Lovísa Ösp var í sambandi með manni í eitt ár sem beitti hana ofbeldi nær allan tímann. Hún segir Eddu Falak frá þessu tímabili og því sem hún hefur gengið í gegnum eftir að sambandinu lauk í nýjasta þætti Eigin kvenna. „Hann var bara minn klettur þótt þetta hafi verið svona ljótt þá sagði ég honum allt,“ segir Lovísa Ösp þegar hún lýsir því hve flókið það hafi verið að vera ástfangin af manni sem beitti hana ofbeldi.
„Ef hann væri ekki ofbeldismanneskja væri hann fullkominn“
Hún segir að hann hafi oft verið „yndislegur“ og þess vegna hafi hún ekki farið eftir að hann lagði á hana hendur í fyrsta sinn en þá voru þau búin að vera saman í einn mánuð. „Maður heldur alltaf að hann verði betri og líka, við vorum með svo góð tilfinningaleg tengsl, höfum farið í gegnum margt á ævinni og tengdum bara í gegnum það. [...] Þetta er brotið sjálfstraust, mér finnst hann ógeðslega fallegur og ef hann væri ekki ofbeldismanneskja væri hann fullkominn, við erum með sömu áhugamál, við hlustum bæði á tónlist, hann gerir tónlist og þetta var bara eins og í bók, ævintýrabók einhvern veginn.“
Forðaðist að veita henni áverka á andliti
Lovísa segir að fyrsti mánuðurinn þeirra saman hafi verið dásamlegur, einskonar hveitibrauðsdagar en eftir fyrstu árásina hafi ofbeldið stigmagnast.
„Hann sagði aldrei fyrirgefðu, hann bara hlúði að mér þegar þetta var búið,“ segir Lovísa Ösp. Hún segist fljótt hafa áttað sig á að kærastinn hennar fyrrverandi missti stjórn á skapi sínu þegar hann var á „niðurtúr“ en þau hafi bæði verið í mikilli fíkniefnaneyslu.
Samkvæmt lýsingum Lovísu Aspar virðist maðurinn hafa haft stjórn á gjörðum sínum því hún segir að hann hafi gætt sín á því að áverkarnir sæjust ekki.
„Þetta var alltaf á höndunum eða fótunum, hann passaði sig með andlitið en ég fékk glóðarauga einu sinni og ég man eftir því, þá var hann að lemja mig og síðan kemur högg á augað á mér og þá bara: Fokk, sorrí. Hann kom með klaka og það var eins og hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað hann væri að gera,“ segir Lovísa Ösp og bætir við að hún hafi keypt sér langermaboli til að fela áverkana.
Mætti skilningsleysi
Lovísa Ösp segir að lýsingar á svokallaðri sjúkri ást eigi mjög vel við um samband þeirra, sérstaklega upphaf þess því það hafi þróast mjög hratt og hann hafi flutt inn til hennar nokkrum dögum eftir að þau kynntust. „Ég átti ógeðslega erfitt með að trúa að þetta væri að gerast fyrir mig. Við pössuðum svo ógeðslega vel saman, þegar hann er í góðu standi þá er hann fullkominn. Ég hugsa enn til hans og ég sakna hans, ég er ennþá ógeðslega meðvirk.“
Lovísa segist víða hafa mætt skilningsleysi, fólk hafi sagt að hún hefði átt að fara frá honum um leið og hún áttaði sig á að hún var í ofbeldissambandi. En þetta sé ekki svona einfalt. „Þú myndir aldrei ef þú myndir fara á fyrsta deit með strák og hann myndi slá þig á fyrsta deiti, þá myndir þú væntanlega aldrei hitta hann aftur. En hann var búinn að byggja upp traust og ég hélt náttúrulega að þetta væri bara lífið skilurðu.“
„Þetta var alltaf á höndunum eða fótunum hann passaði sig með andlitið“
Hún segist oft hafa hugsað um að fara frá honum á þessu tímabili. „Ég átti mjög erfitt. Það var eiginlega hann sem slúttaði þessu, út af því að ég kunni ekki neitt annað, ég elska þann sem ég er með í sambandi, sama hvað.“
Hún segir að það hafi ekki verið fyrr en hún fór í meðferð vegna fíknivandans sem hún hafi áttað sig á alvarleika ofbeldsins. Hún segist þá hafa ákveðið að kæra hann til lögreglu til að reyna að koma í veg fyrir að hann beitti fleiri stelpur ofbeldi. Kæruna lagði hún fram í byrjun árs en segist ekkert hafa heyrt frá lögreglu síðan þá. „Ég er með svo mikið af gögnum sem benda til að þetta var alvarlegt og ég er náttúrulega með myndir, ég tók ekki alltaf en alveg nóg af myndum.“
„Maður verður svo einangraður“
Hún segist vera á batavegi en fyrstu mánuðina hafi hún átt erfitt með að sofa ein og þess vegna hafi hún fengið sér kött. Hún fái enn martraðir og segist ekki enn treysta karlmönnum. „Það er búið að vera frekar erfitt fyrir mig núna seinasta árið að finna einhvern. Mér líður eins og allir séu að nota mig.“
Lovísa segir að mamma sín hafi hjálpað sér með ráðum og dáð. „Hún er búin að vera eins og klettur fyrir aftan mig,“ segir hún en bætir við að þegar hún líti til baka eigi hún erfitt með að sætta sig við að sumar vinkonur og vinir hafi snúið við henni baki. Hún hvetur ástvini þolenda heimilisofbeldis til að reyna að vera til staðar.
„Ekki loka á hana út af þessu. Út af það gerðist alveg við mig, út af því að þetta var að gerast aftur og aftur og vinir mínir voru orðnir þreyttir og skildu ekki af hverju ég væri ekki búin að fara en þetta er svo miklu meira en að segja það. Þetta eru bara tilfinningarnar, maður er svo fastur og trúir því ekki að þetta muni verða betra en þetta er ekkert líf, að vera barin á þriggja vikna fresti,“ segir Lovísa Ösp og bætir við að það sé mjög mikilvægt að sýna þolendum heimilisofbeldis mildi. „Ég myndi segja að það væri númer eitt, tvö og þrjú af því að þú getur ekki leitt neinn til að gera eitthvað þótt það sé betra fyrir mann. Maður verður svo ógeðslega blindur og þú veist, ég hélt að þetta væri bara lífið en ég myndi segja öðrum konum, ja konum eða körlum, að vera með mildi, spyrja: Hvernig hefurðu það, hvernig ertu í dag - bara basic samskipti út af því að maður verður svo einangraður,“ segir Lovísa Ösp Helgadóttir.
Athugasemdir