Ríkið gerir ráð fyrir þrefalt hærri tekjum af gjöldum vegna fiskeldis á næsta ári en gert var ráð fyrir í ár. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi 2023 sem kynnt var í morgun. Í fjárlögum yfirstandandi árs voru tekjurnar áætlaðar 540 milljónir króna en gert er ráð fyrir að þær verði 1.510 á næsta ári.
Sömu leiðis er gert ráð fyrir að tekjur af veiðigjöldum vegna veiðiheimilda (fiskveiðikvóta) hækki. Vonir standa til að það nemi 8.320 milljónum króna. Gjaldið er lagt á miðað við afkomu veiðanna tveimur árum fyrir álagningu. Það þýðir að gjaldtakan á næsta ári miðast við veiðar ársins 2021.
„Aukið aflamagn og -verðmæti árið 2021 miðað við 2020 gefur fyrirheit um hækkun veiðigjalds frá fyrra ári en áætlunin verður endurskoðuð þegar endanleg ákvörðun um veiðigjöld liggur fyrir hjá Skattinum í byrjun desember nk,“ segir í skýringum frumvarpsins.
Veiðigjaldið var áætlað 7.100 milljónir í ár, samkvæmt núgildandi fjárlögum.
Athugasemdir (1)