Norska laxeldisfyrirtækið Salmar AS, eigandi Arnarlax á Bíludal, er einu skrefi nær því að eignast fyrirtækið NTS, stærsta óbeina hluthafa Arctic Fish á Ísafirði, eftir að norska samkeppniseftirlitið veitti samþykki sitt fyrir samrunahugmyndunum um miðjan júlí. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Salmar AS fyrir 2. ársfjórðung sem kynnt var í dag. Í uppgjörinu kemur meðal annars fram með hvaða hætti Salmar AS sér fyrir sér að NTS og þau fyrirtæki sem það á renni inn í Salmar.
Möguleiki á samlegðaráhrifum í rekstri
Ef samruninn gengur eftir er líklegt að Arctic Fish renni einfaldlega inn í Arnarlax og að til verði eitt stórt laxeldisfyrirtæki á Vestfjörðum. Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtæki landsins um þessar mundir og verður langstærst ef Arctic Fish rennur inn í það. Forsvarsmenn Arctic Fish hafa ekki viljað ræða hvort þeim hafi verið tilkynnt um samruna við Arnarlax eða ekki. „No comment,“ sagði einn af stjórnendum fyrirtækisins, Daníel Jakobsson, í svari til Stundarinnar um þetta í júní.
Arnarlax framleiddi 16 þúsund tonn af eldislaxi í fyrra og Arctic Fish tæplega 11 þúsund. Samanlagt voru þessi fyrirtæki því með tæp 27 þúsund tonn af rúmlega 46 þúsund tonna heildarframleiðslu á eldislaxi á Íslandi árið 2021.
„Sameinað fyrirtæki verður í fararbroddi í vinnu við háþróuðustu aflandslausnir í heiminum“
Í árshlutauppgjörinu segir um þetta að samlegðaráhrifin í rekstri Salmar og NTS sé verulegur. Ekki bara á Íslandi heldur einnig í Norður- og Mið-Noregi sem og í aflandseldi á laxi. „Möguleiki á verulegum samlegðaráhrifum í allri virðiskeðjunni á öllum svæðum.“
Salmar: Framtíðin er í aflandseldi
Í árshlutauppgjörinu kemur hins vegar fram að Salmar sér framtíð laxeldis í heiminum ekki vera í sjókvíaeldi nálægt ströndum landa eins og Noregs og Íslands heldur í aflandseldi í risastórum kvíum á hafi úti. Salmar er líka að kaupa þróunarverkefni NTS í aflandseldi á laxi, Arctic Offshore Farming.
Auk samlegðaráhrifanna í sjókvíaeldinu í Noregi og á Íslandi segir að samruninn muni einnig leiða til samlegðaráhrifa í þróun á aflandslausnum. „Sameinað fyrirtæki verður í fararbroddi í vinnu við háþróuðustu aflandslausnir í heiminum.“
Í fjárfestakynningunni segir að til standi að dótturfélag Salmar, Aker Ocean, framleiði 150 þúsund tonn af eldislaxi á ári í aflandseldi sínu fyrir árið 2030. Þá hefur fyrrverandi stjórnarformaður Salmar, Atle Eide, sagt að hefðbundnar sjókvíar eins og Arnarlax og Arctic Fish nota á Vestfjörðum muni líklega heyra sögunni til árið 2030. „Við munum líklega ekki sjá hefðbundnar, alveg opnar sjókvíar neins staðar árið 2030,“ sagði hann í viðtali við sjávarútvegsblaðið Intrafish um vorið 2021.
Staðan er því því sú að þrátt fyrir að Salmar fjárfesti mikið í sjókvíaeldi á Íslandi í gegnum Arnarlax, og verði að öllum líkindum eigandi Arctic Fish á Ísafirði áður en langt um líður, þá telur fyrirtækið að framtíð laxeldis liggi ekki í þeim rekstri sem þessi fyrirtæki stunda heldur í aflandseldi á laxi.
Athugasemdir (1)