Úrvinnslusjóður ræður ekki við hlutverk sitt og hefur afar takmarkað eftirlit með því að úrgangi sé sannanlega ráðstafað með því hætti sem samið er um og sjóðurinn greiðir fyrir. Eftirlit sjóðsins með starfsemi endurvinnslufyrirtækja erlendis er þá lítið sem ekkert og felst einkum í yfirferð gagna sem aðilarnir sjálfir skila til sjóðsins. Hið sama á við um samninga við fyrirtæki sem ráðstafa úrgangi sem safnað er hér á landi og fluttur er úr landi. Ekki er til staðar innra eftirlit með starfsemi sjóðsins né vottun á verkferlum og skjalastýringu er mjög ábótavant. Starfsemi, ákvarðanir og álagning gjalda skorti gegnsæi og upplýsingagjöf til almennings og hagsmunaaðila er afar ábótavant. Þá er hver höndin upp á móti annarri innan stjórnar sjóðsins í ýmsum málum og skilvirkni stjórnarinnar því takmörkuð.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í óbirtri skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem raktar eru niðurstöður stjórnsýsluúttektar á starfsemi Úrvinnslusjóðs. Óhætt er að segja að sjóðurinn fái útreið í skýrslunni, sem Stundin hefur undir höndum.
„Vandséð að starfsfólk anni fyrirliggjandi verkefnum með góðu móti“
Rakið er að mikið álag sé að þá sex starfsmenn sem hjá sjóðnum starfa og „vandséð að starfsfólk anni fyrirliggjandi verkefnum með góðu móti“. Ekki sé til staðar innra eftirlit innan sjóðsins, verkferlar séu hvorki vottaðir né formlega skráðir og skjalastýringu sé ábótavant. Haldið er utan um talnaefni úrgangs í Excel skjali sem bjóði upp á hættur á villu og ekki sé til staðar nein sjálfvirk flöggun ef upp komi frávik eða mögulegar skekkjur. Því þurfi að treysta á athygli einstakra starfsmanna við að greina ef slíkar skekkjur eða frávik komi upp.
Stundin hefur áður fjallað um skekkjur sem hafa komið upp í tölum Úrvinnslusjóðs og sagði starfsmaður Umhverfisstofnunar að tölur frá sjóðnum ættu sér enga stoð í raunveruleikanum. Umhverfisstofnun treystir alfarið á að tölur, sem Úrvinnslusjóður sendir á stofnunina um endurvinnslu á Íslandi, séu réttar. Ekkert eftirlit er því haft með því hvort tölurnar séu réttar.
Ónæg þekking og ófullnægjandi kerfi
Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar er starfsemi sjóðsins allsendis ófullnægjandi. Þekkingu á verkefnum skorti og þau kerfi sem unnið sé með dugi ekki til. Styrkja þurfi starfsemina og fjölga þurfi starfsfólki. Þá þurfi að hlúa að því starfsfólki sem starfi hjá sjóðnum þar eð „opinber umfjöllun um starfsemi sjóðsins hefur reynst starfsfólki þungbær“. Ekki er sérstaklega skýrt hvaða umfjöllun er vísað til.
Stundin hefur ítrekað fjallað um veilur í starfsemi sjóðsins, meðal annars var skýrt frá því í janúar síðastliðnum að þáverandi framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, Ólafur Kjartansson, hafði vitneskju um að mikið magn íslensks plasts, sem sjóðurinn hafði greitt fyrir endurvinnslu á, væri það alls ekki. Heldur væri það geymt óendurunnið í vöruskemmu í Svíþjóð. Þrátt fyrir þá vitneskju var ekkert aðhafst vegna málsins í eitt og hálft ár, eða þar til Stundin upplýsti um málið.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ekki sé eining í störfum stjórnar Úrvinnslusjóðs. Óeininguna megi rekja til þess að stjórnarmenn hafi ólíka aðkomu að starfsemi sjóðsins. Því hafi stjórnarmenn átt erfitt með að ná samstöðu um ákveðin mál sem komi á borð stjórnar. Stjórn sjóðsins er skipuð sjö manns, formaður er tilnefndur af ráðherra, tveir eru tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga en hinir fimm tilnefndir af hagsmunasamtökum í atvinnulífinu. Fram kemur að undirbúningi stjórnarfunda væri ábótavant og gögn bærust iðulega með skömmum fyrirvara fyrir fundi. Fram kemur í skýrslunni að þess séu dæmi að stjórnarmenn taki þátt í vinnslu gagna og upplýsinga sem síðan koma til afgreiðslu á fundum stjórnarinnar. Þá segir Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að auka gagnsæi í starfsemi sjóðsins og auka miðlun upplýsinga.
