Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Þrettán ræðumenn lýst nasískum skoðunum - Sigmundur Davíð svarar ekki um þátttöku sína

Meiri­hluti þeirra sem deila sviði með Sig­mundi Dav­íð Gunn­laugs­syni á ráð­stefnu í Sví­þjóð hafa starf­að með hægriöfga­sam­tök­um, sum­ir í flokki sem vill senda millj­ón inn­flytj­end­ur úr landi. For­sæt­is­ráð­herr­ann fyrr­ver­andi svar­ar ekki spurn­ing­um.

Þrettán ræðumenn lýst nasískum skoðunum - Sigmundur Davíð svarar ekki um þátttöku sína
Af síðu bókamessunnar Sigmundur Davíð er kynntur til leiks ásamt tveimur fyrrverandi þingmönnum þjóðernisflokksins Svíþjóðademókrata sem tengjast nú framboði yst á hægri vængnum, Alternativ för Sverige.

Af þeim 95 ræðumönnum sem koma fram á Sænsku bóka- og fjölmiðlamessunni tilheyra 57 hægriöfgahópum, -stjórnmálaflokkum eða starfa hjá miðlum sem dreifa slíkum áróðri. Fimmtungur ræðumanna hefur starfað með hægriöfgaflokknum Alternativ för Sverige og þrettán af ræðumönnunum hafa lofað Nasistaflokk Hitlers eða afneitað Helförinni.

Þetta hefur rannsókn Stundarinnar og sænska miðilsins Expo leitt í ljós.

Stundin og Expo hafa sagt frá þátttöku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, í Sænsku bóka- og fjölmiðlamessunni sem fram fer í Stokkhólmi 20. ágúst. Sigmundur Davíð hefur verið auglýstur sem ræðumaður á ráðstefnunni sem opinberlega er kynnt sem vettvangur umræðna um tjáningarfrelsi, en er í raun skipulögð af samtökum sem hafa það að markmiði að tengja saman aðila með ólíkar áherslur innan þjóðernisöfgahreyfingar Svíþjóðar og efla hana.

Sigmundur Davíð hefur ekki svarað símtölum eða spurningum Stundarinnar í tölvupósti um málið.

Tengsl við sænskan hægriöfgaflokk

Ráðstefnan er ein af mörgum viðburðum og félögum sem notuð eru sem yfirvarp fyrir samtökin Nätverket, sem stýrt er af manni sem á sér langa sögu innan hægriöfgahreyfinga Svíþjóðar, Tor Paulsson. Hefur Nätverket tengst bæði netmiðlum sem breiða út kynþáttahatur og flokknum Alternativ för Sverige. Flokkurinn byggir á fyrirmynd frá Þýskalandi, hægriöfgaflokknum Alternativ für Deutschland, en sænski flokkurinn hefur það efst á stefnuskrá sinni að senda eina milljón innflytjenda úr landi. Flokkurinn hefur ekki náð árangri í þingkosningum, en á þrjú sæti á sænska kirkjuþinginu.

Athugun hefur leitt í ljós að 19 af 95 auglýstum ræðumönnum við ráðstefnuna hafa tengsl við Alternativ för Sverige, annað hvort sem frambjóðendur eða sjálfboðaliðar. Þar á meðal eru fyrrverandi þingmenn sem skipt hafa yfir í flokkinn úr þjóðernisflokknum Svíþjóðardemókrötum, þeir Olle Felten og Jeff Ahl. Annar ræðumaður er þingmaðurinn Roger Richthoff, sem þurfti nýverið að yfirgefa Svíþjóðademókrata eftir að hafa dreift myndbandi á samfélagsmiðlum þar sem Rússum er þakkað fyrir að hafa ráðist inn í Úkraínu. Í vor tilkynnti hann að hann mundi ganga til liðs við Alternativ för Sverige, en dróg það síðar til baka og sagðist enn vera að íhuga málið.

Umfram það eru 57 af ræðumönnum ráðstefnunnar svo vitað sé, eða 60 prósent þeirra, fólk sem starfar innan hægriöfgahópa eða fyrir fjölmiðla sem boða sjónarmið frá ýtrasta hægri væng. Hluti þeirra hefur tekið þátt í starfsemi nýnasistahópa.

Þrettán af ræðumönnunum sem koma fram á ráðstefnunni hafa deilt sjónarmiðum sem kenna má við nasisma. Þar á meðal er fólk sem heldur því opinberlega fram að Helförin, fjöldamorð nasista á gyðingum í Seinni heimsstyrjöldinni, hafi aldrei átt sér stað. Aðrir þeirra hafa lofað Nasistaflokk Þýskalands stríðsáranna eða foringja hans, Adolf Hitler.

Einn ræðumanna, Jan Emanuel Johansson, hætti við að koma fram á ráðstefnunni eftir að dagblaðið Expressen hafði samband við hann í júlí og benti honum á bakgrunn ræðumanna og skipuleggjenda.

Útvarp Saga fagnar þátttöku Sigmundar

„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er eitt af fjölmörgum þekktum andlitum baráttufólks fyrir lýðræði og málfrelsi,“ segir í frétt á vef Útvarps Sögu um þátttöku Sigmundar Davíðs í bókamessunni í gær. „Það er bæði ánægjulegt og mikill fengur fyrir Sænsku bókasýninguna, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður einn af ræðumönnum sýningarinnar.“

„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er eitt af fjölmörgum þekktum andlitum baráttufólks fyrir lýðræði og málfrelsi“

Samkvæmt fréttinni verður fulltrúi frá Útvarpi Sögu á staðnum 20. ágúst, en miðillinn hefur áður heimsótt bókamessuna. Þá fjallaði Gústaf Skúlason um heimildarmynd sem þar var sýnd. Leikstjóri hennar, Jonas Nilsson, verður einn af ræðumönnunum ásamt Sigmundi Davíð, en Nilsson starfaði áður með sænska armi Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar, nýnasistahópi sem kom til Íslands í september 2019 og dreifði áróðri á Lækjartorgi.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár