á milli landa krefjist þess að löggæsluyfirvöld geti „brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin,“ það er fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot.
Þá er fjallað um að hér á landi hafi löggæsluyfirvöld alla tíð starfað í öðru umhverfi þegar kemur að afbrotavörnum heldur en annars staðar á Norðurlöndunum. Þar séu alls staðar starfandi sérstakar stofnanir innan lögreglu sem hafi það hlutverk að koma í veg fyrir brot sem geti raskað öryggi ríkisins. Eru njósnir, hryðjuverk og alvarleg afbrot í tengslum við skipulagða brotastarfsemi þar tilgreind sérstaklega. Er þar verið að vísa til stofnana á borð við dönsku öryggislögregluna PET, norsku öryggislögregluna PST og sænsku öryggislögregluna SÄPO.
Illugi Jökulsson"
"Hægðarleikur er að færa rök fyrir því að milljarðar og aftur milljarðar hverfi úr sameiginlegum sjóðum okkar á hverju ári vegna spillingar – sem opinberir aðilar þykjast þó sem minnst um vita, skrifar Illugi Jökulsson."