Eftirliti stórlega ábótavant
Þá er eftirliti sjóðsins með þeim þjónustuaðilum, innlendum endurvinnslufyrirtækjum, stórlega ábótavant. Eftirlitið hefur fyrst og fremst falist í því að farið er yfir gögn sem berast með þeim reikningum sem fyrirtækin senda sjóðunum, gögn sem fyrirtækin sjálf taka saman. Svo virðist sem ekki sé annað virkt eftirlit með því hvort um raunsanna reikninga sé að ræða. Úrvinnslusjóður fylgist ekki sjálfstætt með fyrirtækjunum sem um ræðir heldur treystir á að þeir sem gefa út starfsleyfi til meðhöndlunar á úrgangi, sem eru ýmist heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna eða Umhverfisstofnun, fylgist með starfsemi endurvinnslufyrirtækjanna. Kalla þarf þegar í stað eftir gögnum sem sýna fram á raunverulegt magn og tegund ráðstöfunar á úrgangi, sem og að setja skýra skilmála um það hvaða gagna sé krafist og hvernig vottun þeirra sé háttað. „Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að Úrvinnslusjóður efli þegar í stað eftirlit sitt með endanlegri ráðstöfun, uppfæri skilmála og auki kröfur um þau gögn, vottanir og upplýsingar sem ráðstöfunaraðilar veita um endanlega ráðstöfun úrgangs.“
„Úrvinnslusjóður hefur takmarkað eftirlit með því hvort sú ráðstöfun sem samið er um og greitt er fyrir fari raunverulega fram“
Til að fá greitt úrvinnslugjald þurfa þjónustuaðilarnir, íslensku endurvinnslufyrirtækin, eingöngu að skila kvittunum þess efnis að ráðstöfunaraðili, fyrirtæki sem tekur við úrgangi til endurvinnslu, hafi móttekið umræddan úrgang. Þjónustuaðilum er frjálst að velja við hvaða ráðstöfunaraðila þeir skipta en úrgangur verður að fara til til viðurkenndra ráðstöfunaraðila sem Úrvinnslusjóður hefur samþykkt. Á það er bent að skilmálar Úrvinnslusjóðs, þar sem settar eru fram kröfur á bæði þjónustu- og ráðstöfunaraðila, hafa ekki verið uppfærðir reglulega. „Eftirlit Úrvinnslusjóðs með ráðstöfunaraðilum hefur hingað til eingöngu falist í yfirferð skráningargagna og að umræddur aðili sé með viðurkennd starfs- og rekstrarleyfi,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Með öðrum orðum, ekkert sjálfstætt eftirlit fer fram af hálfu sjóðsins á þeim fyrirtækjum sem taka við og eiga að vinna úrgang.
Úrvinnslusjóður hefur þá takmarkað aðkomu að samningum endurvinnslufyrirtækja við þá sem ráðstafa svo úrgangi, eins og til að mynda sænska fyrirtækið Swerec sem Stundin hefur ítrekað fjallað um. Skilyrði eru þó sett um að ráðstöfun uppfylli viðurkenndar kröfur sem settar eru af yfirvöldum þess lands þar sem ráðstöfun fer fram.
„Úrvinnslusjóður hefur takmarkað eftirlit með því hvort sú ráðstöfun sem samið er um og greitt er fyrir fari raunverulega fram,“ segir í skýrslunni. Vísar Ríkisendurskoðun meðal annars til afhjúpunar Stundarinnar frá því í desember 2021 þar sem greint var frá því að blaðamaður Stundarinnar hefði fundið allt að 1.500 tonn af íslensku plasti sem legið hafði óhreyft í vöruhúsi í Svíþjóð í um fimm ár. Allt það plast var sagt endurunnið eða endurnýtt samkvæmt tölfræði Úrvinnslusjóðs og höfðu íslensk endurvinnslufyrirtæki þegar fengið greiddar um hundrað milljónir króna á þeim forsendum að þau hefðu sent umrætt plast í í endurvinnslu. Þá segir í skýrslunni að „sambærilegar aðstæður hafa komið upp innanlands“. Ekki er nánar tilgreint um hvað er rætt hér.
Hagkvæmara að flytja úrganginn úr landi
Samkvæmt nýjum ákvæðum laga um úrvinnslugjald sem tóku gildi í júní á síðasta ári eru skyldur Úrvinnslusjóðs auknar þegar kemur að því að tryggja að úrgangi sé ráðstafað á viðeigandi hátt áður en greiðslur fyrir úrvinnsluna eru inntar af hendi. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að nú sé unnið að endurskoðun skilmála, endurskoðun samninga við þjónustuaðila og að stefnt sé á að sjóðurinn geri samninga beint við þá aðila sem ráðstafi úrganginum. Ekkert af þessu virðist þó komið til framkvæmda og segir Ríkisendurskoðun að mikilvægt sé að hraða vinnunni.
Ný ákvæði laga um úrvinnslugjald sem tóku gildi í júní 2021 auka á skyldur Úrvinnslusjóðs að tryggja viðeigandi ráðstöfun úrgangs áður en greiðslur til samningsaðila eru inntar af hendi. Unnið er að endurskoðun skilmála og samninga við þjónustuaðila svo draga megi úr hættu á að frávik komi upp í framtíðinni. Jafnframt stefnir sjóðurinn að því að gera samninga beint við ráðstöfunaraðila til að tryggja að sjóðurinn fái sem áreiðanlegust gögn og að greiðslur úr sjóðnum endurspegli betur raunverulega ráðstöfun úrgangsins. Mikilvægt er að hraða þessari vinnu, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Ríkisendurskoðun gerir fjölda annarra athugasemda við starfsemi Úrvinnslusjóðs en einnig þann opinbera ramma sem sjóðurinn starfar eftir. Meðal annars segir stofnunin að bæta verði tölfræði um úrgang og meðhöndlun hans. Þá telur Ríkisendurskoðun að aukin innlend endurvinnsla sé æskileg og til þess þurfi meðal annars skoða upptöku skilagjalds, sem og að endurskoða fyrirkomulag flutningsjöfnunar. Til að mynda er tiltekið að þjónustuaðili utan höfuðborgarsvæðisins, sem samkvæmt heimildum Stundarinnar er Flokka á Sauðárkróki, hafi upplýst Ríkisendurskoðun um að hagkvæmara væri að flytja heyrúlluplast til Hollands til brennslu fremur en að flytja það til Hveragerðis til endurvinnslu þar sem starfandi er innlent endurvinnslufyrirtæki. Ástæðan sé sú að aðeins sé greidd flutningsjöfnun að höfn en ekki á keyrslu innanlands.
Þá segir í skýrslunni að koma þurfi á reglubundnu samráði milli Skattsins og Úrvinnslusjóðs til að tryggja skilvirkt eftirlit með því að þeir sem greiða eiga úrvinnslugjald geri það. Sömuleiðis þarf slíkt samráð að eiga sér stað vegna endurskoðunar tollskrárnúmera með tilliti til úrvinnslugjalda, sem og að endurskoða þarf tollskrá.
Frekari umfjöllunar Stundarinnar um málefni Úrvinnslusjóðs er að vænta á næstunni.
Athugasemdir (1)