Verslanakeðjan Samkaup, sem rekur meðal annars Nettó, gerir nú tilraun til að skáka Krónunni, sem boðaði í síðustu viku að verðið á 240 vörum yrði fryst fram að áramótum.
Í tilkynningu frá Samkaupum kemur fram að þau muni „bjóða viðskiptavinum upp á sambærilegt verð eða lægra en það var í upphafi árs“, frá og með mánudeginum síðasta, á 400 vörutegundum.
Verðfrysting Krónunnar var bundin við vörur undir merkjum Krónunnar sjálfrar og First Price. Á sama hátt er verðlækkun Samkaupa bundin við vörur frá merkjum Änglamark og X-tra.
Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, segir í tilkynningunni að „gríðarlegar verðhækkanir“ frá innlendum framleiðendum og birgjum skrifist á „litla samkeppni, sterka stöðu fárra stórra birgja og verndartolla á íslenskri framleiðslu, til að mynda á mjólk og kjöti“.
Fram kemur að Samkaup hafi síðasta haust sent bréf á alla sína birgja og samstarfsaðila þar sem „kallað var eftir samstarfi til að spyrna gegn hækkunum í vöruverði án nokkurra undirtekta“.
Forstjórinn segir Samkaup sömuleiðis hafa sent bréf á 10 stærstu birgja í lok sumars og lagt til 5% verðlækkun til áramóta, sem gæti skilað sér beint til viðskiptavina, „einnig án nokkurs árangurs“.
„Við furðum okkur á þessu og ekki síður á aðgerðaleysi hins opinbera, óbreyttum álögum á bensíni og að ekki sé afnuminn virðisauki á lykildagvöru, til að mynda á bleium og barnamat til að koma til móts við ungar barnafjölskyldur. Við fögnum þeim sem hafa tekið af skarið og fryst eða lækkað verð og höldum áfram að kalla eftir viðbrögðum birgja, framleiðenda og ekki síður hins opinbera,“ segir Gunnar Egill.
Þau gætu lækkað allar vörur í krambúðinni um 30% ☻g samt skilað gríðarlegum gróða.
krambúðin er ein mesta okurbúllan á Íslandi!